Margt er skrýtið í kýrhausnum.

Það kennir margra grasa í fréttaflórunni þessa dagana og ekki er allt jákvætt, frekar en fyrri daginn.

Reyndar er lítið rætt og ritað um kúlulánþega og þess háttar óþjóðalýð, burtséð frá smáfrétt er snertir forstjóra Bankasýslu ríkisins, sem mér er til efs að nokkur maður kippi sér upp við. Ekki eftir allt sem á undan er gengið.

Nú er hins vegar komið á daginn að núverandi yfirmaður Landsbankans í London, Baldvin Valtýsson, stýrði bankanum einnig fyrir hrun. Svo vitnað sé í DV. þá vill Baldvin ekki gefa upp hver laun hans eru en fullyrða má að þau nemi tugum milljóna á ári.

Niðurlag fréttarinnar vakti óskipta athygli mína en þar segir " Þeim mun hærri laun sem starfsmenn gamla Landsbankans fá, þeim mun hærri upphæð munu íslenskir skattgreiðendur þurfa að greiða upp í Icesave-skuldirnar."

Í framhaldi af þessu rifjast upp fyrir mér orð fjármálaráðherra þegar hann lýsti því yfir að hverju sandkorni yrði velt við til að uppræta spillinguna og eitthvað var minnst á gagnsæi og heiðarleika.

Svo kemur að "bókhaldsóreiðu" Björgólfsfeðga. Álíka skynsamlega orðað og þegar niðurskurður hins opinbera, með tilheyrandi uppsögnum þeirra lægst launuðu ( samanber Landsspítalinn ), nefnist hagræðing.

"Þær skýringar sem stjórn Samsonar, sem var skipuð Björgólfi Guðmundssyni, Sigþóri Sigmarssyni og Ágústi Leóssyni, gefur er að fjármálastjóri Samsonar hafi glímt við veikindi og því hafi bókhaldið ekki verið í lagi."

Ég vona svo sannarlega að áðurnefndur fjármálastjóri sé búinn að ná sér af veikindum sínum sem hljóta að hafa verið alvarleg því meðal annars finnast ekki samningar vegna lána til fjögurra aflandsfélaga á Tortóla upp á 800 milljónir króna.

Svínaflensan?

Svo að lokum, og þetta verður að fá að fljóta með!

Sigmundur Davíð kom víða við á hádegisfundi með félögum sínum í Reykjavík, sem haldinn var á Hótel Borg. Eins og honum er einum lagið. Hann furðaði sig á því að ekki hefði verið hlustað á framsóknarmenn varðandi Icesave málið.

Hann talar um stjórnarþingmenn sem ekki vildu þiggja "utanaðkomandi aðstoð" jafnvel þótt hagsmunir þjóðarinnar væru í húfi.

Ætlar drengstaulinn aldrei að átta sig á því að hann verður sér til skammar í hvert skipti sem hann opnar munninn á opinberum vettvangi?

Þann 13. okt. og aftur þann 20.okt. sl. bloggaði ég um þá félaga og flokksbræður Höskuld og Sigmund Davíð er þeir lögðust í (útrásar)víking og herjuðu á Noreg í þeim tilgangi að slá smá lán (tvö þúsund milljarða),svona rétt út á fésið sér.

Það þarf vart að taka fram að sú ferð var ekki farin til fjár.

Skömmu áður hafði Sigmundur garmurinn haft hátt um sig í þinginu - eins og svo oft áður - og sagði meðal annars " Þjóðin er fyrst og fremst í skuldakreppu, af hverju er þá verið að auka skuldirnar?"

Góð spurning Sigmundur.

Svo er drengurinn hissa á því að enginn vilji hlusta á hann.Angry

Nóg er komið að svo stöddu. Nú eru það heimaverkefnin sem bíða mín. Í þessum áfanga er það lögfræði. Ég heillaðist gjörsamlega. Þar fyrir utan blasa lögbrotin sem framin hafa verið, í hérumbil hverri einustu grein.

Og enn ganga menn lausir.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband