25.11.2009 | 22:03
Nú get ég ekki orða bundist.
Undanfarna daga hefur hæst borið á góma sparnaðaraðgerðir ríksstjórnarinnar og eins og fyrri daginn sýnist sitt hverjum, þ.e. stjórnarandstaðan er óvenju samhent í niðurrifsstarfseminni.
Eins og þeirra er von og vísa.
Enn og aftur á að ráðast að lífeyrissjóðunum rétt eins og það sé okkar eina og síðasta haldreipið.
Engu líkara en það sé sjálfsagður hlutur að lífeyrissjóðirnir borgi fyrir allt flippið og flappið sem misvitrum stjórnmálamönnum dettur í hug.
Alþjóð veit það er kreppa. Alþjóð veit líka við hverja er að sakast, utan þessi ca. þrjátíu prósent sem enn virðast svo veruleikafirrt að halda að allt 2007 "ástandið " komi aftur bara með því að kjósa yfir okkur framsóknaríhaldið að nýju.
En, nú verðum við að spara.
Það vitum við öll, utan kannski nokkrir fyrrverandi bankastarfsmenn sem enn virðast telja sig svo mikilvæga að þeir víla ekki fyrir sér að leggja fram tugmilljóna og jafnvel hundruðir milljóna kröfur í þrotabú gömlu bankanna á forsendum sem hver einasti skynsamlega þenkjandi fermingarstrákur myndi roðna af skömm yfir, bara við tilhugsunina.
Spara verðum við, hvort sem okkur líkar betur eða verr.
Í sjónvarpsfréttum kvöldsins var mönnum tíðrætt um skerðingu fæðingarorlofs. Allir eru sammála því að við verðum að spara en þegar á reynir þá rísa allir upp sem einn og mótmæla.
Mánaðarlífeyrir minn er kr. 142.811.oo.( niðurgreiðsla á lyfjum innifalin) Nettó!
Þegar ég er búinn að borga af húskofanum mínum (þessum sem byggður var 1942), og meðlagið með stráknum mínum, jah, þá er ekki mikið eftir.
Þó ég sjái ekki sólina fyrir einkasyninum þá koma þær stundir að ég styn undan mánaðar- reikningunum og hugsa hversu það hefði létt á mér ef strákurinn hefði komið undir, áður en ég missti heilsuna.
Næg voru tækifærin.
En ég læt ekki deigan síga. Eitt meðlagsár í viðbót sem er eins gott að standa í skilum með, því Danir líða ekki neitt slugs í þeim efnum, og svo taka við háskólaárin (vonandi) þar sem ég kem til með að gera mitt besta til að styðja hann, og, ég veit að það kemur til með að ganga því ég hef einsett mér það!
Ég hef reynt í þessari færslu að tjá tilfinningar mínar og skoðanir, kannski smá fátæklegar, kannski virka þær illa á einhverja en það er ekki tilgangur minn að særa einn né neinn.
Við þurfum öll að líða fyrir afglöp smástráka sem héldu sig vera stóra.
Lifi hið óspillta Nýja Ísland(vonandi) sem lengst og þar til næst.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.