17.5.2010 | 09:38
Vikan sem leið.
Ekki dró til neinna stórtíðinda en þó voru nokkrar smáfréttir sem vöktu athygli mína.
Hér segir af Jóni nokkrum Ásgeiri Jóhannessyni. Fyrstu viðbrögð hans eftir að honum var birt stefna slitastjórnar Glitnis voru uppgjöf. Drengurinn bar við blankheitum og því gæti hann ekki varist í málinu, enda myndi það kosta gríðarlega háar fjárhæðir en skjótt skipast veður í lofti. Nú hefur hann ákveðið að snúa vörn upp í sókn.
Hvaðan skyldi stráksi, sem varla hefur efni á diet kók fá aura upp í málskostnað sem hlaupið gæti á tugum, ef ekki hundruðum milljóna?
Sigurður Einarsson situr sem fastast í húsinu sínu (?) í Chelsea, setur skilyrði og gefur íslensku þjóðinni langt nef. Ég var að velta fyrir mér hvort sumarbústaðurinn hans þarna á Veiðilæk í Borgarbyggð væri orðinn fokheldur. Fékk nebbnilega þessa fínu hugmynd. Slíkt gerist stundum með hækkandi sól. Þar sem húsið ku vera liðlega 700 fermetrar væri hægt að innrétta fangelsi fyrir allt að, ja, 30-40 vistmenn og grynnka á þeim fjölda sem bíður afplánunar og hver veit nema Siggi garmurinn komi sjálfur til með að gista þar. Væri vel við hæfi. Nú ríður á að hafa hraðar hendur því ekki er hægt að byrja að innrétta fyrr en búið er að hirða kofann af kallinum.
Nú vilja óprúttnir og illa innrættir aðilar selja auðlindir okkar útlendingum í þeim tilgangi að mér virðist til að byggja álver. Eitt enn. Undarleg er áráttan mannskepnunnar að horfa til orkufrekrar stóriðju þó á móti blási. Atvinnuleysi er mikið og byggingaframkvæmdir krefjast margra handa en þegar upp er staðið skilar álver tiltölulega fáum störfum. Bendi öllum eindregið á að lesa síðu Ómars Ragnarssonar en þar kemur margt fróðlegt fram.
Svona rétt í lokin vil ég koma því á framfæri við þá sem hafa verið að hnýta í mig út af hárlubbanum að klipping er ekki á fjárlögum öryrkjans en þar sem litli bró er þvílíkur snillingur í rúningi með rafmagnsklippum, eins og sást á mínum haus og annarra hér áður fyrr, hef ég ákveðið að hinkra þar til hann flyst ásamt fjölskyldu aftur til Íslands, að ári.
Þar til næst.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.