3.11.2009 | 13:38
Ó, þetta blessaða barnalán.
Við Íslendingar höfum löngum þótt skara framúr öðrum þjóðum á flestum ef ekki öllum sviðum.
Í það minnsta að eigin mati.
Við erum hávaxnari, fríðari, gáfaðri og umfram allt þroskaðri en t. d. frændur okkar á hinum Norðurlöndunum.
Sem sést best á því að hérlendis geta ómálga börn gengið, nú eða skriðið, inn í bankann og slegið lán upp á nokkrar millur.
Ekki fer sögum af undirskrift en pabbi og mamma hljóta að hafa bjargað því.
Eins og gefur að skilja þá hlotnast slík lán fyrst og fremst þeim er skara fram úr. Samanber börn fyrrverandi stjórnarformanns í sparisjóðnum Byr, þar sem þrjú af ólögráða börnum hans fengu kúlulán frá Glitni til að taka þátt í stofnfjáraukningu Byrs.
Veðið fyrir lánunum var eingöngu í stofnfjárbréfunum.
Þetta er snilld. Bara að ég kæmist með tærnar þar sem þetta fólk hefur hælana.
Það er nú bara með úthlutunina, hvort heldur það er kvóti eða gáfnafar, að stundum vill nú misskiptast.
Í lok fréttarinnar er smá klausa sem kom út á mér tárunum af bullandi öfundsýki.
"Jón Þorsteinn og systkini hans í Nóatúnsfjölskyldunni voru stórir hluthafar í Byr í gegnum eignarhaldsfélag sitt Saxhól og voru sömuleiðis stórir hluthafar í Íslandsbanka í gegnum félagið Saxbygg, ásamt Gunnari og Gylfa í verktakafyrirtækinu Bygg. Langflest, ef ekki öll barnalánin frá Glitni, fóru til barna í Nóatúnsfjölskyldunni.
Hver skyldi nú meðal greindarvísitalan innan fjölskyldunnar vera?
O, jæja, maður verður bara að sætta sig við að vera undirmálsmaður, þó það sé fj.... sárt.
Þar til næst.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.