Af hreinskilni, heilindum og heiðarleika.

Enn og aftur gerist það.

Eitthvað rámar mig í orð eins og "gegnsæi" og hugtak eins og "hverju sandkorni skal velt við, til að uppræta spillinguna." Falleg orð en innantóm.

Nú hefur háttvirtur félagsmálaráðherra sýnt innræti sitt með því að ráða vin sinn til margra ára, berskuldugan þar að auki, sem umboðsmann skuldara. Sá sat í starfinu í einn sólarhring. Það sem fer þó mest fyrir brjóstið á mér eru röksemdirnar og svo réttlætingarnar sem fylgdu, en eins og gefur að skilja, féllu í grýttan jarðveg.

Augljóslega hafa stjórnarliðar lært of mikið af forverum sínum og halda óbreyttri stefnu hvað varðar "pólitískar ráðningar" þrátt fyrir gefin loforð.

Hvað varð af siðferðinu?

Erum við öll orðin svo gegnsýrð af frændapólitíkinni og rótgróinni spillingunni sem hér hefur ríkt um kynslóðabil að við séum hætt að kippa okkur upp við slíkar fréttir?

Eigum við kannski von á einhverjum "bitling?"

Það þarf reyndar ekki að fara lengra en aftur í sjöundu kynslóð í Íslendingabókinni til að fá svarið: Allir Íslendingar eru skyldir sjálfum sér!" Sem segir kannski allt sem segja þarf því það fer enginn að ganga framhjá ættingja sínum þegar að því kemur að hygla.

Nú er okkur sagt að hér á landi ríki kreppa sem vel að merkja passar ágætlega við það sem við óbreyttur almúginn finnum á okkar auma skinni. Hversu undarlega sem það hljóðar þá virðist kreppan ekki ríkja meðal elítunnar svo horft sé á ofurlaun bankastjóra vorra sem nú rokka feitt á kostnað hins óbreytta því búið er að dæla milljörðum króna í löngu vonlausar fjármálastofnanir, en áfram skal dansinn duna því við megum ekki tapa andliti. Við verðum að halda uppi fjármálakerfi sem myndi nægja tífalt stærri þjóð og vel það, en það er nú þetta með sýndarmennskuna.

Samanber öll sendiráðin á öllum Norðurlöndunum.

Haldi núverandi ríkisstjórn stefnu sinni óbreyttri þá kallar slíkt á kosningar og það fyrr en seinna sem hefur í för með sér að "Hrunverjar" komast aftur til valda og geta haldið uptteknum hætti þ. e. að hygla sínum.

Er þetta ekki farið að hljóma kunnuglega? Einkavæðing þetta, einkavæðing hitt? Seljum auðlindirnar hæstbjóðanda, skítt með afleiðingarnar því þeir sem selja sjá sér alltaf gróðavon í öllum sínum athöfnum þó svo á kostnað hins óbreytta séu. Svo koma útskýringar og réttlætingar.

Hver skyldi annars eiga alla aflestrarmæla Reykjavíkurborgar og hvaða flokki skyldi hann tilheyra?

Íslenskir gróðahugsjónarmenn virðast enn ekki hafa gert sér grein fyrir þeirri einföldu staðreynd að ef kýrin á að mjólka þá þarf að fóðra hana fyrst, ergo: Almúginn getur ekki borið meira á sínum signu herðum.

Í þeirri von að þessar hugleiðingar mínar veki fólk úr öllum flokkum til umhugsunar kveð ég ykkur að sinni og þar til næst.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikta E

Þráinn Jökull - Varðandi ráðningu félagsmálaráðherra á vini sínum sem umboðsmann skuldara - þá álít ég að í því tilfelli hafi Runólfur verið rétti kandídatinn í starf umboðsmannsskuldara.

En Árni Páll réð hann ekki vegna þess að hann væri hæfastur - heldur vegna þess að þeir voru vinir og báðir í Samfylkingunni.

Hæfnin á að vera í fyrirrúmi. 

Benedikta E, 6.8.2010 kl. 22:14

2 Smámynd: Þráinn Jökull Elísson

Því miður þá réði flokkspólitíkin ferðinni.

Þráinn Jökull Elísson, 6.8.2010 kl. 22:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband