6.4.2011 | 04:46
Á Laugardaginn Segi Ég Nei!
Á laugardaginn ganga á þriðja hundrað þúsund manns til kosninga. Til kosninga sem geta haft afdrifarík áhrif á líf okkar , barna okkar og jafnvel barnabarna okkar.
Ég var lengi vel tvístígandi því áhætta fylgir úrslitunum, sama hver niðurstaðan verður. Það yrði alltof langt mál að telja upp öll þau atriði sem úrslitin, sama á hvorn veg þau fara, hafa í för með sér.
Eitt er þó það sem sló mig all harkalega en það er brottfelling 8. greinarinnar í Icesave III. Fyrir þá sem ekki þekkja þá hljóðar hún svo.
"8. gr. Endurheimtur á innstæðum.
Ríkisstjórnin skal þegar í stað grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana sem þarf til að endurheimta það fé sem safnaðist inn á Icesave-reikningana. Í þeim tilgangi skal ríkisstjórnin fyrir 15. október 2009 hafa frumkvæði að samstarfi við þar til bæra aðila, m.a. yfirvöld í Bretlandi, Hollandi og Evrópusambandinu, og óska aðstoðar þeirra við að rekja hvert innstæðurnar af Icesave-reikningunum voru fluttar. Ríkisstjórnin skal fyrir árslok 2009 semja áætlun um hvernig reynt verður að endurheimta það fé sem kann að finnast.
Í því skyni að lágmarka ríkisábyrgð samkvæmt lögum þessum skal ríkisstjórnin einnig gera ráðstafanir, í samráði við þar til bæra aðila, til þess að þeir sem kunna að bera fjárhagsábyrgð á þeim skuldbindingum sem stofnast hafa vegna Icesave-reikninganna verði látnir bera það tjón."
"Hreyfingin lagði fram breytingartillögu um að setja þessa grein aftur inn en hún var felld af meiri hluta þings, þar með talið sjálfstæðismönnum. Með því að fella út þessa grein dregur verulega úr því að hinir seku verði dregnir til ábyrgðar."
Þrátt fyrir að hafa reynt að afla mér upplýsinga, þar á meðal sent fyrirspurn til háttvirtra alþingismanna okkar, hef ég ekki fengið svör.
Það læðast að mér margar ljótar hugsanir en til að gæta velsæmis hef ég ákveðið að halda þeim fyrir mig sjálfan.
Þó spyr ég: Hvern er verið að vernda??
Í það minnsta ekki okkur , "litla fólkið" sem búum í þessu norræna velferðarsamfélagi sem vel á minnst er til háborinnar skammar. Það þarf ekki að líta lengra en til Norðurlandanna til að sjá muninn. Ekki að ástæðulausu að landinn leggur leið sína þangað vitandi að þar bíður betra líf. Þó svo núverandi ríkisstjórn hafi tekið við brunarústum þá má í framhaldi af því benda á forgangsröðunina sem að mínu mati var gjörsamlega út í hött. Það má líka nefna það stjórnleysi sem viðgengst, hvort heldur er meðal bankastjóra eða skilanefnda eða... Svona mætti lengi telja.
Á sama tíma flýja óbreyttir skerið.
Á sama tíma á að neyða okkur, sem eftir sitjum, til að samþykkja greiðslu skuldar sem nokkrir óprúttnir aðilar stofnuðu til en kemur til með að hvíla á herðum barna okkar og barnabarna.
Og enn ganga þeir lausir og lifa hátt...erlendis. Sennilega þora kvikindin ekki að láta sjá sig hérlendis. Varla að ástæðulausu.
Á ríkissjóði hvílir nú þegar ábyrgð upp á þrettán hundruð milljarða og ef Icesave samningurinn verður samþykktur þá bætast við tæpir sjö hundruð milljarðar. Mér blöskrar að heyra raddir sem halda því blákalt fram að með samþykkt Icesave komi lánstraust okkar til með að aukast.
Það hlýtur hver heilvita maður að skilja að auknar skuldir bjóða ekki upp á aukið lánstraust en kannski er ég orðinn svo úreltur að ég skilji ekki nútímans þankagang. Ég veit þó að skuld sem ekki er greidd á gjalddaga hleður á sig vöxtum og vaxtavöxtum. Reikni svo hver fyrir sig.
Ég ætla mér ekki, með þessum skrifum mínum, að hafa áhrif á neinn. Þetta eru bara hugsanir mínar, dapurs, miðaldra ,vonsvikins manns sem horfir á þjóð sína skeiða hraðbyri til helvítis.
Ég er hins vegar búinn að taka þá ákvörðun að segja NEI á laugardaginn.
Þar til næst.
Athugasemdir
Þakka þér Þráin fyrir gott mál og sérlega athyglisverða athugasemd . Nei skal það auðvita vera því við höfum ekki efni á Icesave treyjunni , hvað mikið sem einhvern langar í hanna.
Hrólfur Þ Hraundal, 6.4.2011 kl. 09:10
Á laugardaginn segja ekta íslendingar Nei. Þeir verða a.m.k. 70 %
Sumir segja að þrotabú gamla LI dekki um 90% upp í kröfurnar. það er ekki rétt.
Það dekkar aðeins 30%, sjáið bara til þegar þar að kemur....
Kristinn M (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 09:33
Hvernig sem já-sinnar eða nei-sinnar velta Icesavemálinum fyrir sér og ræða „dómstólaleiðina“ eða aðra mögulega niðurstöðu þessa máls þá er í raun aðeins ein leið til að meta það.
Hver sá sem ætlar að kjósa ætti að setja sig í spor þess sem málið snýst um. Það er hinn venjulegi sparifjáreigandi.
Allir sen setja fé á bankareikning ætlast til þess að peningarnir séu til staðar þegar þeim hentar að taka féð út aftur. Bankar verða að vera öruggar stofnanir, jafnvel þótt þeir hafi verið einkavinavæddir.
Þetta er svo augljóst að það ætti varla að þurfa að benda á þetta - en í öllum látunum kringum þetta mál þá er eins og að sumir hafi gleymt þessari grundvallarreglu.
Í samstarfi okkar við aðrar Evrópuþjóðir á mörgum sviðum þá gilda reglur sem banna mismunun eftir þjóðerni eða búsetu. Banki má ekki mismuna Englendingi sem býr í Reykjavík og geymir sitt sparifé í útibúi bankans í Reykjavík gagnvart Englendingi sem býr í London og geymir sitt fé í útibúi sama banka í London. Sama gildir um Íslendinga sem búa á Íslandi eða í Englandi. Allir innistæðueigendurnir skulu eiga sömu réttindi og sofa því sælir í sínum heimabæ.
Þetta er grundvallarreglan í Icesavemálinu. Nú er ljóst að neiti Íslendingar að ganga frá málinu með fyrirliggjandi samningi þá eru þeir að segja að þessi regla sé ekki í gildi. Það má mismuna.
Sömu aðilar virðast aðallega byggja afstöðu sína á því að það sé verið að kúga þá til að borga „ólögvarðar einkaskuldir óreiðumanna“. Jafnaðarreglan sem samskipti Íslendinga við aðildarþjóðir EES-samningsins byggðist á er skyndilega orðin „kúgun“ (fyrrum nýlendukúgara, útlendinga etc.).
Íslenskt innistæðutryggingakerfi brást, bæði gangvart íslenskum innistæðueigendum á Íslandi og innistæðueigendum Landsbankans erlendis. Íslenska ríkið hljóp undir bagga og tryggði innistæður hér heima. Og nú er búið að semja um að íslenska standi með sama hætti að baki tryggingasjóðnum gagnvart erlendum innistæðueigendum. Sem betur fer þá duga eiginir þrotabús Landsbankans næstum fyrir allri greiðslunni.
Segjum já!
Hjálmtýr V Heiðdal, 6.4.2011 kl. 09:53
við skuldum ekkert það er landsbankinn mitt svar er NEI og skiljið neið
Ragnar Þór Ragnarsson (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 11:37
E.t.v. segði ég já við Icesave ef ég vissi hver lokaupphæðin yrði og ef ég hefði vissu fyrir því að gerendurnir í þessum harmleik yrðu fangelsaðir til lengri tíma og allar þeirra eigur gerðar upptækar.
Hér er ekkert uppi á borðinu þrátt fyrir loforð, öllu virðist stungið ofan í skúffu og Jóhanna og Steingrímur gæta hennar með svikaraglampa í augum.
Ég segi NEI á laugardaginn.
Sigrún Aðalsteinsdóttir, 6.4.2011 kl. 13:07
Takk fyrir þennan pistil, það verður Nei hjá mér einnig.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.4.2011 kl. 13:42
Ekki skil ég af hverju Hjálmar er svona áfjáður í að losa Björgólf og íslensku bankastjórnana frá sinni ábyrgð með því að senda heilu kynslóðirnar í skuldafjötra við erlend stórríki.
Það vantar ekki að þetta fólk hafði há laun vegna ábyrgðar sinnar eða hvað. En þegar á reynir. ..Þá skal senda reikningin á almenning.
Og fyrir hvað?
Fólk sem er svo efnað í Englandi og Hollandi að það hafði efni á að taka áhættu með sitt fé með því að leggja það inn á hávaxtareikninga netbanka.
Jón Ásgeir Bjarnason, 6.4.2011 kl. 14:29
Nei takk á minn seðil
Jón Ásgeir Bjarnason, 6.4.2011 kl. 14:29
Ég tek undir með þér Jón Ásgeir það væri gaman að fá að vita hvað liggur að bakki þessu geysilega trausti sem Hjálmtýr sýnir Steingrími og hans Icesave hjörð í þessu máli.
Þessum Steingrími sem veit aldrei hvenær hann segir satt eða ósatt. Það skyldu þó aldrei vera einhver verðlaun í boði.
Hrólfur Þ Hraundal, 6.4.2011 kl. 21:14
Ég segi já og vil ljúka þessu leiðindmáli sem fyrst.
Úrsúla Jünemann, 7.4.2011 kl. 10:41
já bindur ekki endann á þetta mál það eiga fleir eftir að koma í kjölfar af þessu
Ragnar Þór Ragnarsson (IP-tala skráð) 7.4.2011 kl. 13:20
Sammála....NEI á laugardaginn.
Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 8.4.2011 kl. 09:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.