Hugleiðingar að morgni dags.

Ég vaknaði óvenju snemma í morgun og fylltist vellíðan þegar ég  stakk höfðinu  út um dyrnar til að anda að mér hreina loftinu  og dásama kyrrðina í litla fallega bænum mínum. Þessi vellíðunartilfinning fauk reyndar út í veður og vind þegar ég fór að lesa fréttasíðurnar.

 

Þar kennir margra grasa eins og fyrri daginn.

 

Viðskiptaráðherra segir hér að það verði að hækka skatta og hafa þá jafn háa eða sambærilega og þeir eru annars staðar á Norðurlöndunum.Þar er ég honum hjartanlega sammála, svo fremi það verði hægt að reyta þessa aura af hátekjufólkinu. 

 

En, það verður að segjast eins og er, að ekki voru allir á sama máli. 

Stjórnarandstaðan hafði í frammi mikinn hávaða, eins og þeirra var nú von og vísa, og talaði um brjálæði

 Gott og vel, þá er búið að setja okkur á sama bás og hinar “brjáluðu” Norðurlandaþjóðirnar.Það er nú þetta með dýrin í skóginum. 

Ég er ekki neitt sérlega talnaglöggur en þó fæ ég ekki séð annað en að væntanlegar skattahækkanir lendi á hátekjufólkinu.

Það er kannski það sem stjórnarandstaðan óttast.  Hér er kreppa og óþarfi að eyða tíma í að velta fyrir sér af hverra völdum hún stafar. 

Ég rak reyndar upp stór augu þegar ég las um laun borgarfulltrúa, sem slaga hátt upp í laun borgarstjóra.

Á hvaða tímum ætli þetta vesalings fólk lifi? 

Hafa þau ekki uppgötvað enn að hér ríkir bullandi kreppa, nú skal spara, nú verður að skera niður?

Ég minnist þess, þegar “yfirstéttin” tók á sig tíu prósenta launalækkun, að mínu mati ekkert annað en fáránleikinn í fullu veldi.Ömurlegur skrípaleikur sem hver sæmilega viti borinn maður hefði skammast sín fyrir að taka þátt í. Mér virðist, eftir þessari Mbl. frétt að dæma, að það sé helsta kappsmál háttvirta borgarfulltrúa að troða sér í sem flestar nefndir og hala inn smá vasapening. Svona ca. hálfa milljón, oná föstu mánaðarlaunin.Skyldu þessir aðilar fá laun fyrir þá fundi sem ekki eru sóttir?Hvað varð af hugsjóninni?

 

Ég legg til að nú verði settar upp stimpilklukkur á öllum þeim fundarstöðum sem háttvirtir borgarfulltrúar mæta – eiga að mæta – á, og laun borguð samkvæmt því.  Ég legg líka til að laun þeirra, fyrir fundarsetu, verði skorin niður, í það minnsta um helming.Ég veit mætavel að þó slíkt verði tekið til umræðu þá verður ekki hróflað við launum þeirra.                                                                                                                     Ég er reyndar með hugmynd sem ég kem á framfæri hér og nú.Ég er þess fullviss að á meðal þeirra sem í dag ganga atvinnulausir er hópur fólks sem myndi með glöðu geði taka að sér áðurnefndar fundarsetur og það í dagvinnu.

Það segir sig sjálft að laun háttvirtra borgarfulltrúa myndu lækka umtalsvert, en þess ber að gæta að vinnuálagið, sem hlýtur að vera ofboðslegt miðað við tímalaun þeirra, myndi að sama skapi minnka líka.

Og að lokum.

Lifi fyrirmyndarþjóðfélagið Nýja-Ísland, og þar til næst.

 

 

 

  

                           

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll, Þráinn.

Góður !

Kveðja.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 12.11.2009 kl. 11:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband