Hugleiðingar í vikulok.

Tíðindi vikunnar hljóta að teljast úrskurður Hæstaréttar Luxemborgar um afhendingu allra gagna úr Banque Havilland bankanum þar í bæ. Eins og fram kemur í fréttinni eru gögnin talin hafa verulega þýðingu fyrir rannsókn á Kaupþingi. Þá fer að draga til (stór)tíðinda hjá Sérstökum.

Í framhaldi af því fór ég að velta fyrir mér stöðu fangelsismála hérlendis sem er ákaflega dapurleg. Rætt hefur verið um byggingu nýs fangelsis síðustu áratugi en einatt verið blásið út af   borðinu. Umræður síðustu daga hafa snúist um nýtingu vinnubúða frá Reyðarfirði sem væntanlegt húsnæði með pláss fyrir allt að 50 manns. Fangelsisstjóri setur sig á móti þeirri hugmynd og segir ekki þörf á meiru bráðabirgðahúsnæði og bendir á Bitru sem, eftir því sem ég kemst næst, er rekin á sama hátt og Kvíabryggja. Sem varla er til bráðabirgða.

Þarna er ég ósammála Páli Winkel. Þörfin hefur aldrei verið meiri en nú þegar 300 manns bíða afplánunar og gæti farið fjölgandi á næstu mánuðum.

Kostnaðurinn við vinnubúðirnar er talinn  vera 90 milljónir sem er brot af þeirri upphæð sem ráðamenn okkar til hægri og vinstri hafa sóað í gæluverkefni. Hvað snertir byggingu nýs fangelsis þá hefur það ekki verið boðið út og samkv. frétt frá innanríkisráðuneytinu verður slíkt óstaðsett í útboði. Ef við lítum svo á kostnaðarhliðina þá er verið að tala um tæpa tvo milljarða. Sem ekki eru til.

Á sama tíma standa þúsundir fermetra af ónýttu húsnæði í nánd við höfuðborgarsvæðið sem er hægt að breyta í fangelsi með mun minni tilkostnaði. Sama hvað sagt er. Ég get ekki fallist á að allir þeir sem bíða afplánunar þurfi að gista í "öryggisfangelsi." Þegar upp er staðið ætti Litla Hraun að nægja.

Hugsunarháttur þjóðarinnar og sérílagi ráðamanna verður að breytast. Þetta er ekki árið 2007 og í hvert skipti sem teknar eru heimskulegar ákvarðanir og þær eru ófáar, þá þyngjast álögurnar sem samkv. hefðinni lenda á þeim sem minnst mega sín en þegar búið er að reyta allar fjaðrirnar af fuglinum á þá að tálga kjöttægjurnar líka?  Og fólksflóttinn eykst.

En nú að öðru.

Fréttir frá hinu háa Alþingi eru í sama dúr og undanfarna mánuði, "ekki benda á mig" viðhorfið ríkjandi og skiptir þá engu hver á hlut að máli. "Þeir sem hæst geyja ættu að þegja" sagði bóndinn þegar hann var að sussa á hundinn sinn. Orð að sönnu.

Ég rakst reyndar á skondna frétt af einum háttvirtum sem man ekki hvort hann greiddi  atkvæði með eða móti stjórnlagaþinginu. Skyld´ann muna hvort hann yfirhöfuð greiddi atkvæði??

Ég get ekki látið hjá líða að minnast á þessi gegndarlausu áfengiskaup háttvirtra okkar. Fyrir tíu og hálfa milljón, reyndar tuttugu og eina því mannskapurinn fær búsið á hálfvirði, mætti borga laun nokkurra innan heilbrigðisþjónustunnar.

Það læðast að mér margar ljótar hugsanir en ég ætla ekki einu sinni að leiða getum að því að þetta áfengiskaupastjórnleysi sé orsök alls slugsins og klúðursins sem ég verð alltof oft vitni að. Ég geri þá lágmarkskröfu að þessi "hlunnindi" verði afnumin með öllu. Hafi liðið ekki efni á að borga fullt verð fyrir sopann þá er bara að sleppa því.

Það er ekki flóknara en svo og með þessum orðum kveð ég að sinni og þar til næst.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Örn Kristjánsson

Flott mynd á forsíðu hjá þér, Þráinn. Skæva pakkhús lengst til hægri og Vesturkirkjan trónir yfir... tekin úr Vesturvági, ekki satt?

Emil Örn Kristjánsson, 30.1.2011 kl. 01:50

2 Smámynd: Þráinn Jökull Elísson

Þetta með pakkhúsið er rétt hjá þér en myndin er tekin með aðdráttarlinsu úr Vágsbotni. Í húsinu með þessu líka tröppum leigði ég litla íbúð á jarðhæðinn um tíma þar til ég komst í varanlegt húsnæði. Þarna bakatil er sameiginlegt þvottahús og svo geymslur fyrir þessar þrjár íbúðir. Inngangurinn hjá mér var að framanverðu, stofan og eldhúsið, herbergin vinstra megin. Lengra til vinstri var svo stór vinkillaga rauðmáluð bygging sem var "gamli spítalinn" veit reyndar ekki hvort það var sá fyrsti en þegar ég bjó þarna við hliðina þá voru þar þrjár stærðar íbúðir. Ölítið lengra til vinstri er svo slippurinn sem í dag á bæði húsin. Eftir að slippstöðin keypti þá var spítalinn fluttur og stendur í dag fyrir ofan og til hægri við hvíta húsið. Sömu sögu gegnir um tvílyft frekar lítið rauðmálað hús sem stóð hérumbil beint upp af spítalanum og slippurinn hefur átt árum saman. Það var fært um set og eftir þessa flutninga gjörbreyttist öll athafna aðstaða fyrir slippinn. Það hús var reyndar notað fyrir pólska skipasmiði sem starfa hjá slippnum. Hérlendis hefðu þessi hús að öllum líkindum verið rifin! Færeyingar varðveita hins vegar sögu sína mun betur en við. Ég hef stundum gaman að rifja upp fyrir mér aðdragandann að Færeyja dvöl minni. Ég er lærður matreiðslumaður og sumarið 1990 réð ég mig í 3ja mán. sumarstarf á Hótel Borg sem heitir í dag Hótel Föroyar. Árin urðu hins vegar ellefu. Ef heilsan hefði ekki bilað væri ég að öllum líkindum þar enn. Hvað sem því líður þá dreif ég mig í framhaldsnám en hugurinn leitar alltaf þangað. Kósin verður sett á Færeyjar þegar þar að kemur. Bkv.

Þráinn Jökull Elísson, 30.1.2011 kl. 03:54

3 Smámynd: Emil Örn Kristjánsson

Já vinir okkar og frændur Færeyingar eru einstakt fólk. Ég hef heimsótt Færeyjar oftar en ég fæ tölu á komið en aldrei dvalizt lengi í senn.

Ég dáist að því hvernig þeir hafa, sem tæknivædd og upplýst nútímaþjóð, náð að halda í hefðir sínar og þjóðerni og það af stolti en um leið laust við allan hroka.

Við mættum taka þá til fyrirmydnar á ýmsum sviðum.

Emil Örn Kristjánsson, 30.1.2011 kl. 14:22

4 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

!! Sammála

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 31.1.2011 kl. 02:05

5 Smámynd: Hjalti Tómasson

Þakka þér fyrir prýðilega hugvekju.

Hvað fangelsismálin varðar þá er ég þeirrar skoðunar að leysa eigi þau á hagkvæmasta máta. Ef hægt er að gera þessa skúra mannhelda þá ættu menn ekki að hugsa sig um tvisvar. Án þess að vilja vera einhver boðberi harðari eða ómannúðlegri refsinga þá liggur samt við að manni þyki nóg um hve öllum verður annt um þessa ógæfumenn þegar þeir komast undir manna hendur og mikil áhersla lögð á að vel fari nú um þá. Ég er nokkuð viss um að það er til fólk út í samfélaginu með æruna óskerta sem myndi þakka fyrir þær trakteringar sem föngum er boðið upp á.

Og satt segir þú, nóg er til að ónotuðu húsnæði í og í nágrenni Reykjavíkur. Kannski væri hægt að láta þessar byggingar vinna fyrir gjaldþrotunum með þessum hætti frekar en að láta þær standa auðar og grotna niður.

Um stjórnmálamennina ætla ég ekki að fjölyrða að sinni, það er kappnóg að fylgjast með fjölmiðlum og draga sínar ályktanir af því

Hafðu það gott

Hjalti Tómasson, 3.2.2011 kl. 23:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband