25.6.2008 | 20:39
" Í sól og sumaryl "
Trúi því hver sem vill en hér hefur verið sumarlegt í dag, varla að maður hafi fundið fyrir norðaustangolunni.
Ég tók mér smá frí frá garðyrkjunni ( já, ég er enn að reyna að grafa upp plönturnar mínar, kem að því seinna) og fór í smá göngutúr upp fyrir bæinn þar sem ég gat virt fyrir mér framkvæmdirnar fyrir ofan skólahverfið þar sem verið er að undirbúa unglingalandsmótið næsta ár. Þarna er m.a. verið að gera ný tjaldstæði- rakaþétt í þetta skiftið-, sparkvelli, og allt sem til þarf svo að mótið fari fram með sóma. Það var ekki laust við að mér volgnaði um þær gömlu slitnu þegar ég virti svæðið fyrir mér því ég veit þetta verður til fyrirmyndar. Hafi þeir(þau) þökk fyrir sem að þessu standa.
Ég rölti því næst niður að höfn, þar er verið að steypa plötuna ofan á nýju bryggjuna, gat ekki annað en glott með sjálfum mér þegar mér varð hugsað til síðustu heimsóknar minnar á þessar slóðir. Ég skrapp á rúntinn með kunningja mínum og við ákváðum að kíkja á risatogara (Lómur 2) sem þá var að tékka inn á frystihótelinu, og kanna aflabrögð. Varla höfðu framdekk bílsins kysst bryggjusporðinn þegar hafnarstjórinn birtist í öllu sínu veldi og tilkynnti okkur- af sinni alkunnu háttvísi- að þarna væri Girðing! Nú verð ég að viðurkenna að ég hef ekki pissað í saltan sjó i bráðum áratug og alls ekki hérlendis. Sjálfsagt hefur margt breyst og nú þegar mér hefur verið tjáð að höfnin hér í Grúnó sé orðin tollhöfn þá brennur á vörum mér spurningin: Hvað nú ef ég mætti á svæðið með vegabréfið mitt(með öllum áritunum), skyldi ég sleppa inn til að snuðra smá? Bara smá?? Forvitnin hefur alltaf verið mín veika hlið.
Og nú að garðyrkjunni. Ég var að lesa á síðu Grundarfjarðarbæjar að nú hefðu verið lagðir 30.000 ferm. af varanlegu slitlagi plús 8.600 ferm. fyrir einstaklinga, enda er breytingin stórkostleg! Ég er bara að velta fyrir mér: Getur verið að ég hafi gleymst? Ég á við þennan 1,4 ferm. sem nú dekka ytri plönturöðina mína.Í hvorum hópnum skyldi ég hafa lent? Það sem bjargaði girðingarstaurunum mínum er að þeir standa enn upp við bílskúrsvegginn hjá nágrannanum, sem sýnir og sannar að: "Sjaldan er flas til fagnaðar".
Nóg um það.
Kíkjum nú aðeins á bókmenntir. Ég er þessa dagana að lesa bók sem rak á fjörur mínar og heitir: Dauðar sálir" og er eftir rússneskan höfund Nikolaj Gogol að nafni, var fyrst gefin út í Rússlandi árið 1842 og vakti athygli mína fyrir ádeilu, háð og kímni. Ég mæli hiklaust með henni.
Vel á minnst. Í fyrsta blogginu mínu hafði ég á orði að sumardaginn 1. hefði verið 75% mæting á ættaróðalinu en skjótt skipast veður í lofti og nú er svo komið að bræður mínir tveir eru komnir til Danaveldis. Ég viðurkenni fúslega að mig dauðlangaði með en eftir ellefu ára kynni af Dönum þá er ekki laust við að mér sé hlýtt til þeirra. Allavega færi ég aldrei að leggja á þá að fá okkur alla fjóra bræðurna á einu bretti. Ég álít að það sé mun skynsamlegra að gefa þeim okkur inn í smá skömmtum svo ekki sé minnst á skort á ákveðnum bjórtegundum eftir að bræður mínir ruddust þar á land. Nóg var nú komið samt.
Þar til næst.
Athugasemdir
Ég vil ítreka það enn og aftur að ölskortur í Danmörku er allsekki (alfarið) mér að kenna. Til að dreyfa álaginu og jafna út áhrifin á þjóðarhagkerfin drekk ég núna (í hófi samt) veigar sem koma þýskalandsmegin frá.
Alltaf þegar ég heyri minnst á frænda vorn (og fyrirmynd) hafnarvörðin kemur í hugan mynd af eðalfarskjótanum "Trabant". sjálfsagt ágætur til síns brúks en hávaðasamur fram úr hófi miðað við stærð og þægindi í umgengni.
Heyrði í þeim næstelsta í dag, staddan á fornum 'Islendingaslóðum á löngulínu. Heyrðist mér ekki betur en vel færi um hann enda hafði sá þriðji elsti bæst í hópinn og saman "drukkið" í sig danska menningu þar sem landar vorir gerðu áður garðinn frægan, ýmist sem námsmenn, skáld eða glæpamenn. (í ljósi skorts á gæsalöppum er enginn greinarmunur gerður á seinni tveim titlunum)
Ég vorkenni Dönum ekkert að hýsa okkur alla samtímis ef út í það færi, gætu sjálfsagt lært af okkur guðsótta og betri siði.
skilaðu svo kveðju frá okkur til mömmu
Hanni
Hanni (IP-tala skráð) 26.6.2008 kl. 19:37
Sæll Jökull minn.
Gaman að kíkja inn hjá þér og fylgjast með þér og þínum!
Knús úr Kópavogi
Elísa (IP-tala skráð) 27.6.2008 kl. 14:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.