Af feluleik, forgangsröðun o.fl. djúsí.

Býsna fróðlegt að fylgjast með styrkveitingum til stjórnmálamanna vorra. Minnir smá á ameríska  kerfið þar sem þeir sem mest fjármagnið hafa millum handanna komast til metorða þegar hinir hverfa í gleymskunnar djúp.

Undarleg finnst mér þessi leynd sem virðist hvíla yfir upphæð styrkjanna til nokkurra af okkar ástkæru stjórnmálamönnum, minnir ögn á feluleikinn sem við vinirnir  fórum í sem börn þó svo hann væri annars eðlis.

Gísli Marteinn ber við önnum og gleymsku enda upptekinn af því að mennta sig í Edinborg á okkar kostnað. Kommon Gísli, það eru liðin fjögur ár. Svo langan tíma tók námið ekki.

Frá hinum heyrist ekki bofs og samkvæmt íslenskri hefð næst ekki einu sinni símasamband við þá.

Guðlaugur Þór Þórðarson þáði 24,8 milljónir  í styrki fyrir þingkosningarnar 2007. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisendurskoðunar þáði enginn hærri styrki en hann.
 Í Kastljósi 4. maí sagðist Guðlaugur ætla að upplýsa hverjir styrktu hann og birta það „mjög fljótlega."

Svo við snúum okkur að samgöngumálum þá kíkti ég á síðu Vegagerðar innar og trúði varla mínum eigin augum. Getur það virkilega verið að nú eigi að fara að bora í gegnum Vaðlaheiðina?

Ókei, ókei. Ég veit að bæði getur Vaðlaheiðin verið þungfær að vetri til og líka að leiðin milli Akureyrar og Húsavíkur styttist um 15,5 kílómetra en fyrr má nú vera. Mér koma í hug orð eins færeysks vinar míns, skömmu eftir að ég flutti til Færeyja árið 1990. "Við máttum ekki sjá hundaþúfu án þess að bora í gegnum hana." Áfram hélt hann og sagði mér frá einni af smærri eyjunum, minnir það hafi verið Skúvoy, en þar voru boruð fimm göng.

Síðan hefur sú eyja verið kölluð "Blokkflautan."

Áfram með smjörið. Gamlir og úr sér gengnir malarvegir eru eini samgöngumátinn milli smærri byggða t.d. á Vestfjörðum og samkvæmt niðurskurðaráformum verður frekara viðhaldi ýtt út í horn því það þarf að bora!

Hvað Vaðlaheiði snertir vil ég benda þeim sem ekki þekkja til að hún er í kjördæmi samgöngumálaráðherra okkar.

Ummæli vikunnar eru án efa orð Ólafar Nordal í þætti á ÍNN þar sem hún sagði: „Við vitum það auðvitað, við höfum farið yfir það áður, að þessi Rannsóknarskýrsla og þetta allt saman er að þvælast eitthvað fyrir okkur tímabundið“.

Í sama þætti féllu önnur ummæli sem að mínu mati eru ekki síðri en þar segir Guðlaugur Þór Þórðarson orðrétt: „Íslensk þjóð hefur ekki efni á því að Sjálfstæðisflokkurinn fái skell í þessum kosningum."

Ég hef grun um að hvorugt þeirra ríði feitum hesti frá þessum kosningum og svona rétt í lokin vil ég sem landsbyggðarmaður þakka fráfarandi borgarstjóra fyrir vel unnin störf því alþjóð veit að Hanna Birna er bæði heiðarleg og eldklár, en það kemur maður í manns stað. Með þessum orðum kveð ég ykkur að sinni og sný mér að öðru sem þessa stundina er mér hugleiknara en allt sem viðkemur kosningunum en það er að uppræta njólann úr garðinum. Vonandi tekst jafnvel að uppræta þessa landlægu spillingu sem alltof lengi hefur tröllriðið húsum hérlendis.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband