26.4.2012 | 06:01
Smá hugleiðingar svona í miðri viku.
Ég vil biðja þessa fáu og tryggu áhangendur mína afsökunar fyrir letinni. Það er jú mest letinni að kenna að ég hef ekki bloggað.
Það sem kom mér í gang var 3ja mán. dagsetningin hjá Blogggáttinni.
Þegar litið er til baka og það þarf ekki að líta langt þá hefur heilmikið gerst. Ég er allur af vilja gerður en ef eitthvað hefur farið fram hjá mér þá endilega pikkið í mig.
Fyrst má telja þann landskennda "Landsdóm" sem nú ku hafa lokið verki sínu.
Þetta er reyndar í fyrsta skipti í langan tíma sem ég sætti mig við nauðungarafnotagjaldið því það litla sem við höfum fengið að sjá frá réttarhöldunum slær öllum bandarískum sápuóperum við.
Svo er Rúv. að fara yfir lækinn eftir góðu sjónvarpsefni. Nei nei. Við eigum að byrja heima fyrir !!
Frammistaða fyrrverandi forsætisráðherra okkar og viðbrögð eftir dómsbirtinguna sýna og sanna að við Íslendingar hljótum að vera fæddir húmoristar !!
Reyndar er þetta besta "stand upp" sem ég hef séð í langan tíma.
Spurning hvort ekki sé hægt að selja aðgang.
Nú erum við að fá nýjan biskup og það kvenbiskup að auki.
Ég er ánægður. Ég er hæstánægður !!
Furðulítið hefur farið fyrir leðjuslagnum en bíða nú...það kemur að forsetakosningum.
Ég óska Agnesi velfarnaðar í sínu nýja embætti.
Senn líður að forsetakosningum og nú munu vera nokkrir sem berjast um bitann. Samkvæmt hefðinni þá er drullukastið byrjað. Ég hef reyndar lúmskt gaman af öllum látunum því allt skal jú tínt til. Nú hefur eiginmaður væntanlegs forseta íslenska lýðveldisins stigið fram og viðurkennt að hafa slæmt höndinni til skólabróður síns í hita leiksins (þetta var á skólaballi ) nú, glóðaraugu og blóðnasir voru bara fylgifiskar sveitaballanna hér áður fyrr. Í það minnsta þegar ég var að vaxa upp hér fyrir vestan. Gæti orðið ögn skemmtilegt að fylgjast með framvindu mála á næstunni. Í það minnsta að kíkja á fb.
Mótframbjóðendur hljóta að koma með eitthvað djúsí til að toppa þetta.
Síðast þegar ég taldi þá voru komnir sex frambjóðendur. Sem segir mér að fimm frambjóðendur koma til með að sleikja sár sín á meðan þeir velta fyrir sér hvernig í fjandanum þeir eigi nú að dekka kostnaðinn.
Það er ekki gefins að bjóða sig fram til forseta í norræna velferðarsamfélaginu. Það kostar. Og það ku kosta mikið!! Níutíu millur hafa verið nefndar sem þýðir að sveitastrákur að vestan verður að öllum líkindum ekki í framboði. Þetta fer að minna smá á bandarísku forsetakosningarnar en vonandi verður skítkastið ekki svo mikið.
Lítið annað hefur gerst ef litið er fram hjá þessum hefðbundnu afskriftum á alls slags greifa sem greifast aldrei sem fyrr.
Þrátt fyrir milljarða afskriftir.
Nú gæla menn við hugmyndina um milljarða eignir í erlendum skattaskjólum. Við það fólk vil ég segja að betri er einn fugl í hendi en tíu í skógi.
Blessi ykkur öll og þar til næst.
P.S. Enn verslar Bjöggi jr.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.