26.2.2011 | 05:07
Að gefa með annarri en taka með hinni...
...er það fyrsta sem mér datt í hug, eftir að hafa fylgst með Kastljósi í kvöld, þar sem tekið var á málum okkar öryrkja, af skynsemi og raunsæi.
Stimpillinn sem við höfum fengið á okkur, hvað varðar leti og ódugnað er nokkuð sem erfitt er að losna við. Því miður en ég álít að slíkt hljóti að stafa af þekkingarleysi. Ég meina...hver vill reyna að draga fram lífið á 150 þús. á mánuði??
Ég hef verið löggiltur öryrki í sjö ár nú, þó svo aðdragandinn hafi spannað yfir næstum tvo áratugi, afleiðingar af all alvarlegu bílslysi sem ég lenti í liðlega tvítugur. Það var kannski ekki það skynsamlegasta að fara í kokkanám eftir þá katastrófu en á þeim árum komst ekkert annað að í mínum huga. Að námi loknu starfaði ég í faginu í tuttugu og fimm ár, var löngu búinn á því en ég tengdi það aldrei bílslysinu. Menn hafa jú missterkan hrygg.
Ég er reynslunni ríkari í dag þó svo ég hafi lært "the hard way". Ég er svo lánssamur að hafa eignast mitt eigið húsnæði eftir að ég flutti til landsins aftur. Þar er ég betur settur en margur annar. Ég tók mig til og ákvað að læra mig út úr örorkukerfinu en slíkt gerist ekki án utanaðkomandi aðstoðar. Þar nýt ég aðstoðar fjölskyldunnar og fékk meira að segja smá námsstyrk sem ég er þakklátur fyrir, því hver króna telur.
Það fer að líða að því að ég verði að taka ákvörðun um framhaldið en þar klóra ég mér í kollinum því ég geri mér grein fyrir fötluninni og þar fyrir utan er ég algjör þurs í stærðfræði. Tíminn vinnur hins vegar með mér.
Reyndar var margt annað í kvöldfréttunum sem vakti athygli mína t. d. þegar fjármálaráðherra vor reyndi að klóra yfir skí.... úr sér þegar hann reyndi að réttlæta gjafagjörninginn til handa þremur meðferðarstofnunum (einkareknum) sem allir sjá nema hann, bjálfinn sjálfur.
Orðin gagnsæi og heiðarleiki virðast ekki eiga við...nema þegar honum hentar, OG þetta eru skattpeningarnir okkar því ég borga skatt af örorkulífeyrinum, því þó svo oftar en ekki hafi verið til umræðu að hækka skattleysismörkin þá virðast allir þingmenn okkar fá fyrir brjóstið þegar minnst er á slíkt.
Slík er nú staðan hjá okkar háttvirtu en þeir ættu að minnast þess að enginn er æviráðinn í stólinn og ef fram heldur sem horfir þá kemur að stóra hvellinum.
Nú ætla ég ekki að halda því fram að staðan væri betri, nú í það minnsta öðruvísi, ef Hrunverjar kæmust í stjórn aftur. Öðru nær. En mikið væri nú ánægjulegt ef okkar háttvirtu hefðu haft, þó ekki væri nema smá snefil af skynsemi, þegar kom að forgangsröðuninni.
Ég hef líka velt fyrir mér ástæðunni fyrir brottfellingu 8. greinarinnar úr Iceslave samningnum sem kvað á um að þeir sem sekir yrðu fundnir um misferli hvað snerti bankana yrðu látnir svara til saka.
Það læðast að mér margar ljótar hugsanir en ég ætla ekki einu sinni að leiða getum að því að verið sé að makka á bak við tjöldin, þó mér finnist furðu snögg umskiptin hjá formanni Sjálfstæðisflokksins. Bjarni Ben er enginn auli en hvað veldur þá þessum sinnaskiptum??
Já, það er margt einkennilegt sem gerist þessa dagana en hins vegar gerist ekkert, í búðum Sérstaks, allavega ekkert sem við fáum að vita.
Fyrir utan það hefðbundna að einn sé kærður fyrir eitt og annar sé kærður fyrir annað en svo lognast málin út af.
Það er jú hefðin hjá landanum og með þessum orðum býð ég góða nótt, og þar til næst.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.