21.7.2010 | 19:57
Smámál dagsins.
Áfram dynja á okkur fréttir af "vafasömum" viðskiptaháttum Magma fyrirtækisins og, samkvæmt venju landans, sýnist sitt hverjum.
Eitt og annað er það sem vekur furðu mína í þessum viðskiptum. Allir þögðu þunnu hljóði þar til kaupin voru í höfn en þá varð allt vitlaust. Undarlegt í ljósi þess að kaupin áttu sér langan aðdraganda. Stjórnarandstaðan gargar sig hása þessa dagana , kennir ríkisstjórninni um og brigslar þeim um aðgerðarleysi, sem reyndar er ofvaxið mínum skilningi því stjórnin kom ekki nálægt þessum viðskiptum og mér vitanlega er háttvirtur bæjarstjóri Reykjanessbæjar stækur Sjálfstæðismaður. Þar fyrir utan hefur mér virst það fullt starf hjá núverandi ríkisstjórn að hreinsa upp eftir forvera sína.
Þó brennur á vörum mínum spurningin: Af hverju stofnaði Magma fyrirtækið ekki dóttur (skúffu) fyrirtæki hérlendis í stað þess að leita á náðir Svíanna? Annað eins gæti jú gengið.
En það gerist líka eitthvað jákvætt þessa dagana. Samkvæmt blaðafréttum hefur Jón Ásgeir lýst því yfir að þau systkin séu perluvinir. Ekki er ýjað einu orði að undirskriftafölsun (fréttir fyrri daga) sem gæti skrifast á óvönduð vinnubrögð blaðamanna sem ég hef þó litla trú á. Ég hallast helst að því að coke neysla Jóns, hér á ég að sjálfsögðu við diet-coke þambið, sé farin að trufla heilastarfsemina því það er sykur í diet-coke þó í litlum mæli sé.
Ég gleðst yfir þessari frétt því það er alltaf sárt til þess að vita að eitthvert smáauramál skuli leiða til sundrungar innan samheldinnar fjölskyldu.
Í framhaldi af því vonast ég til að Jóni Ásgeiri snúist nú hugur og hann láti ekki verða af því að kæra allt og alla.
Þar til næst.
Athugasemdir
Mig langar til að leiðrétta þetta með að enginn hafi verið að spá í þessu fyrr en kaupin gengu í höfn. Það hefur fjöldinn allur af fólki að reyna að benda á þetta eða ræða þetta allt frá því fyrir ári síðan þar sem þetta drukknaði í Ísbjargar- og ESB-umræðunni en hápunktur Magma-deilna þá var salan á hlut OR í HS Orku til Magma með gífurlegu tapi sem endaði með frekar miklum látum í ráðhúsinu þar sem einn var handtekinn fyrir að kasta skeinipappírsrúllu til Hönnu Birnu, gott ef ekki með þeim orðum að hún ætti að skeina sér og skammast sín fyrir að drulla svona á sig.
Þá varð að samkomulagi milli Magma og ríkisins til að lægja öldurnar að Magma hélt sig við það að vera minnihlutaiegandi meðan ríkið ákveddi framhaldið, sérstaklega þar sem eignarhaldið var óljóst og upprisa banksteranna var aðalmálið á dagskrá stjórnar. Svo kom vetur með Ísbjargardeilum og Skýrslu þar til Magma sleit skyndilega samkomulaginu við stjórnina, kaup keyrð í gegn á hlut Geysi Green í HS og forstjóri GGE ráðinn yfir til Magma. Friðurinn var rofinn þá en það er ekki fyrr en fyrir 2-3 vikum að fjölmiðlar fóru að sýna þessu áhuga.
Það hefur nefnilega verið líka algjört áhugaleysi hjá fjölmiðlum gagnvart þessu máli þar til nú, blaðamenn hafa víst m.a.s. látið það út úr sér að þetta hafi ekki verið nógu "sexí" þar til það var endanlega sýnt svart á hvítu í myndum og máli að þetta var skúffufyrirtæki án nokkurs í Svíþjóð. Þeir höfðu ekki einu sinni haft fyrir því að kanna þetta sjálfir.
Agnar Kr. Þorsteinsson (IP-tala skráð) 21.7.2010 kl. 22:14
Takk fyrir góða og vel þegna athugasemd sem sýnir að mér hefur tekist að vekja fólk til umræðu um þessi mál.
Bkv. Jökull
Þráinn Jökull Elísson, 22.7.2010 kl. 00:03
Ef Magma hefði stofnað dótturfyrirtæki á Íslandi, þá hefði það verið ansi erfitt fyrir fyrirtækið að borga með aflandskrónum eins og það gerði. Magma fékk 500 milljón króna aflsátt fyrir að hafa dótturfyrirtæki í Svíþjóð en að hafa það hér á Íslandi.
Það er ekkert minnst á þetta því enginn virðist skilja þetta.
Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 22.7.2010 kl. 02:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.