16.11.2009 | 20:48
Að kvöldi dags.
Ég hef ekki bloggað í nokkra daga en ég vil að það komi skýrt og greinilega fram að það er ekki leti sem veldur því.
Ég tók mig til á gamals aldri og settist á skólabekk.
Ég er nýkominn heim frá háskólanum á Bifröst þar sem ég eyddi helginni við nám- svokölluð vinnuhelgi- og upplifði tilfinningu sem ég hef ekki fundið fyrir frá því ég var barn að aldri og hóf grunnskólanám.
Fyrir þó nokkrum áratugum.
Þetta var einstaklega ánægjulegur og fræðandi tími sem ég kem til með að búa að um ókomna framtíð. Eins og gefur að skilja snerist allt um námið, engar stjórnmálalegar umræður.
En, nú er ég kominn heim.
Ég var að fylgjast með Kastljósi og þá sérstaklega viðtalinu við Jóhannes í Bónus.
Þar fannst mér fátt nýtt koma fram nema Jói kallinn þvertekur fyrir að skuldastaðan sé jafn slæm og fjölmiðlar hafa látið í veðri vaka.
Hmmm. Nú já.
Ef skuldastaðan er ekki slæm, ef reksturinn er í góðu lagi, ef hægt er að bjarga fyrirtækinu fyrir horn með sjö milljarða framlagi frá erlendum fjárfestum, ef þetta, ef hitt, ef......
Hvað er þá vandamálið?
Allar þær upplýsingar sem við óbreyttur almúginn höfum aðgang að í dag benda hinsvegar eindregið til þess að þeir feðgar Jói kallinn og strákskömmin sonurinn séu komnir á bólakaf í skuldafenið.
Hvað veldur?
Af hverju riðar "vel rekið fyrirtæki" á barmi gjaldþrots?
Er þetta eitthvað skylt margveðsettri eign minni , þ.e. fiskinum í sjónum?
Getur verið að einkaneyslan hafi keyrt fyrirtækið í þrot?
Einkaþotur kosta sitt. Það gera líka einkasnekkjur og, já, íbúðir á Manhattan.
Það glitti reyndar í ljósan punkt í tali Jóa. Hann hrósaði starfsfólki sínu, sem ég veit á það fullkomlega skilið.
En starfsfólkið bjargar ekki gjaldþrota fyrirtæki nema því aðeins að yfirtaka það.
Sem eftir á að hyggja er ekki svo galin hugmynd.
Meðan á viðtalinu stóð var ég með þá tilfinningu að þarna hefðu feðgarnir farið fram úr sér og þá sérstaklega yngri útgáfan.
Jói kallinn hefur gert marga góða hluti og ef ekki hefði komið til sögunnar þetta gjörsamlega misheppnaða fjármálabrölt sonarins, þá væri staðan önnur og mun betri í dag.
Lifi hið óspillta og frændklíkulausa Nýja-Ísland og þar til næst.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.