Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Það líður að kosningum.

Það er úr vöndu að ráða og þó ég hafi beitt útilokunaraðferðinni þá eru enn 50 (fimmtíu) nöfn eftir.

Gott og vel, mig vantar bara 24 nöfn og þá er listinn minn tilbúinn.

Ég hef ákveðið að setja Eirík Bergmann ( 2193 ) í efsta sætið. Þó svo skoðanir okkar fari ekki alltaf saman þá er ágreiningurinn hjóm eitt þegar horft er til þeirra átaka sem nú eiga sér stað innan Vinstri grænna, sama hvað  framámenn flokksins reyna að draga úr.

Fréttalestur dagsins hefur líka reynst einstaklega áhugaverður.

Það er nú þetta með forgangsröðun sitjandi (enn) ríkisstjórnar sem er fyrir neðan allar hellur og má þá til dæmis nefna glæsihýsið sem keypt var undir ra..... á sendiherra okkar í Englandi á litlar 870 millur, málningarvinna og ný eldhússinnrétting innifalin, og það í einu af flottari snobbhverfum Lundúnaborgar.

Verður ekki gjaldþrota þjóðfélag að spara eða eru það bara við eymingjarnir sem þurfum að herða sultarólina ?

Svo gramsa börnin okkar í ruslatunnum í þeirri veiku von að finna kannski diet-coke flöskur( því enn hafa einhverjir efni á slíkum munaði) til þess að geta keypt sér brauðbita í skólanestið.

Aðgerðir ráðamanna okkar hafa hingað til fólgist í óstöðvandi málæði þar sem lausnin er við næsta götuhorn, en, ekkert gerist.

Á meðan svelta ungarnir.

Góða fólk, ég hvet alla til að nýta sér atkvæði sitt og mæta í kjörklefann næsta laugardag. Forðist samt að kjósa fulltrúa hagsmunasamtaka sem hafa það eitt að leiðarljósi að hygla sér og sínum og traðka á öllum öðrum.

Þar til næst.

 


Af verslunar/viðskiptaháttum landans.

Í ljósi frétta sem á okkur dynja þessa dagana tel ég mig ekki fara offari þegar ég held því blákalt fram að fjármálafylleríinu sé ekki lokið. Eins og dæmin sýna og sanna.

Sala sendiráðsbústaðar í London skilaði galtómum ríkiskassanum 900 milljónum króna nettó, þ. e. þegar búið var að kaupa annan á litlar 870 milljónir. Með viðhalds og viðgerðarkostnaði.

Viðgerðir?

Gera má ráð fyrir málningarvinnu og smá nostri hér og þar og kannski er Ikea innrétting í eldhúsinu en slíkt er ekki boðlegt fulltrúum Íslands á erlendum vettvangi.

Inni í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár er áætlun um að kaupa sendiráðsbústað í New York. Kaupverð er ekki ljóst að svo stöddu, en í framhaldi af því koma mér í hug tvær lúxus íbúðir í Gramercy Park sem nefndur eigandi, Jón Ásgeir Jóhannesson, minnist þess ekki að hafa keypt (sambúðargleymska?) en myndu sóma íslenskum framámönnum vel, þegar búið er að skipta út eldhússinnréttingunni.

En svona án gamans þá liggur í augum uppi að breytingar hafa ekki orðið á íslensku samfélagi.

Kreppa eður ei.

Flottræfilshátturinn og sýndarmennskan er fremst í forgangsröðuninni og til að dekka kostnaðinn við að halda úti liðlega 30 sendiráðsskrifstofum, út um hvippinn og hvappinn, þá er eins og endranær ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur.

Ætlum við aldrei að læra? Ég segi við, því  einhver okkar kusu þessa stjórn yfir okkur, sem hefur það efst á óskalistanum að troða okkur inn í ESB og borga skuldir óreiðumanna. Önnur mál eftir minni.

Ráðamenn þjóðarinnar eru greinilega gengnir af göflunum og eru í þann mund að reka síðasta naglann í líkkistuna.

Kristján Þór Júlíusson setur fram margar skynsamlegar og raunsæjar hugmyndir sem ríkisstjórnin ætti að íhuga af fullri alvöru í stað þess að þumbast við, eingöngu vegna þess að þau höfðu ekki getu eða hugrekki til að setja slíkar tillögur fram.

Það er af mörgu að taka í skrifum Kristjáns en pistillinn "Forgangsraðað í vítahring" , segir í raun allt sem segja þarf og til muna meira en komið hefur fram hjá ráðamönnum þjóðarinnar. Þessa stundina.

Hvers vegna eigum við að halda úti íslenskri friðargæslu? Kostnaður 116 milljónir.

Hvers vegna eigum við að halda úti öllum þessum sendiráðsskrifstofum ( hversu margar eru þær í Afríku?) sem koma til með að kosta 3 milljarða árið 2011?

Hvers vegna eigum við að reka Íslandsstofu og  Ferðamálastofu sem tvær aðskildar stofnanir? Kostnaður 833 milljónir.

Hvers vegna geta stjórnarliðar ekki skilið að á krepputímum ber að spara og þá á réttum stöðum?

Svona mætti lengi telja en nóg að sinni.

Rak augun í frétt sem kom mér á óvart en þar fer Össur nokkur Skarphéðinsson mikinn vegna skjala sem fundist hafa í utanríkisráðuneytinu og sýna og sanna að íslenskir og bandarískir embættismenn hafi rætt saman í aðdraganda innrásarinnar í Írak.

Big news!

Auðvitað ræddu þeir saman. Dettur nokkrum heilvita manni annað í hug?

Hver er tilgangurinn með svona yfirlýsingu??

Hvernig kemst svona "frétt" í fjölmiðlana???

Svona rétt í lokin þá var ég að lesa frétt um væntanlega sölu Sjóvár. Við minnumst þess öll að ríkissjóður varð að dæla 16 milljörðum inn í tryggingafélagið sökum takmarkalausrar græðgi fyrrverandi eigenda þess sem tæmdu bótasjóðinn og skildu eftir sviðna jörð.

Eftir fréttum dagsins að dæma þá mun ætlunin vera að afskrifa 10 milljarða og selja svo leifarnar einhverjum bröskurum.

Ég vona af heilum hug að þetta sé bara Gróusaga. Nóg annað hefur gengið á.

Bið að heilsa og þar til næst.

 

 

 


Mismunandi aðferðir...

 

...mismunandi árangur.

Þetta eru nú bara smáaurar miðað við þær skuldir sem íslensku "útrásarvíkingarnir" skilja eftir sig og velt er yfir á veikburða herðar hins íslenska skattgreiðanda. Það er jú til fólk hér á Fróni sem borgar skatta.

Til dæmis verkafólk, aldraðir og öryrkjar.

Svo eru til auðkýfingar eins og Bjarni Ármanns sem finnst það óábyrgt að borga skuldir sínar.

Var nokkur að tala um veruleikafirringu?

Það er bullandi ábyrgðarleysi af mér að borga skattana mína enda væri ég löngu hættur því, væru þeir ekki rifnir af örorkulífeyrinum mánaðarlega.

Fjandans ábyrgðarleysi af mér að ég skyldi ekki koma í veg fyrir bankahrunið.

Þessis glæpamenn í suðurhluta Stokkhólms eru engan veginn jafn þrautþjálfaðir og fyrirsögn fréttarinnar hljóðar.

Þeir ættu að beina athygli sinni að þeim þjóðfélagshóp hérlendis sem kann alla prettina í bókinni, og reyna þá að læra eitthvað nytsamlegt sem gæti gagnast þeim í þeirri iðju sem þeir stunda.

Þar til næst.

 

 


mbl.is Þrautþjálfaðir glæpamenn að verki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlar um allan heim fjalla um endurfjármögnun bankanna.

 

Íslensku bankarnir eru að rísa eins og Fönix úr öskunni," sagði viðskiptasjónvarpsstöðin CNBC, í inngangi að viðtali við Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra, um endurfjármögnun íslensku bankanna. Fjölmiðlar um allan heim hafa fjallað um málið.

Það er fjallað um endurfjármögnun íslensku bankanna frá Suðureyri til Shanghai.

Já, það má segja að stóri bróðir hafi auga með okkur.

Það kæmi mér ekki á óvart þó fjölmiðlar um allan heim fylgdust grannt með störfum sérstaks (sérstakra ) saksóknara líka.

Svo ekki sé minnst á aðkomu Evu Joly, einum virtasta og þekktasta rannsóknardómara Evrópu, að þeim málum.

Nú dugir engin frændapólitík til að bjarga þeim hausum sem eftir eiga að fjúka.

Slíkt færi jú á stundinni í heimspressuna.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 


Orð að sönnu.

Ég stóðst ekki mátið þegar ég rakst á þessa grein Steingríms Hermannssonar fv. forsætisráðherra, í Tímanum, kosningablaði Framsóknarflokksins, en tók mér það bessaleyfi að birta smá klausu úr henni, vona að mér fyrirgefist frekjan.

Steingrímur segir svo: "Við Íslendingar verðum að horfast í augu við þá staðreynd að útilokað virðist að við getum greitt þær skuldir, sem á einstaklingum, fyrirtækjum og þjóðarbúinu hvíla. Ekki bætir það úr skák að við blasir vaxandi atvinnuleysi og minnkandi þjóðartekjur. Lántakendur einir eiga ekki að bera þessar byrðar. Það verða einnig lánveitendur að gera. Áætla verður án frekari tafa hvað miklar skuldir þjóðin getur borið, leggja dæmið fyrir lánveitendur með þeim skilaboðum að svo mikið geti þeir fengið, eða, að öðrum kosti, lítið sem ekkert. Ef við gerum þetta ekki eigum við á hættu að tapa öllu, meðal annars náttúruauðlindunum."

Ég hef ekki trú á að Ísland verði útilokað úr samskiptum við aðrar þjóðir, verði þessi leið farin.

Hvað gerðu Argentínumenn?

Buðu þeir ekki lánardrottnum sínum þrjátíu af hundraði ?

Þar til næst.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband