Þetta er sosum ekkert einsdæmi.

...Því miður. Minnir smá á bókhald bankanna fyrir hrun. Sem vekur upp margar spurningar.

Til dæmis, hvað störfum "Sérstaks"  líði og  hvernig standi á því að ónefndir ryksjúgandi aðilar komist upp með að sporta erlendis, já og reyndar sumir hverjir eigi lögheimili þar í dag, ??

Réttvísin hefur sinn gang en ósköp gengur það seint.

Mér er minnisstætt viðtalið við Sigurð Einarsson eigi alls fyrir löngu, sem, hafi ég túlkað svör hans rétt, þá þau sýna mér að a) þetta var honum ekkert að kenna heldur undirmönnum hans, b) hann sem háttvirtur yfirbankastjóri brá sér frá í smá frí, menn sem bera ofurábyrgð- á ofurlaunum- hljóta mega hvíla sig af og til, en á meðan klúðruðu undirmennirnir öllu kerfinu c)  ef allt fer til helvítis þá er hann stikkfrí því hann var jú í fríi að líta eftir eignum sínum erlendis.

Uppörvandi fréttir fyrir okkur almúgann, sem berum þungann af bankahruninu og afleiðingum þess, að vita til þess að hér finnist enn heiðarlegir menn.

Hann var jú bara í fríi.

En, nú að öðru.

Það er alltaf dapurlegt að fá  fréttir  sem þær að komandi áramót leggist flug niður til norður hluta landsins en því miður þá er staðreyndin sú að ríkiskassinn er tómur.

Galtómur!

Þó ég sé ekki alltaf sammála því sem ríkisstjórnin gerir þá blöskrar mér þær árásir sem á stjórnarliðum hafa dunið upp á síðkastið. Háttvirtur Noregsfarinn, Sigmundur Davíð rífur kjaft sem aldrei fyrr sem leiðir hugann að hliðarverkunum megrunarkúrsins.

Það vefst enn fyrir Bjarna Ben (háttvirtum formanni Sjálfst. flokksins) hvort hann er með eða á móti.

Móti hverju ?? Ætli það Vefjist ekki fyrir honum.

Ég lít til framtíðarinnar með hryllingi ef þetta lið kemst að aftur.

Við vitum þó nokkurn veginn hvað við höfum. Þó bágborið sé.

Reyndar er ég kominn í startholurnar. Húsið komið á söluskrá og ég farinn við fyrsta tækifæri!

Með þessum jákvæðu hugleiðingum kveð ég að sinni (það er líka hægt að rífa kjaft úr Færeyjum ),

og þar til næst.

 

 


mbl.is Sýndarsparnaður lækkar ekki kostnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af sölu auðlinda og fleira.

Ég var að hlusta á Ómar Ragnarsson í síðdegis útvarpinu þar sem rædd voru væntanleg kaup Kínverjans á Grímsstöðum. Á yfirverði. Margt athyglisvert kom þar fram. Ómar er raunsær og skynsamur maður og ég hvet alla til að fylgjast með því sem hann hefur fram að færa.

Ekki treysti ég mér til að leggja dóm á hvað er rétt og hvað er rangt í stærðardæmi sem þess. Þó ber að hafa í huga kaup svissneska auðkýfingsins,Rudolf Lamprect á bókstaflega öllu umhverfi Víkur í Mýrdal.

Með vatnsréttindum.

Iðnaðarráðherra okkar hefur lýst því yfir að horfið verði aftur til vatnalaganna frá 1923 sem er af því góða.Það ætti að koma í veg fyrir brask þeirra sem víla ekki fyrir sér að selja föðurlandið ef nógu margir aurar eru í boði.

Nú skal draga fyrrverandi forsætisráðherra okkar fyrir Landsdóm. Kannski hefur Geir Haarde eitthvað á samviskunni...en hvað með hin þrjú ??  Hvað með  fyrrverandi viðskiptaráðherra, sem greinilega hefur sofið á sínu græna eyra þegar hörmungarnar dundu yfir okkur ??

Hafi hann nokkru sinni fengið að vera með.

Ég get ekki látið hjá líða  að minnast á brandarana sem á okkur dynja þessa dagana á Rás 2 þar sem Sjálfstæðisflokkurinn upplýsir okkur óbreytta (og einfalda) borgara þessa lands, um þau gæði og þá velmegun sem hér ríkti í átján ára stjórnartíð íhaldsins.

Sem vissulega hafði í för með sér hagnað og velmegun kvótaeigenda. Sem leiðir hugann að glæsibyggingum íslenskra útgerðarmanna á Florida.

Það góða við áðurnefndar auglýsingar er hláturinn. Jamm, hláturinn lengir lífið. Endalaust verður hægt að hlæja að þessum máttvana áróðri íhaldsins.

Nóg að sinni og þar til næst.

 

 

 


Af tiltekt og fleira í þeim dúr.

 Það gladdi mitt gamla hjarta að lesa þessa frétt. Katrín Júlíusdóttir sýndi og sannaði að hún hefur bein í nefinu og lætur ekki gamla flokksræðið aftra sér frá þessari tiltekt, sem var löngu tímabær.

Rekstur Byggðastofnunar hefur verið ansi brösóttur gegnum árin. Ekki er hægt að kenna alþjóðakreppu um allt sem farið hefur miður þó vissulega hafi hún haft áhrif.

Ég "gúgglaði" Byggðastofnun og rakst þar á margt athyglisvert. Svo ekki sé meira sagt.

Sem dæmi má taka þessa frétt úr Vísi þ. 10. ág. 2010 en þar segir:

" Tvö af helstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins, Hraðfrystihúsið-Gunnvör á Ísafirði og Vísir hf. í Grindavík skulda Byggðastofnun um einn milljarð króna í gegnum dótturfyrirtæki sín sem eru eignalaus skúffufyrirtæki."

"Einkahlutafélögin Forest Gump og F-420 skulda Byggðastofnun nálægt 500 milljónum króna hvort um sig.Þegar betur er að gáð kemur í ljós að bæði fyrirtækin eru skúffufyrirtæki eða eignarhaldsfélög án sýnilegra eigna."

Þetta er bara eitt dæmi sem tiltekið er hér. Öllum útlánum fylgir áhætta en þegar allt kemur til alls þá lendir skuldabyrðin á herðum skattgreiðenda.

Ég furða mig á viðbrögðum Vinstri-Grænna en þeir virðast koma af fjöllum og tala meðal annars um að stjórnarmönnum sem njóta fulls stuðnings VG hafi verið rutt í burtu og tala um skák á borði stjórnmálamanna.

Það hefur komið fram í máli iðnaðarráðherra að hún hafi sent öllum þingmönnum Vg bréf strax í maí varðandi þessar breytingar.

Árið 1996 lagði ríkisendurskoðun - sem alltof margir virðast hunsa samanber laun framkvæmdavaldsis sem þ. 3. júní s. l. voru komin einn og hálfan milljarð fram úr áætlun- til að komið yrði á beinu stjórnsýslusambandi milli ráðherra og stofnunarinnar. Samkvæmt því skal ráðherra skipa beint í stjórn stofnunarinnar sem hún/hann ber ábyrgð á og gagnvart Alþingi samkvæmt ráðherraábyrgð.

Ég hef fulla trú á gjörðum Katrínar. Það er nú ekki eins og menn séu æviráðnir í embættin en þar hefur reyndar sáralítil breyting orðið á eftir hrun þar sem sömu menn virðast verma sömu stóla.

Þrátt fyrir yfirlýsingar um að, "allt skuli upp á borðið, hverjum steini verði velt við "og jú, eitthvað var imprað á gagnsæi. Yfirlýsingar sem að mínu mati hafa því miður reynst orðin tóm.

Ég reyni að vera bjartsýnn og vona að fleiri ráðherrar feti í fótspor Katrínar. Það myndi án efa auka tiltrú fólks á ríkisstjórninni.

Þar til næst.

 

 

 


mbl.is Ný stjórn Byggðastofnunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar litið er til baka...

...þá er nú eitt og annað sem gengið hefur á.

Í dag er mánuður síðan ég útskrifaðist af hjartadeildinni, eftir sex vikna dvöl. Þrátt fyrir svo langt stopp þá er með ólíkindum hversu fljótt tíminn virtist líða.

Það sem hjálpaði kannski mest er að bræður mínir sáu til þess að ég fékk tölvuna mína og allt námsefnið þannig að ég hafði nóg að fást við.

Svo var maturinn alveg frábær. Einum um of. Ég uppgötvaði það þegar ég kom heim. Sá það á vigtinni. Svo er til fólk sem grenjar útaf sjúkrahússmatnum.

Það hefur þá legið á annari deild en ég.

Það kom mér smá á óvart hversu friðarlegt allt hefur verið í íslenska samfélaginu, kannski vegna þess að ég brá mér frá um tíma.

Nú skal bætt úr því.

Það er sosum ekki af miklu að taka en þó sé ég að málefni Eyrarodda á Flateyri eru enn í bullandi ólestri.

Sem kemur mér stórlega á óvart. Allir þeir fræðingar sem hlut eiga að máli virðast ekki vita í hvaða átt þeir eiga að snúa sér. Svo ekki sé meira sagt.

Velsæmisins vegna þori ég ekki að hætta mér út á hála braut, maður vill ekki láta loka á sig blogginu, en oftar en ekki sé ég eitt og annað gerast í íslenska velferðarsamfélaginu sem er til háborinnar skammar.

Hefur reyndar gert árum og jafnvel áratugum saman.

Einkennilegt finnst mér að það virðist ekki skipta nokkru einasta máli hvort það er vinstri eða hægri stjórn sem heldur um stjórnvölinn.

Það þarf reyndar ekki annað en að kíkja í Íslendingabók til að sjá hvað þetta lið er nátengt hvert öðru.

Þau eru mörg teppin sem þarf að sópa undan.

Þar til næst.


Með þakklætiskveðjum til starfsfólks Lsp.

Það er ekki leti sem hefur orsakað pásuna sem ég tók mér hér á blogginu. Ég hef bara verið upptekinn við annað...sem ég kem til að útskýra nánar. Síðar.

Ég vil byrja á að senda kveðjur til starfsfólks deildar 14 e, þar sem ég dvaldi frá 24. maí til 1. júlí, og til starfsfólks 12 g, þar sem ég var frá 1.-4. júlí.

Þrátt fyrir gífurlegt vinnuálag...sem fer vaxandi...þá var hugsað um mig eins og ungann í egginu.

Hafi þetta yndislega fólk þökk fyrir.

Á sama tíma og niðurskurðarhnífnum er beitt miskunnarlaust í þeim tveim stéttum sem að mínu mati eru þær mikilvægustu í okkar samfélagi, þ. e. heilbrigðisþjónustu og löggæslu, þá er bruðlað í utanríkisþjónustunni sem aldrei fyrr.

Við höldum uppi utanríkisþjónustu sem, land tífalt stærra, mætti vera hreykið af.

Það fer lítið fyrir efndum ríkisstjórnar sem lofaði aðhaldi og sparnaði á öllum sviðum.

Þessa dagana fer hamförum lítill feitur pjakkur sem lætur móðan mása og blaðrar frá sér allt vit, ef eitthvert er, dælir út yfirlýsingum til hægri og vinstri, og við borgum brúsann.

Þessi vesalingur ku vera utanríkisráðherra vor.

Sumir læra aldrei að halda kjafti og skammast sín.

Nóg að sinni og þar til næst.


Útvarp frá Alþingi og fleira gotterí.

Eftir að hafa fylgst með sendingum Rúv  frá Alþingi, og þá sérstaklega eldhússdagsumræðum, er ég orðinn fullkomlega sáttur við nauðungarafnotagjaldið því áðurnefndar sendingar veita mér alltaf ómælda ánægju.

Ég vona að Rúv haldi áfram á þessari braut og hendi þá frekar einhverju af útsölurusli Kanans út.

Þær eru ófáar spurningarnar sem vöknuðu eftir umræðurnar í gærkvöld en vonandi fást svör með tíð og tíma.

Ég hlýt að hafa misskilið stöðu þjóðarbúsins því eftir orðum Bjarna Ben. að dæma þá ríkti hér  bullandi velsæld í tíð hægri stjórnarinnar í heil átján ár. Hér var einkavætt til hægri og vinstri. Hér var virkjað til hægri og vinstri. Byggingariðnaðurinn blómstraði. Bankabísnessinn óx. Og óx. Hér draup smér af hverju strái. Hér þénuðu menn.

Sumir reyndar meira en aðrir. Miklu meira.

En...handan við hornið leyndist óvinurinn og beið færis.

Svo kom stóri skellurinn. Og það í tíð ríkisstjórnar sem í tæpa tvo áratugi hafði borið hag íslensku þjóðarinnar fyrir brjósti.

Bankarnir hrundu.

Menn börðu sér á brjóst. Ekki benda á mig heilkennið grasseraði sem aldrei fyrr.

Aðrir börðu búsáhöld sín og kröfðust nýrrar ríkisstjórnar. Og varð að ósk sinni.

Niðurlæging átján ára velferðarríkisstjórnar - sem meðal annars hafði byggt upp kvótakerfi sem hafði í för með sér velsæld og hagnað margra mætra manna sem sumir hverjir uppgötvuðu að faktískt var  miklu hagkvæmara að leigja bara kvótann sinn nú eða selja hann í stað þess að standa í einhverju streði - var algjör.

Við brunarústunum tók vinstri stjórn.

Hér mætti sem best setja amen á eftir efninu en af nógu er að taka.

Þó svo einhverjir útgerðarmenn hafi látið glepjast af velgengninni og hætt sér út í mistryggar fjárfestingar, óskyldar útgerð, þá má ekki gleyma þeim vel reknu útgerðarfyrirtækjum sem orðið hafa að kaupa kvótann sinn dýrum dómum.

Þau skulu látin í friði.

Með þessum orðum kveð ég að sinni og þar til næst.


Sjálftakan á fullu.

Eftir öllum sólarmerkjum að dæma virðist erfiðara að venja ríkisstarfsmenn af spenanum en kettlingana hennar Blíðu minnar.

Hvusslags uppeldi skyldi mannskapurinn eiginlega hafa fengið??

Könnun ríkisendurskoðunar leiðir í ljós framúrakstur upp á hvorki meira né minna en hálfan annan milljarð sem betur hefði verið varið til heilbrigðismála en sjálftökulauna framkvæmdavaldsins því ef það skyldi hafa farið framhjá áðurnefndum spenatotturum, þá ríkir hér kreppa.

Þó við, aldraðir og öryrkjar, séum allir af vilja gerðir til að leggja okkar af mörkum til að rétta þjóðarskútuna af þá er staðan orðin sú að ekki er hægt að reyta meira af fjaðralausum fuglinum.

Því er öðru nær.

Tilgangslaust er að bera niður meðal þingmanna því, svo vitnað sé í orð fyrrverandi efnahagsráðgjafa "Hrunstjórnarinnar" þess mæta manns Tryggva Þórs Herbertssonar, blasir ekkert annað við en hungurdauðinn við "efrimillistéttarelítunni" sem hugsjónarinnar vegna hefur fórnað sér í þágu hins íslenska velferðarsamfélags.

Þetta á að sjálfsögðu bara við þau sem ekki geta borgað með sér í vinnunni.

Það er úr vöndu að ráða en byrja mætti að grisja frumskóginn . Ég tel mig hafa fundið lausn á vandanum. Að vísu er hugmyndin stolin úr myndinni "The Godfather" og nú er ég alls ekki að sneiða að stjórnardúettinum. Gera sjálftökuliðinu tilboð sem ekki er hægt að hafna, og láta kné fylgja kviði.

Hætta að krota niður yfirvinnutímana. Ekki getur verið um dagvinnuna að ræða því samkvæmt tilmælum forsætisráðherra þá voru öll laun yfir 400 þús. lækkuð árið 2009. Ef liðið tekur ekki sönsum þá er það skófarið á bakhlutann og svo á Féló. Þeim yrði engin vorkunn að standa í biðröð eftir matargjöfum í sumarblíðunni. Vetrarkuldann má svo takast á við, þegar þar að kemur, með fatagjöfum.

Vonandi sér forsætisráðherra ljósið og tekur þessa tillögu til alvarlegrar athugunar.

Þar til næst.

 

 

 


mbl.is Hélt að farið hefði verið að tilmælum um launalækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðasti blóðdropinn......

......og var þó nóg komið.

Enn og aftur skal ráðist að öldruðum og öryrkjum og nú í formi skattlagningar á lífeyrissjóðina upp á litla 1.750 milljarða og svona til að klessa nú plástri á sárið þá er talað um "tímabundna" skattlagningu.

Þess má minnast að verðtryggingin var líka "tímabundin" athöfn. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar.

Hversu langt er hægt að ganga?

Orðum fjármálaráðherra um að samkomulag hafi náðst um gjörðir þessar vísar Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ alfarið á bug.

Það er hægt að spara og það gríðarlegar upphæðir Ef stjórnarliðar sæju nú ljósið og fækkuðu þessum fj......sýndarmennskusendiráðum og færu að axla smá ábyrgð segir mér svo hugur að staðan yrði ólíkt betri. Undarlegt þykir mér eftir allar þær umræður sem verið hafa í fjölmiðlum hvað varðar kostnað utanríkisþjónustunnar skuli aldrei heyrast bofs úr búðum óhæfra stjórnarliðanna.

Ef litið er til baka þá er ekki sjáanleg breyting frá 2007. Fjármálageirinn hefur aldrei verið stærri en nú, bankastjórnendur stefna á ofurlaun...að nýju...og þá væntanlega vegna ofur ábyrgðar og til að bíta höfuðið af skömminni þá hefur stjórnarformaður Landsbankans, sem er jú í eigu þjóðarinnar, vogað sér að leggja fram tillögu um launahvetjandi kerfi starfsfólks.

Ég minnist orða Steingríms J. er hann nefndi orð eins og gagnsæi og "að hverjum steini yrði velt við."

Í framhaldi af því rifjast upp fyrir mér þau fleygu orð úr bók George Orwell, Dýrabærinn, :Allir eru jafnir en sumir eru jafnari en aðrir.  Einhverjum steinum kann að hafa verið velt við en ekki sér til botns enn.

Landflóttinn heldur áfram og eykst jafnt og þétt. Á sama tíma leitar ríkisstjórn sem kennir sig við velferð að nýjum leiðum til aukinnar skattheimtu. Ef gerður er samanburður á ríkisstjórnum Norðurlanda og Íslands er hann okkur mjög svo í óhag. Þó svo skattaálagning sé sú lægsta hérlendis þá er þagað þunnu hljóði um alla þá óbeinu skatta sem við borgum.

Að lokum, í sjónvarpi frá Alþingi í dag kom fram að 90 fyrirspurnum til (fjármála) ráðherrahefur ekki verið svarað þrátt fyrir 10 daga frestinn. Þær elstu voru lagðar fram fyrir allmörgum mánuðum.

Traust mitt til núverandi ríkisstjórnar fer óðum þverrandi, en vandinn er hins vegar sá að ef það á að takast að mynda starfhæfa ríkisstjórn þá eru þeir ansi margir sem þyrftu að taka til í sínum  ranni. 

Þar til næst.

 

 

 

 


Æ... hvers á ég að gjalda??

Burtséð frá því að vera nauðgað til að borga 17.900 kr.(sem tekin er af örorkulífeyrinum) fyrir vægast sagt hörmulega dagskrá þá finndist mér í fínu lagi að losna við íþróttalýsingarnar sem, nota bene, lenda alltaf á þeim tíma sem ég ætla að horfa á Kastljós.

Jamm. Sá gamli er kominn með kakó og með því, sestur í hægindastólinn (þann eina) en... hvað gerist?? Íþróttaleikur.Crying

Nú má ekki skilja sem svo að ég hafi neitt á móti íþróttum, allir þurfa jú að fá eitthvað fyrir sitt, en... er virkilega nauðsynlegt að senda slíkt út bæði í sjónvarpi og útvarpi??

Reyndar finnst mér skjóta skökku við að sjónvarpsstöð sem sent hefur út í 45 ár skuli enn hafa bara eina rás til umráða.

Blankheit?? Kannski. Það væri þá "kannski" ekki úr vegi að henda útvarpsstjóra (ásamt jeppanum) út og ráða í stað hans yngri og áhugasamari mann í starfið. Mann með hugsjón, en því miður virðast þeir vandfundnir í dag.

Svo maður kíki nú á annað þá var ég að hlusta á útvarpsfréttirnar þar sem fjallað var um viðskiptafléttu Kaupþings og Glitnis, sem var ekkert annað en tær snilld hvað snertir viðskiptabransann, þar til eitthvað gerðist, þ. e. blaðran sprakk. 

  Það sem vakti eftirtekt mína var að ekki voru stjórnendur áðurnefndra banka nefndir á nafn í fréttunum sem þýðir að nú verð ég að gramsa í heimildaskránni sem reyndar stækkar með hverjum deginum. Lengi má leita, en það finnst sem leitað er eftir.

Nóg komið að sinni og þar til næst.

 


Nú er hann skollinn á með látum aftur.

Fyrir tæpum sólarhring kyngdi hann niður með snjó en nú er komin suðvestan átt með tilheyrandi slabbi.

Ég tók mig til fyrir nokkrum dögum, svona í tilefni prófloka, og ákvað að mála allt húsið innan. Í stuttu máli sagt.....ég er allavega byrjaður. Tók mig svo til og fór í hressilegan göngutúr að loknum sæmilega löngum vinnudegi til að losna við málningarlyktina úr nösunum. Fátt er jafn hressandi og góður göngutúr í grenjandi rigningu. Held bara að mér hafi tekist að ganga úr mér áhyggjurnar og vonbrigðin eftir hræringar þær sem átt hafa sér stað í veröld stjórnmálamanna vorra síðustu daga. Ég ætla ekki að fara að diskútera pólitík rétt einu sinni enn, veðrið er of hressandi og gott til þess. Enn síður ætla ég að níða skóna af þingmönnum okkar. Síðustu daga hefur þeim tekist slíkt svo ljómandi vel sjálfum...án minnar aðstoðar.

Samanber orðaskak Ólínu Þorvarðard. og hæstvirts forseta Alþingis. Samanber dramað sem við öll urðum vitni að þegar sjónvarpað var frá Alþingi vantrauststillögu bráðum fráfarandi formanns Sjálfstæðisflokksins.

Svona mætti lengi telja en gott er. Hins vegar velti ég stundum fyrir mér tilganginum með öllu þessu brölti og látum ásamt tilheyrandi "vaxta"verkjum.

Ég velti því líka fyrir mér hvort sú hugsjón sem ég reikna með að flestir þingmanna, í það minnsta þeir ungu og óreyndu, lögðu upp með, hafi glatast þegar viðkomandi uppgötvuðu að á brattan var að sækja.

Ég velti því líka fyrir mér hvort mannskapurinn hafi ekki gert sér grein fyrir því að við greiddum þeim atkvæði okkar í þeirri veiku von að nú yrðu dýrin í skóginum vinir. Í þeirri veiku von að nú ynnu allir saman til þess að leysa úr þeim vandræðum sem að okkur steðja úr öllum áttum.

Í stað þess er dýrmætum tíma eytt í að rífa kjaft.

Stundum getur manni skjátlast.

Nóg er að sinni og þar til næst.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband