10.3.2011 | 23:05
Hvað varð af "Nýja-Íslandi??
Eitthvað rámar mig í orð eins og "gagnsæi, heiðarleika, o.sv.frv. en þegar vel er að gáð er staðan óbreytt.
Fálmkenndar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa í rauninni gert illt verra, sbr. frystingu lífeyris aldraðra og öryrkja. Eðlilega. Einhver þarf jú að borga brúsann og samkvæmt venjunni er ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. Þar fyrir utan er skattlagt til hægri og vinstri ef einhversstaðar vantar aur .Á sama tíma eykst landsflóttinn svo um munar en það hefur ekki farið fram hjá neinum, nema þá helst stjórnarliðum.
Síðustu daga hafa dunið á okkur fréttir af ofurlaunum bankastóra hins "Nýja og óspillta Íslands" og oftar en ekki með réttlætingum sem hver einasti grunnskólanemi myndi sárskammast sín fyrir.
Minna fer fyrir fréttum af kúlulánþeganum og bankastjóra Íslandsbanka, Birnu Einarsdóttur, sem er með, eftir síðustu launahækkun litlar 2, 6 milljónir í mánaðarlaun sem, vel að minnast eru sex hundruð þúsundum fyrir ofan eins árs örorkulífeyri einstaklingsins.
Í framhaldi leikur mér hugur á að vita:
a) samdi Birna um afborganir af 800 milljóna kúluláninu?
b) fékk hún lánið afskrifað??
c) er lánið í vanskilum???
Á sama tíma er verið að hirða hús af fólki sem hefur ekkert til saka unnið annað en að missa atvinnuna.
Fram hefur komið að Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arionbanka, hafi verið með 4,3 milljónir kr. í laun í mánuði í fyrra.
Iða Brá benediktsdóttir, forstöðumaður samskiptasviðs Arionbanka,, segir að Höskuldur sé með 2,9 milljónir kr. í mánaðarlaun hjá bankanum. Hærri launagreiðslur á árinu 2010 skýrist af sérstakri eingreiðslu, upp á 10 milljónir, sem samið hafi verið um þegar Höskuldur lét af störfum sem forstjóri Valitors sl. sumar, en hann hóf störf hjá Arionbanka 1. júní í fyrra.
Skilaboðin sem send eru þjóðinni eru ótvíræð.
"Við fleytum ofan af, þið súpið seyðið."
Framtíðarhorfur þeirra sem landið skulu erfa eru ekki góðar. Nema þá fyrir ungana sem eiga góða að.
Mér er hinsvegar spurn. Hver á að vinna skítverkin þegar fólksflóttinn skellur á fyrir alvöru?
Varla fólk sem aldrei hefur þurft að dýfa höndinni í kalt vatn.
Staðan er ekki glæsileg og með þessum orðum býð ég góða nótt og þar til næst.
Athugasemdir
a) samdi Birna um afborganir af 800 milljóna kúluláninu?
b) fékk hún lánið afskrifað??
c) er lánið í vanskilum???
--
Góðar spurningar, væri til í að vita svarið við þeim.
Nýja Ísland já.. lítið hefur farið fyrir því. Sama virðist vera uppi á teningnum og var fyrir hrun.. bara nýir aðilar að mestu leyti komnir að kjötkötlunum.
Lausnir ríkisstjórnarinnar virðist vera að hækka skatta og búa til nýja skatta.. allt hækkar í verði, allar vörur... lánin hækka við hverja afborgun... allt hækkar nema launin, en þau standa í stað hjá flestum og margir hafa tekið á sig launalækkanir..
Nýja Ísland?... góður þessi..
ThoR-E, 11.3.2011 kl. 10:23
Nýja Island hvað ? Stóð það einhvern tíma til ? Góður Þráinn.
P.s Þráinn þetta er bara skelfilegt hvernig er komið fyrir landinu okkar
Kristinn J (IP-tala skráð) 11.3.2011 kl. 20:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.