Sú var tíðin......

...að stjórnmálamenn höfðu hugsjón. Sú hugsjón var ekki fólgin í því að níða niður andstæðinga sína heldur að snúa bökum saman og bera hag Íslands og íslensku þjóðarinnar fyrir brjósti.

Sjálfsagt hefur eitt og annað gengið á, bak við tjöldin, sem á þeim árum kom ekki fyrir sjónir almennings. Það ku hafa loðað við ráðamenn fyrri tíma að þeir beittu áhrifum sínum til að pota vinum og vandamönnum í djúsí störf og þá oftar en ekki á kostnað þeirra sem ekki voru rétttrúaðir.

Þess má reyndar geta að slík vinnubrögð tíðkast enn þann dag í dag, því miður, en sá er þó munurinn að núorðið er erfiðara að fela slíkt.

Ég er rétt í þessu að hlusta á útsendingu frá Alþingi þar sem háttvirtir alþingismenn, sem kosnir voru af þjóðinni til þess að standa vörð um lífskjör okkar, keppast við að níða skóna af hverjum öðrum.

Það er af sem áður var.

Mörg eru mistökin sem núverandi ríkisstjórn hefur gert og má þar nefna ESB bullið og rétt á eftir kom svo "Landsdómskjaftæðið" þar sem ákveðið var að hengja bakara fyrir smið og skella skuldinni á fyrrverandi forsætisráðherra, Geir Haarde, en hlífa sínum. Ég er ekki í vafa um að Geir hefur eitt og annað á samviskunni en hvað með hina sem ríkisstjórnin firrti ábyrgð??

Þrátt fyrir vonbrigði mín með margt sem núverandi ríkisstjórn hefur klúðrað þá hef ég tekið þá ákvörðun að styðja þau áfram. Við megum aldrei gleyma þeirri staðreynd að þau tóku við brunarústum og hafa á mörgum sviðum unnið afrek. En margt er það sem betur hefði mátt fara.

Eftir að hafa hlustað á jójóið Sigmund Davíð og Engeyjarguttann Bjarna Ben í dag þá er ég þess sannfærðari en nokkru sinni fyrr að skásta lausnin sé að núverandi ríkisstjórn sitji áfram því ég get ekki, eftir að hafa fylgst  með málflutningi þeirra tveggja síðustu tvö árin, hugsað mér að "Hrunverjar" komist aftur til valda.

Ég hef ekki áhyggjur af Icesave málinu. Við, þjóðin afgreiddum það í síðustu viku. Við vorum ekki að greiða atkvæði á móti því að borga (hrun banka í einkaeign) heldur viljum við fá á hreint hvað okkur beri að borga. Þarna munar í millum.

Ef litið er til baka þá hefur þjóðin unnið sigur í hvert skipti sem við höfum sagt  nei. Við borgum það sem okkur ber að borga en ekki krónu meir!

Ég get ekki látið hjá líða að minnast á þá nýjung að í dag er samið um launakjör og önnur kjör við ríkisstjórnina. Áður fyrr sömdu atvinnurekendur við verkalýðsfélögin en nú er sagan önnur.

Ég læt þessar hugleiðingar nægja að sinni og þar til næst.

 

 


Sæll Steingrímur.

Hið besta mál að þú skulir loksins hafa vaknað. Þó ansi seint sé.

Þegar ég hlustaði á þig í útvarpsþættinum Harmageddon í dag rifjuðust fyrir mér orð þín og annarra núverandi ráðamanna þjóðarinnar. Það yrði efni í heilan fyrirlestur ef allt yrði tínt til svo ég læt mér nægja að stikla á stóru.

Það mætti byrja á orðum ykkar, já ykkar, því ég ætla ekki að tíunda hver sagði hvað því það skiptir í sjálfu sér engu máli. Það eru efndirnar sem ég hef hugsað mér að impra á.

Ég minnist orða háttvirts forsætisráðherra, lútandi að okkur öryrkjum, að ekki yrði hróflað við kjörum okkar.

Þann 1. jan. s.l. var elli og örorkulífeyrir frystur.

Ég minnist þess þegar loks tókst að berja í gegn embætti "Sérstaks" og honum voru ætlaðir fjórir starfsmenn. Ég þreytist aldrei á að rifja upp fyrir mér þá unaðstilfinningu sem ég upplifði þegar Eva Joly rassskellti ykkur í Kastljósi, forðum daga. Þá fyrst komst skriður á málin. Í dag hefur Sérstakur tæplega áttatíu starfsmenn sér við hlið en samt ganga málin ósköp seint.

Svo ég vitni í þín eigin orð sem þú lést falla í dag þá sagðir þú:

„Við reynum að hundelta þessa gaura. Saksóknari, skatturinn og Serious Fraud Office í Bretlandi eru allir í því að reyna að ná í alla peninga sem hægt er að sækja, jafnvel til Tortóla, Lúxemborg eða hvert það er. Fá þá inn í búið og þá ganga þeir í upp að borga Icesave. Það er sanngjarnt og rétt."

Gott og vel en veistu að þú ert ekki að díla við einhverja krakkakjána?? Veistu að menn sem hafa efni á stjörnulögfræðingum, þrátt fyrir frystingu eigna og jafnvel atvinnuleysi, eiga einhversstaðar aura í buddunni?? Eðlilega. Þeir hafa haft tvö og hálft ár til að fela slóð sína.

Allar tölvufærslur er hægt að rekja. Það þekki ég sjálfur. En...hvernig verður farið að því að finna fjármuni sem án efa hafa verið festir í t.d. gulli og eðalsteinum?? Þá er ég hræddur um að róðurinn þyngist.

Í stað þess að leggja áherslu á það sem skipti mestu máli þ.e. að  hjálpa þeim sem lentu í klónum á "ofurábyrgum" bankastjórum (fyrrverandi) sem í dag rokka feitt erlendis á okkar kostnað, og reyna að rétta þjóðfélagið af, þá var innganga í ESB sett í forgang. Með tilheyrandi kostnaði.

Þegar tölur birtust um þau tuttugu og þrjú þúsund sem komin voru í þrot þá kom reyndar í ljós að þar af voru sextán þúsund manns sem voru í vanskilum fyrir hrun. Með slíku fólki hef ég enga meðaumkvun. Ég hef heldur ekki meðaumkvun með fólki sem missti fótanna í fjármálafylleríinu og byggðu hús sem rýmt gæti þrjá eða jafnvel fjóra ættliði í senn.

Ég finn hins vegar til með þeim sjö þúsundum sem eftir standa.

Í bjartsýni minni og trú á ykkur vinstri sinnuðum kaus ég. Ég hélt í einfeldni minni að upp úr brunarústunum sem þið tókuð við risi ný þjóð. Tekið yrði á spillingunni og eiginhagsmunastefnunni sem virðist hafa loðað við okkur allt frá því forfeður okkar ákváðu að yfirgefa Noreg sökum þess að þeim þóknaðist ekki að greiða skatt til konungs sem ekki var þeim að skapi.

Ég get varla lýst vonbrigðum mínum. Daglega dynja á okkur fréttir af bankastjórum á ofurlaunum og þá að öllum líkindum sökum þeirrar "ofurábyrgðar" sem þau bera, skilanefndum þar sem sjálftakan er í fullum gangi því það ná engin lög yfir þau, fólk sem brýtur niður 350 fermetra hús til að byggja annað upp á tæpa 900 fermetra og svona mætti lengi telja.

Skilaboðin sem send eru til okkar óbreyttra eru þessi: "Við fleytum onaf, þið súpið seyðið. Geðslegt??

Nú, daginn fyrir kosningar um samning sem kemur til með að hvíla á herðum barna okkar og jafnvel barnabarna líka, þá vaknið þið öll til lífsins. Ekki bara þið heldur stjórnarandstaðan líka. Það dynja á okkur yfirlýsingar með tilheyrandi orðmælgi en veistu hvað Steingrímur. Við erum hætt að taka mark á ykkur öllum.

Ég er tveggja barna faðir og á einn yndislegan afason. Dóttir mín býr hérlendis en sonur minn er fæddur og uppalinn í Færeyjum. Þrátt fyrir sín aðeins átján ár er hann farinn að fylgjast með öllu sem gerist hér og hefur ekki hátt um faðernið. Hann skammast sín, það hefur hann sagt við mig. Veistu...það er sárt að heyra ungling tala á þennan hátt en hann fylgist með.

Á morgun ætla ég að segja NEI því ég er búinn að gefast upp á öllu misréttinu sem hér ríkir.

Virðingarfyllst

Þ. Jökull Elisson.


Á Laugardaginn Segi Ég Nei!

Á laugardaginn ganga á þriðja hundrað þúsund manns til kosninga. Til kosninga sem geta haft afdrifarík áhrif á líf okkar , barna okkar og jafnvel barnabarna okkar.

Ég var lengi vel tvístígandi því áhætta fylgir úrslitunum, sama hver niðurstaðan verður. Það yrði alltof langt mál að telja upp öll þau atriði sem úrslitin, sama á hvorn veg þau fara, hafa í för með sér.

Eitt er þó það sem sló mig all harkalega en það er brottfelling 8. greinarinnar í Icesave III. Fyrir þá sem ekki þekkja þá hljóðar hún svo.

"8. gr. Endurheimtur á innstæðum.
Ríkisstjórnin skal þegar í stað grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana sem þarf til að endurheimta það fé sem safnaðist inn á Icesave-reikningana. Í þeim tilgangi skal ríkisstjórnin fyrir 15. október 2009 hafa frumkvæði að samstarfi við þar til bæra aðila, m.a. yfirvöld í Bretlandi, Hollandi og Evrópusambandinu, og óska aðstoðar þeirra við að rekja hvert innstæðurnar af Icesave-reikningunum voru fluttar. Ríkisstjórnin skal fyrir árslok 2009 semja áætlun um hvernig reynt verður að endurheimta það fé sem kann að finnast.
Í því skyni að lágmarka ríkisábyrgð samkvæmt lögum þessum skal ríkisstjórnin einnig gera ráðstafanir, í samráði við þar til bæra aðila, til þess að þeir sem kunna að bera fjárhagsábyrgð á þeim skuldbindingum sem stofnast hafa vegna Icesave-reikninganna verði látnir bera það tjón."

"Hreyfingin lagði fram breytingartillögu um að setja þessa grein aftur inn en hún var felld af meiri hluta þings, þar með talið sjálfstæðismönnum. Með því að fella út þessa grein dregur verulega úr því að hinir seku verði dregnir til ábyrgðar."

Þrátt fyrir að hafa reynt að afla mér upplýsinga, þar á meðal sent fyrirspurn til háttvirtra alþingismanna okkar, hef ég ekki fengið svör.

Það læðast að mér margar ljótar hugsanir en til að gæta velsæmis hef ég ákveðið að halda þeim fyrir mig sjálfan.

Þó spyr ég: Hvern er verið að vernda??

Í það minnsta ekki okkur , "litla fólkið" sem búum í þessu norræna velferðarsamfélagi sem vel á minnst er til háborinnar skammar. Það þarf ekki að líta lengra en til  Norðurlandanna til að sjá muninn. Ekki að ástæðulausu að landinn leggur leið sína þangað vitandi að þar bíður betra líf. Þó svo núverandi ríkisstjórn hafi tekið við brunarústum þá má í framhaldi af því benda á forgangsröðunina sem að mínu mati var gjörsamlega út í hött. Það má líka nefna það stjórnleysi sem viðgengst, hvort heldur er meðal bankastjóra eða skilanefnda eða... Svona mætti lengi telja.

Á sama tíma flýja óbreyttir skerið.

Á sama tíma á að neyða okkur, sem eftir sitjum, til að samþykkja greiðslu skuldar sem nokkrir óprúttnir aðilar stofnuðu til en kemur til með að hvíla á herðum barna okkar og barnabarna.

Og enn ganga þeir lausir og lifa hátt...erlendis. Sennilega þora kvikindin ekki að láta sjá sig hérlendis. Varla að ástæðulausu.

Á ríkissjóði hvílir nú þegar ábyrgð upp á þrettán hundruð milljarða og ef Icesave samningurinn verður samþykktur þá bætast við tæpir sjö hundruð milljarðar. Mér blöskrar að heyra raddir sem halda því blákalt fram að með samþykkt Icesave komi lánstraust okkar til með að aukast.

Það hlýtur hver heilvita maður að skilja að auknar skuldir bjóða ekki upp á aukið lánstraust en kannski er ég orðinn svo úreltur að ég skilji ekki nútímans þankagang. Ég veit þó að skuld sem ekki er greidd á gjalddaga hleður á sig vöxtum og vaxtavöxtum. Reikni svo hver fyrir sig.

Ég ætla mér ekki, með þessum skrifum mínum, að hafa áhrif á neinn. Þetta eru bara hugsanir mínar, dapurs, miðaldra ,vonsvikins manns sem horfir á þjóð sína skeiða hraðbyri til helvítis.

Ég er hins vegar búinn að taka þá ákvörðun að segja NEI á laugardaginn.

Þar til næst.

 

 

 

 


Hæst ber á baugi þessa vikuna...

...þau tíðindi sem oss hafa borist að westan. Jamm, nú munu þeir vera hvorki fleiri né færri en tíu, sem af góðmennsku sinni og hjartagæsku, hafa lýst sig reiðubúna til að koma hér sem frelsandi englar og bjarga okkur, ofvöxnum börnunum sem um tíma höfðum allt of mikið af leikföngum milli handanna, frá hinni dýpstu eymd og svartasta volæði. Þessir fjársterku reynsluboltar hafa hug á að fjárfesta í endurnýjanlegri orku hér á landi.

"Tilgangur hópsins er alls ekki sá að fjárfesta í fiski og kaupa upp orkuauðlindir hér á landi."

Að vísu vilja þeir fá smá fyrirgreiðslu í staðinn, eðlilega því æ sér gjöf til gjalda, þ. e. ríkisborgararétt fyrir sig og börnin sín. Samkvæmt þessu er um að ræða fráskilda menn, með foreldraréttinn, því hvergi er minnst á eiginkonur.

So what??

Það er reyndar eitt örlítið atriði í dæminu sem sennilega hefur ekki farið fram hjá neinum nema kannski einhverjum gel greiddum fermingarguttum, en það er að mógúlar sem þessir reka ekki góðgerðarstarfsemi.

Nú að öðru.

Fréttir, og það ekki sérlega upplífgandi hafa borist manna í millum af stjórnendum OR, samanber meðfylgjandi klausu.

"Það var mat stjórnarformanns Orkuveitu Reykjavíkur í fyrrasumar, að verulega skorti á að æðstu stjórnendur fyrirtækisins gerðu sér fulla grein fyrir alvarlegri stöðu þess.

Nú er mér spurn. Þegar um er að ræða stjórnendur fyrirtækis af stærðargráðu sem OR er, eru þá ekki gerðar einhverjar lágmarkskröfur um menntun, fyrri störf og jafnvel greindarvísitölu?? Ekki má skilja það svo að ég ætlist til að háttvirtir stjórnendurnir skarti háskólagráðu en smá skynsemi gæti komið sér vel.

Hér er svo smá tilvitnun:

"Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir óhjákvæmilegt að minnka bankakerfið, en því fylgi að störfum í fjármálaþjónustu fækki."

Hann er búinn að uppgötva það.

Að lokum er hér smá frétt sem sló mig en hún fjallar um "fórnarlamb líkamsárásar sem ekki þorir að bera vitni vegna ótta um það sem gæti hlotist af því að standa við fyrri skýrslugjöf."

Sökum kunnáttuleysis get ég bara bent á þessa frétt í Vísi í dag, kl. 17:12 og fyrirsögnin er: Meintur ofbeldismaður sýknaður-fórnarlamb þorir ekki að bera vitni.

Hvað varð af vitnaverndinni??

Nóg er komið nú og þar til næst.

 


Einu sinni var......

......ég ungur hugsjónamaður.

Í dag er ég hvorugt. Aldurinn færist yfir mig rétt eins og alla og hvað varðar hugsjónirnar þá mætti benda á þetta:

"Borgarfulltrúum verður fjölgað í að minnsta kosti 23 samkvæmt nýjum sveitastjórnarlögum sem innanríkisráðherra kynnti í ríkisstjórn í dag. Ríkisstjórnin samþykkti að frumvarpið færi áfram til þingflokkanna."

Og þetta:

"Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, fær ekki svör frá Guðbjarti Hannessyni, velferðarráðherra, um hverjir fengu tugmilljóna greiðslur fyrir sérfræðiaðstoð hjá Íbúðalánasjóði. Alþingi segir ráðherra verði að svara.

Upplýsti Guðbjartur Hannesson  velferðarráðherra að árið 2001 hefði sérfræðigreiðslur numið tæpum 30 milljónum, sömu upphæð árið eftir, ríflega 32 milljónir árið 2003 en árið eftir námu greiðslurnar 102,3 milljónum króna. 80 milljónir voru greiddar í sérfræðiaðstoð árið 2005, 84,5 milljónir árið 2006, 101,4 milljónir árið 2007 og ríflega 100 milljónum ári síðar.  Samtals greiddi Íbúðalánasjóður því ríflega 560 milljónir króna í sérfræðiaðstoð."

Ekki má svo gleyma þessari frétt:

"Verðtryggð lán íslenskra heimila hækkuðu um 18,3 milljarða vegna áhrifa skattahækkana á lánin. Þetta kemur fram í svari efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Margréti Tryggvadóttur alþingismanni."

Þessir fréttastúfar segja allt sem segja þarf. Ég hélt í einfeldni minni að nú á þessum erfiðu tímum tækju sig allir saman til að leysa þau vandamál sem að okkur steðja úr öllum áttum og spara, á réttum stöðum. Svona getur manni skjöplast,

Þar til næst.

heimildir: Pressan, mbl. Vísir.


Nú gellur hæst í þeim sem ættu að þegja.

Undarleg þykja mér (ó)hljóðin í stjórnarandstæðingum. Allt skal tínt til enda malar áróðursmyllan á fullu þessa dagana.

Nú er ráðist að forsætisráðherra og hún sökuð um að hafa brotið jafnréttis lög með því einu að hafa skipað skrifstofustjóra samkvæmt hæfnismati.

Kúlulánþeginn og afskriftagreifynjan Þorgerður Katrín fer mikinn en orð hennar eru ekki svaraverð.  Þó má rifja upp gjörðir samherja hennar, Björns Bjarnasonar, er hann  braut jafnréttislög með skipan hæstaréttardómara, þvert gegn hæfismati.

Einnig má nefna vinnubrögð ónefnds dýralæknis er hann skipaði son Davíðs Oddssonar sem dómara við Héraðsdóm Austurlands og gekk þar með framhjá þremur sem taldir voru hæfari. Saga Sjálfstæðisflokksins einkennist af slíkum "vina og vandamanna" ráðningum, sem of langt væri að telja.

Fróðlegt væri að vita hver viðbrögð almennings, og þá sér í lagi íhaldsins, hefðu orðið ef forsætisráðherra hefði skipað flokkssystur sína í starf skrifstofustjóra og þar með gengið fram hjá þeim fjórum umsækjendum sem taldir voru hæfari til starfsins.

Þá hefði orðið fjaðrafok í hænsnakofanum.

En það er því miður eðli alltof margra að vera á móti, til þess eins að vera á móti, þyrla upp moldviðri og skapa sundrung og úlfúð í skítblönku samfélaginu.

Kveð að sinni og þar til næst.

P. S. Smá leiðrétting. Þorsteinn Davíðsson var ekki í fjórða sæti í hæfismati, heldur sá sjöundi.


Að kunna sér hóf......

......er nokkuð sem starfsfólk skila-og slitanefnda bankanna hafa greinilega aldrei lært.

Á sama tíma og hér ríkir kreppa, sem fer harðnandi, þá er sjálftökugræðgin á fullu.

Á sama tíma og fólk berst í bökkum, í allt að vonlausri baráttu til að ná endum saman, þá grípur græðgin gengið.

Á sama tíma og börnin okkar fara svöng til rekkju, þá skulu launin hækka.

Útskýringar og réttlætingar skortir ekki. Frekar en fyrri daginn.

Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi skilanefndar Landsbankans, bendir á að 77 milljóna árslaun hvers og eins þeirra fimm menninga sem í skilanefnd sitja, séu verktakagreiðslur. Því sé  réttara að tala um tekjur í þessu samhengi en ekki laun.

Big deal!

Og áfram dunar dansinn kringum gullkálfinn.

Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, bendir á slíkt hið sama og segir  að frá tölunni reiknist útlagður kostnaður nefndarmanna, svo sem símakostnaður og fleira.

Nú er mér spurn. Liggur liðið á línunni lon og don ??

Skilaboðin sem þetta vesalings aumkunarverða fólk, því aumkunarvert hlýtur það fólk að teljast sem setur Mammon ofar öllu, eru skýr. Kreppan kemur þeim ekki við, svo lengi sem þau geta makað krókinn.

Verktakalaun!

Hér hefur skapast ný yfirstétt (ásamt bankastjórum okkar) sem hefur það eitt að leiðarljósi að hygla sjálfum sér. Sama hversu ég reyni, ég get alls ekki skilið ofurlaun sem fara upp í sex milljónir á mánuði. Sem hljóta að teljast dágóð tímalaun. Mínus símareikningarnir.

Skyldu orð eins og; Hugsjón, réttlætiskennd, samhygð og heiðarleiki vera ókunnug þeim?? 

Svona rétt til að bíta höfuðið af skömminni þá lýsir efnahags- og viðskiptaráðherra því yfir að í raun sé enginn sem beri ábyrgð á rekstri skilanefndanna og geti haft með hana að gera. "Enginn hefur gott af því að starfa ábyrgðarlaust," segir Árni Páll.

"Hann segir nauðsynlegt að vinda ofan af því formi sem skilanefndirnar starfa við í dag. Ráðuneytið sé að vinna frumvarp sem eigi að koma skilanefndum undir eftirlit kröfuhafa, skilgreina starfsvettvang þeirra og greiða fyrir að þær verði leystar upp."

Ánægjulegt hlýtur það að teljast að Árni Páll skuli loksins hafa séð ljósið. Þetta höfum við óbreyttir vitað allt frá falli bankanna.

Með þessum ánægjulegu hugleiðingum býð ég ykkur góða nótt, og þar til næst.


 

 


Hvað varð af "Nýja-Íslandi??

Eitthvað rámar mig í orð eins og "gagnsæi, heiðarleika, o.sv.frv. en þegar vel er að gáð er staðan óbreytt.

Fálmkenndar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa í rauninni gert illt verra, sbr. frystingu lífeyris aldraðra og öryrkja. Eðlilega. Einhver þarf jú að borga brúsann og samkvæmt venjunni er ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur.  Þar fyrir utan er skattlagt til hægri og vinstri ef einhversstaðar vantar aur .Á sama tíma eykst landsflóttinn svo um munar en það hefur ekki farið fram hjá neinum, nema þá helst stjórnarliðum.

Síðustu daga hafa dunið á okkur fréttir af ofurlaunum bankastóra hins "Nýja og óspillta Íslands" og oftar en ekki með réttlætingum sem hver einasti grunnskólanemi myndi sárskammast sín fyrir.

Minna fer fyrir fréttum af kúlulánþeganum og bankastjóra Íslandsbanka, Birnu Einarsdóttur, sem er með, eftir síðustu launahækkun litlar 2, 6 milljónir í mánaðarlaun sem, vel að minnast eru sex hundruð þúsundum fyrir ofan eins árs örorkulífeyri einstaklingsins.

Í framhaldi leikur mér hugur á að vita:

a) samdi Birna um afborganir af 800 milljóna kúluláninu?

b) fékk hún lánið afskrifað??

c) er lánið í vanskilum???

Á sama tíma er verið að hirða hús af fólki sem hefur ekkert til saka unnið annað en að missa atvinnuna.

Fram hefur komið að Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arionbanka, hafi verið með 4,3 milljónir kr. í laun í mánuði í fyrra.

Iða Brá benediktsdóttir, forstöðumaður samskiptasviðs Arionbanka,,  segir að Höskuldur sé með 2,9 milljónir kr. í mánaðarlaun hjá bankanum. Hærri launagreiðslur á árinu 2010 skýrist af sérstakri eingreiðslu, upp á 10 milljónir, sem samið hafi verið um þegar Höskuldur lét af störfum sem forstjóri Valitors sl. sumar, en hann hóf störf hjá Arionbanka 1. júní í fyrra. 

Skilaboðin sem send eru þjóðinni eru ótvíræð.

"Við fleytum ofan af, þið súpið seyðið."

Framtíðarhorfur þeirra sem landið skulu erfa eru ekki góðar. Nema þá fyrir ungana sem eiga góða að.

Mér er hinsvegar spurn. Hver á að vinna skítverkin þegar fólksflóttinn skellur á fyrir alvöru?

Varla fólk sem aldrei hefur þurft að dýfa höndinni í kalt vatn.

Staðan er ekki glæsileg og með þessum orðum býð ég góða nótt og þar til næst.

 

 


Nú skemmtir skrattinn sér.

Aumkunarverðar voru útskýringar og réttlætingar Friðriks Zóphusssonar í síðdegisútvarpinu þegar hann reyndi að klóra yfir óþverrann þ. e. sjálftökugjörninga hæstvirtra bankastjóra Íslandsbanka og Arion banka. Helstu rökin, sem reyndar minna smá á "aþþí bara" stílinn, voru að benda á bankastjóra Arion banka og lýsa því yfir að þeir hefðu verið miklu frekari.

Sem sagt: Sandkassaleikurinn á fullu.

Eitthvað impraði manngarmurinn á þeirri ofur-ábyrgð sem höfðingjarnir bera.

Í framhaldi af þeim ummælum koma mér í hug önnur sem flugu fyrir snemma á árinu 2008 þar sem ofur-laun þáverandi bankastjóra voru réttlætt-með sömu rökum.

Framhaldið höfum við, láglaunaþegnar hins íslenska velferðarríkis, fengið að finna á okkar auma skinni.

Áfram vellur viðbjóðurinn yfir okkur og nú er vitnað til, annars vegar forstjóra þeirra 40 fyrirtækja hérlendis sem hafa staðið af sér 2007 geðveikina, og hinsvegar til bankastjóra hist og her í Evrópu.

Launin skulu vera samsvarandi, þrátt fyrir þá óvissu sem ríkir, ef einhverjum íslenskum bankastjóra dytti sú firra í hug að sækja um ...stjórastarf í Evrópu á "samsvarandi launum", því hvaða heilvita manni léti sér koma til hugar að ráða til sín ÍSLENSKAN bankastjóra??

Margt annað athyglisvert kom úr koki fyrrverandi forstjóra Landsvirkjunar, burtséð frá öllu ábyrgðarhjali sem háttvirtur Friðrik getur troðið upp í ra..... á sér, en spyrli síðdegisútvarpsins láðist að inna Friðrik eftir stöðu Landsvirkjunar, þegar hann tók við, og svo stöðunni ellefu árum seinna þegar hann forðaði sér með skottið á milli skankanna og leitaði á náðir "Stóra bróður." Hefði verið fróðlegt að sjá samanburðinn, þið vitið... samanburður=samsvarandi...

Í fyrramálið ku þessir kompánar verða teknir á beinið af dúettinum og krafðir skýringa. Sem að sjálfsögðu verða ekki opinberaðar óbreyttum almúganum. Samkvæmt venju. Svo eigum við von á smá tilkynningu frá forsætisráðuneytinu sem segir akkúrat ekkert.

Málið afgreitt. Málið dautt.

Geðslegt??

Þar til næst.

 

 

 

 

 


Að gefa með annarri en taka með hinni...

...er það fyrsta sem mér datt í hug, eftir að hafa fylgst með Kastljósi í kvöld, þar sem tekið var á málum okkar öryrkja, af skynsemi og raunsæi.

Stimpillinn sem við höfum fengið á okkur, hvað varðar leti og ódugnað er nokkuð sem erfitt er að losna við. Því miður en ég álít að slíkt hljóti að stafa af þekkingarleysi. Ég meina...hver vill reyna að draga fram lífið á 150 þús. á mánuði??

Ég hef verið löggiltur öryrki í sjö ár nú, þó svo aðdragandinn hafi spannað yfir næstum tvo áratugi, afleiðingar af all alvarlegu bílslysi sem ég lenti í liðlega tvítugur. Það var kannski ekki það skynsamlegasta að fara í kokkanám eftir þá katastrófu en á þeim árum komst ekkert annað að í mínum huga. Að námi loknu starfaði ég í faginu í tuttugu og fimm ár, var löngu búinn á því en ég tengdi það aldrei bílslysinu. Menn hafa jú missterkan hrygg.

Ég er reynslunni ríkari í dag þó svo ég hafi lært "the hard way". Ég er  svo lánssamur að hafa eignast mitt eigið húsnæði eftir að ég flutti til landsins aftur. Þar er ég betur settur en margur annar. Ég tók mig til og ákvað að læra mig út úr örorkukerfinu en slíkt gerist ekki án utanaðkomandi aðstoðar. Þar nýt ég aðstoðar fjölskyldunnar og fékk meira að segja smá námsstyrk sem ég er þakklátur fyrir, því hver króna telur.

Það fer að líða að því að ég verði að taka ákvörðun um framhaldið en þar klóra ég mér í kollinum því ég geri mér grein fyrir fötluninni og þar fyrir utan er ég algjör þurs í stærðfræði. Tíminn vinnur hins vegar með mér.

Reyndar var margt annað í kvöldfréttunum sem vakti athygli mína t. d. þegar fjármálaráðherra vor reyndi að klóra yfir skí.... úr sér þegar hann reyndi að réttlæta gjafagjörninginn til handa þremur meðferðarstofnunum (einkareknum) sem allir sjá nema hann, bjálfinn sjálfur.

Orðin gagnsæi og heiðarleiki virðast ekki eiga við...nema þegar honum hentar, OG þetta eru skattpeningarnir okkar því ég borga skatt af örorkulífeyrinum, því þó svo oftar en ekki hafi verið til umræðu að hækka skattleysismörkin þá virðast allir þingmenn okkar fá fyrir brjóstið þegar minnst er á slíkt.

Slík er nú staðan hjá okkar háttvirtu en þeir ættu að minnast þess að enginn er æviráðinn í stólinn og ef fram heldur sem horfir þá kemur að stóra hvellinum.

Nú ætla ég ekki að halda því fram að staðan væri betri, nú í það minnsta öðruvísi, ef Hrunverjar kæmust í stjórn aftur. Öðru nær. En mikið væri nú ánægjulegt ef okkar háttvirtu hefðu  haft, þó ekki væri nema smá snefil af skynsemi, þegar kom að forgangsröðuninni.

Ég hef líka velt fyrir mér ástæðunni fyrir brottfellingu 8. greinarinnar úr Iceslave samningnum sem kvað á um að þeir sem sekir yrðu fundnir um misferli hvað snerti bankana yrðu látnir svara til saka.

Það læðast að mér margar ljótar hugsanir en ég ætla ekki einu sinni að leiða getum að því að verið sé að makka á bak við tjöldin, þó mér finnist furðu snögg umskiptin hjá formanni Sjálfstæðisflokksins. Bjarni Ben er enginn auli en hvað veldur þá þessum sinnaskiptum??

Já, það er margt einkennilegt sem gerist þessa dagana en hins vegar gerist ekkert, í búðum Sérstaks, allavega ekkert sem við fáum að vita.

Fyrir utan það hefðbundna að einn sé kærður fyrir eitt og annar sé kærður fyrir annað en svo lognast málin út af.

Það er jú hefðin hjá landanum og með þessum orðum býð ég góða nótt, og þar til næst.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband