Sæll Steingrímur.

Hið besta mál að þú skulir loksins hafa vaknað. Þó ansi seint sé.

Þegar ég hlustaði á þig í útvarpsþættinum Harmageddon í dag rifjuðust fyrir mér orð þín og annarra núverandi ráðamanna þjóðarinnar. Það yrði efni í heilan fyrirlestur ef allt yrði tínt til svo ég læt mér nægja að stikla á stóru.

Það mætti byrja á orðum ykkar, já ykkar, því ég ætla ekki að tíunda hver sagði hvað því það skiptir í sjálfu sér engu máli. Það eru efndirnar sem ég hef hugsað mér að impra á.

Ég minnist orða háttvirts forsætisráðherra, lútandi að okkur öryrkjum, að ekki yrði hróflað við kjörum okkar.

Þann 1. jan. s.l. var elli og örorkulífeyrir frystur.

Ég minnist þess þegar loks tókst að berja í gegn embætti "Sérstaks" og honum voru ætlaðir fjórir starfsmenn. Ég þreytist aldrei á að rifja upp fyrir mér þá unaðstilfinningu sem ég upplifði þegar Eva Joly rassskellti ykkur í Kastljósi, forðum daga. Þá fyrst komst skriður á málin. Í dag hefur Sérstakur tæplega áttatíu starfsmenn sér við hlið en samt ganga málin ósköp seint.

Svo ég vitni í þín eigin orð sem þú lést falla í dag þá sagðir þú:

„Við reynum að hundelta þessa gaura. Saksóknari, skatturinn og Serious Fraud Office í Bretlandi eru allir í því að reyna að ná í alla peninga sem hægt er að sækja, jafnvel til Tortóla, Lúxemborg eða hvert það er. Fá þá inn í búið og þá ganga þeir í upp að borga Icesave. Það er sanngjarnt og rétt."

Gott og vel en veistu að þú ert ekki að díla við einhverja krakkakjána?? Veistu að menn sem hafa efni á stjörnulögfræðingum, þrátt fyrir frystingu eigna og jafnvel atvinnuleysi, eiga einhversstaðar aura í buddunni?? Eðlilega. Þeir hafa haft tvö og hálft ár til að fela slóð sína.

Allar tölvufærslur er hægt að rekja. Það þekki ég sjálfur. En...hvernig verður farið að því að finna fjármuni sem án efa hafa verið festir í t.d. gulli og eðalsteinum?? Þá er ég hræddur um að róðurinn þyngist.

Í stað þess að leggja áherslu á það sem skipti mestu máli þ.e. að  hjálpa þeim sem lentu í klónum á "ofurábyrgum" bankastjórum (fyrrverandi) sem í dag rokka feitt erlendis á okkar kostnað, og reyna að rétta þjóðfélagið af, þá var innganga í ESB sett í forgang. Með tilheyrandi kostnaði.

Þegar tölur birtust um þau tuttugu og þrjú þúsund sem komin voru í þrot þá kom reyndar í ljós að þar af voru sextán þúsund manns sem voru í vanskilum fyrir hrun. Með slíku fólki hef ég enga meðaumkvun. Ég hef heldur ekki meðaumkvun með fólki sem missti fótanna í fjármálafylleríinu og byggðu hús sem rýmt gæti þrjá eða jafnvel fjóra ættliði í senn.

Ég finn hins vegar til með þeim sjö þúsundum sem eftir standa.

Í bjartsýni minni og trú á ykkur vinstri sinnuðum kaus ég. Ég hélt í einfeldni minni að upp úr brunarústunum sem þið tókuð við risi ný þjóð. Tekið yrði á spillingunni og eiginhagsmunastefnunni sem virðist hafa loðað við okkur allt frá því forfeður okkar ákváðu að yfirgefa Noreg sökum þess að þeim þóknaðist ekki að greiða skatt til konungs sem ekki var þeim að skapi.

Ég get varla lýst vonbrigðum mínum. Daglega dynja á okkur fréttir af bankastjórum á ofurlaunum og þá að öllum líkindum sökum þeirrar "ofurábyrgðar" sem þau bera, skilanefndum þar sem sjálftakan er í fullum gangi því það ná engin lög yfir þau, fólk sem brýtur niður 350 fermetra hús til að byggja annað upp á tæpa 900 fermetra og svona mætti lengi telja.

Skilaboðin sem send eru til okkar óbreyttra eru þessi: "Við fleytum onaf, þið súpið seyðið. Geðslegt??

Nú, daginn fyrir kosningar um samning sem kemur til með að hvíla á herðum barna okkar og jafnvel barnabarna líka, þá vaknið þið öll til lífsins. Ekki bara þið heldur stjórnarandstaðan líka. Það dynja á okkur yfirlýsingar með tilheyrandi orðmælgi en veistu hvað Steingrímur. Við erum hætt að taka mark á ykkur öllum.

Ég er tveggja barna faðir og á einn yndislegan afason. Dóttir mín býr hérlendis en sonur minn er fæddur og uppalinn í Færeyjum. Þrátt fyrir sín aðeins átján ár er hann farinn að fylgjast með öllu sem gerist hér og hefur ekki hátt um faðernið. Hann skammast sín, það hefur hann sagt við mig. Veistu...það er sárt að heyra ungling tala á þennan hátt en hann fylgist með.

Á morgun ætla ég að segja NEI því ég er búinn að gefast upp á öllu misréttinu sem hér ríkir.

Virðingarfyllst

Þ. Jökull Elisson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kringumstæður okkar og viðhorf virðast harla lík. Líka vonbrigðin og horfin tiltrú.

Þú kemur þessu skilmerkilega til skila, á góðu máli og án skítkasts sem virðist viðtekin aðferð gegn þeim sem ekki deila skoðunum.

Þakka þér fyrir þennan pistil.

Eygló Y (IP-tala skráð) 9.4.2011 kl. 01:31

2 Smámynd: Þráinn Jökull Elísson

Eygló Y, takk fyrir þessa athugasemd sem er bæði hreinskilin og fallega orðuð. Ein slík vegur upp á móti tugum neikvæðra. :)

Þráinn Jökull Elísson, 9.4.2011 kl. 05:41

3 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Hafðu þökk fyrir þetta granni, en í ljós kemur að aðstæður okkar eru ólíkar sem og skoðanir í ýmsum efnum. 

En þegar um hagsmunni Íslands og landans er að ræða þá ber ekkert á milli og við tökum sameignlega  afstöðu til sæmdar ó bognir.

Hrólfur Þ Hraundal, 9.4.2011 kl. 13:20

4 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Greinin er frábær Þráinn og takk fyrir hana!

Ég er nei sinni eins og þú, en vil samt ekki rugla saman Icesave og hinum almennu ó-stjórnmálum. Að vísu hefði jáið eflaust leitt af sér ESB, en þá hugsun má ég varla hugsa til enda. 

Stöndum keik í samstöðu til sæmdar, óbogin, eins og Hrólfur segir. Þá er von að hlutirnir færist til betri vegar.

Bergljót Gunnarsdóttir, 13.4.2011 kl. 19:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband