Spilling á (Nýja) Íslandi?

Niðurstaða könnunar Háskólans á Bifröst kemur sennilega fáum á óvart, nema  kannski íslenskum stjórnvöldum og stöku veruleikafirrtum og siðblindum "útrásarvíkingum."

Djúpt liggja rætur spillingarinnar, og enn berast oss fréttir af fjármálamisferli. Í þetta skiptið er það Tryggingamiðstöðin sem undir forystu Óskars Magnússonar, braut lög þegar félagið lánaði Samherja einn milljarð króna til að kaupa hlut í sjálfu sér árið 2006.

Það getur ært óstöðugan að reyna að greiða úr þeirri flækju sem á bak við þetta mál er.

Ég læt það ógert.

Svo er það Exista. Hvað getur maður sosum sagt?  Þar er jú af nógu að taka. Eins og ég hef alltaf sagt: Það þarf ekki að grafa djúpt til að koma niður á óþverrann.

Það sem mér fannst athyglisvert við þessa frétt er að loksins hefur fyrsta  sakamálið vegna brota í aðdraganda bankahrunsins ratað fyrir héraðsdóm.

Eftir að hafa þvælst í "kerfinu" mánuðum saman.

Það er varla hægt að minnast á Landsbankann ógrátandi og þá ekki bara vegna þess hve asskoti flinkur Bjöggi gamli var að hamfletta fuglinn, heldur líka vegna þeirra vesalings manna sem áttu jú að heita stjórnendur bankans.

Skyldu ekki vera gerðar neinar lágmarkskröfur, hvað varðar menntun, fyrri störf og gáfnafar, til þeirra sem axla ofur-ábyrgð og þiggja ofur-laun ?

Hvað varð annars af ábyrgðinni?

Ekki má gleyma Óla kallinum óðalsbónda á Miðhrauni. Mér hlýnar alltaf um hjartaræturnar í hvert skipti er ég heyri ómþýðan vængjaslátt þyrlunnar, dreg sængina upp fyrir haus og hugsa til fuglsins sem flýgur fjöllum ofar.

En nú er hann Óli minn ekki í góðum málum.

"Egla sem er jú dótturfélag fjárfestingafélagsins Kjalars, sem er í eigu Ólafs Ólafssonar, sem oft er kenndur við Samskip," skuldar nú á níunda milljarð króna - sem eru jú miklir peningar.

Skyldi Óli kallinn þurfa fara af stað með betlibaukinn?

Það held ég varla.

Lifi hið nýja og óspillta Ísland.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Sæll pjakkur, þú þarft að fara að finna þér annað hobbí. Menn verða þunglyndir af að velta sér endalaust upp úr þessu. Settu nú í baráttugírinn. Það er hér sérstakur saksóknari með Joly upp á arminn, fjármálaeftirlit, efnahagsbrotadeild, ríkissaksóknari og jafnvel ríkislögreglustjóri sem hafa ekkert annað að gera en að rannsaka og sækja menn til saka.

Það sem vantar er dugandi dómskerfi til að taka við holskeflunni þegar hún kemur. Ríkisstjórnin hefur látið undir höfuð leggjast að sjá fyrir því að dómar verði kveðnir upp að lokinni málsmeðferð.

Hvernig væri að þú snérir þér að einhverju uppbyggilegu og berðist fyrir því að þessir gaurar fengju makleg málagjöld. Það gerist ekki ef þú bara endurtekur útvarpsfréttirnar, gjammar og nartar í hæla.

Þú þarft að hafa frumkvæði

Ragnhildur Kolka, 9.11.2009 kl. 23:27

2 Smámynd: Þráinn Jökull Elísson

Sæl Ragnhildur og takk fyrir ábendinguna sem verður svo sannarlega tekin til greina.  Ég veit varla hvar ég á að byrja svo allar ábendingar verða þegnar með þökkum.

Kveðja úr Grundarfirði.

Þráinn Jökull Elísson, 9.11.2009 kl. 23:32

3 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Þú gætir byrjað á að skoða þetta klúðurmál, þegar nauðgara var sleppt úr gæsluvarðhaldi af því að dómstólar hafa ekki efni á að ljósrita málsgögn. Brynjar Níelsson skrifaði um þetta á Pressuna og dómsstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur hefur tjáð sig.

Síðan datt málið niður. Ríkisstjórn segir ekki múkk og nú er látið eins og ekkert sé að.

Að leggja allt í undirbúning máls en hafa svo stagbætt dómskerfi sem á ekki einu sinn ljósritunarvél er eins og ef útgerðin legði allt sitt í skip og mannskap, fyllti lestina en ætti svo ekki fyrir olíu til að koma með aflann í land.

Svo maður taki dæmi úr veruleika Grundarfjarðar.

Ragnhildur Kolka, 10.11.2009 kl. 07:35

4 Smámynd: Þráinn Jökull Elísson

Dæmið úr Grundarfirði hitti beint í mark.

Þráinn Jökull Elísson, 10.11.2009 kl. 08:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband