1.11.2009 | 21:42
Hvenær skyldi þessum ósköpum ljúka?
Fréttir dagsins eru eins og svo oft áður neikvæðar. Ég spyr sjálfan mig hvort ekki fari að linna, því satt best að segja finnst mér nóg komið.
Hæst ber á baugi afstaða Lilju Mósesdóttur hvað snertir Icesave samningana margumtöluðu. Ég virði Lilju og hennar skoðanir en það sem ég hræðist er framhaldið. Ef það skyldi koma til stjórnarslita hvað fáum við þá í staðinn?
Verður það "Framsóknaríhaldið aftur"?
Er gullfiskaminni landans svo allsráðandi að fólk hafi virkilega gleymt sölu bankanna á sínum tíma, eða kvótagjöfinni, sem hafði í för með sér eitt það svívirðilegasta brask sem um getur í sögu lýðveldisins nú eða þá orkumælana sem háttvirtur Finnur Ingólfsson fleytir rjómann af?
Ekki má heldur gleyma feluleik þeirra aðila sem tileinkað hafa sér orðtakið "Oft má satt kyrrt liggja" og hefðu komist upp með það ef ekki hefði viljað svo vel til að á fjörur okkar rak þessa stórkostlegu konu, Evu Joly ( Örugglega engin tilviljun ).
Þá varð fjaðrafok í hænsnakofanum.
Þeir sem höfðu sig mest í frammi eru að mínu mati þeir sem eitthvað hafa að fela, og ég er þess fullviss að þeir munu ekki hverfa í gleymskunnar djúp.
Þökk sé Evu.
Skyldi annars enginn vera farinn að þjást af svefntruflunum?
Mér koma í hug orð eins hæstvirts lögmannsins sem hélt því fram að ráðning Evu væri pólitísk og í þeim einum tilgangi gerð til að vekja traust á stjórnvöldum og gerðum þeirra.
Þessi vesalings maður hefur vonandi áttað sig á því að við erum ekki að ræða um einhverja puntudúkku.
Nú er bara að bíða átekta og sjá til.
Lifi hið nýja og spillingarlausa Ísland.
Þar til næst.
Athugasemdir
Framsóknaríhaldið í stjórn mun bara taka sama samninginn og leggja hann óbreyttanm fyrir þingið og samþykkja í hvelli. Ef það væri eitthvað betra í stöðunni væri það komið fram. Ég er ekki einu sinni viss um að þeir vilji í raun vera í stjórn þessa dagana. Verkefnin framundan munu engum stjórnmálamanni verða til vinsælda. Það er auðveldara að mótmæla og tefja og þæfa málin en gera eitthvað sem skiftir máli.
Gísli Ingvarsson, 2.11.2009 kl. 11:08
Lilja Mósesdóttir minnir okkur á það að engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn. Hún er gæti verið lykillinn að því að öflin innan Sjálfstæðisflokksins nái völdum á ný sem er þeim lífsnauðsyn. Þess vegna mæra þeir hana og dásama... maður eiginlega gæti ælt.
Jón Ingi Cæsarsson, 2.11.2009 kl. 12:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.