4.9.2010 | 00:21
Að vera með, eða móti.
Nú, rétt eins og fyrri daginn, er hver höndin upp á móti annarri í búðum Alþingis, og slíkt og þvílíkt fer að verða ansi þreytandi.
Skiptir engu máli hverju ríkisstjórn okkar fitjar uppá, stjórnarandstaðan er svo sannarlega í andstöðu.
Eitthvað rámar mig í að allir hefðu ætlað að leggjast á eitt og vinna sameiginlega að því að koma okkur úr því klandri sem nokkrir einstaklingar komu okkur í og fara nú hamförum að finna sér sökudólg og hvítþvo sjálfa sig.
Ég velti því stundum fyrir mér hver staðan væri, sæti hægri stjórn við völd í dag.
Engin Eva Joly?
Sennilega væru vinstri menn þá í því að rífa niður aðgerðir hægri manna.
Dapurlegt.
Samkvæmt íslenskri hefð gjamma þeir hæst sem ættu að segja sem minnst. Bjarni Ben. talar um sjónarspil. Sigmundur Davíð talar um óðagot, en hann hefur þó vit á því að þegja um Noregsferð sína og Höskulds flokksbróður síns, eftir að hafa látið gamminn geisa um skuldasöfnun Íslendinga og skrapp svo yfir pollinn til Noregs í þeim tilgangi að betla ca. tvö þúsund milljarða út á smettið á sér, en eins og gefur að skilja fór erindisleysu.
Við eigum langt í land með uppbyggingu nýs þjóðfélags ef þessi vinnubrögð eiga að viðhafast.
Nú dynja á okkur fregnir af "útrásarvíkingunum", Kalli kallinn Wernersson orðinn framkvæmdastsjóri Lyfja og Heilsu, í góðri sátt að okkur er tjáð.
Næst verður það sennilega Fálkaorðan.
Nú hefur Arion banki hefur gert kyrrstöðusamning við Gaum eignarhaldsfélag Bónusfjölskyldunnar. Það þýðir að félagið verður hvorki tekið til gjaldþrotaskipta né gengið að eignum þess meðan samningurinn er í gildi. Gaumur skuldar bankanum tugi milljarða króna og hluti lána félagsins var á gjalddaga í haust.
Það liggur við að ég skammist mín enn og aftur fyrir þjóðerni mitt.
Svona rétt í lokin þá vil ég taka það fram að þó ég sé fylgjandi ýmsu af því sem núverandi ríkisstjórn hefur fitjað upp á þá er frekari skattlagning, að mínu mati gjörsamlega út úr kortinu.
Aukin skattheimta (og þetta veit hver einasti framhaldsskólanemi ) dregur úr einkaneyslunni sem er drifkraftur efnahagsstarfsseminnar og mér er með öllu óskiljanlegt að ráðamenn þjóðarinnar hafi ekki komið auga á það enn.
Ég ætla að hætta að ergja mig að sinni og býð ykkur öllum góða nótt.
Þar til næst.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.