28.12.2009 | 19:17
Af gagnsæi og heiðarleika.
Ég fylgdist með umræðum á Alþingi í dag og hugsaði sitt af hverju meðan á ósköpunum stóð.
Ég veit að hægt er að senda hunda á svokölluð hlýðninámskeið og í framhaldi af því datt mér í hug hvort ekki væri hægt að senda háttvirta þingmenn á námskeið þar sem þeir gætu lært sona sitt lítið af hverju um rökræður, rökstuðning, rökfærslur og guð má vita hvað, í stað þess að haga sér eins og ungar í sandkassaleik þegar slettst hefur upp á vinskapinn.
Ég skemmti mér reyndar ljómandi vel og bíð eftir sendingu morgundagsins.
Svo að öðru.
Nú er Jón garmurinn Sigurðsson kominn í Íslandsbanka en eins og alþjóð er kunnugt þá hætti hann snögglega hjá Fjármálaeftirlitinu korteri eftir hrun. Varla að ástæðulausu.
Það læðist að mér sú hugsun að hér sé nú ekki allt í samræmi við yfirlýsingar fjármálaráðherra þar sem komið er inn á gagnsæi og heiðarleika.
Eftir allt sem á undan er gengið kæmi mér ekki á óvart að stórfrétt nýja ársins yrði sú að Már seðlabankastjóri yrði látinn taka pokann sinn, fengi sjálfsagt sendiherrastöðu í Langtbortistan, það eru jú vinnureglurnar hjá ríksstjórnum, þar sem hann yrði engum til trafala.
Nýji seðlabankastjórinn yrði svo Davíð Oddsson sem kæmi inn sterkari en nokkru sinni fyrr.
Það eru töggur í Dabba kallinum.
Þetta er reyndar lýsandi dæmi fyrir vinnubrögð ríkisstjórna Íslands, sama úr hvaða væng stjórnmála þær koma. Að hygla vinum og vandamönnum, jú og flokkssystkinum, er mynstur sem seint eða aldrei kemur til með að breytast.
Burtséð frá þessum hefðbundnu leiðindafréttum og Icesave umræðunum sem halda áfram og áfram og...., þá hafa jólin hjá mér verið sannkallaður gleðigjafi. Við feðgarnir áttum einstaklega skemmtilegar samræður á jóladag. Það er helst á stórhátíðum sem ég læt eftir mér að nota símann svona hressilega.
Ég óska ykkur öllum gleðilegs árs og batnandi tíðar.
Þar til næst.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.