Hugleiðingar í vikulok. (enn og aftur)

Ég vil það komi skýrt fram að það er ekki leti sem hefur aftrað mér frá að blogga.

Öðru nær.

Námið tekur sinn tíma og það er svo gefandi að ég get varla lýst því.

Ég hef sem sagt ekki haft tíma til að rífa kjaft á blogginu, en......nú verður bætt úr því.

Þegar ég lít yfir fréttir vikunnar þá ber þar enn hæst á baugi Kaupþingsskjölin margumtöluðu, sem nú eru loksins komin í vörslu Sérstaks.

Áðurnefnd skjöl eiga að öllum líkindum eftir að koma svitanum út á mörgum manninum. Við þá vil ég bara segja:" Maður með hreina samvisku hefur ekkert að óttast."

Ég las einstaklega jákvæða frétt áðan sem fjallar um kaup fjárfesta &lífeyrissjóða o. fl. í þriðjungi "Haga".

Ég ætla að leyfa mér að vera  bjartsýnn, þrátt fyrir allt sem á undan er gengið.

Þarna er heiðarlegt fólk á uppleið.

Þetta er afrek, sérílagi þegar mannni verður hugsað til forgangsröðunar ríkisstjórnarinnar, sem setti á forgang að troða okkur í ESB og ef ekki með góðu, þá með illu.

Svo kom Icesave fjárkúgunin. skjaldborg heimilanna og allt annað sem var að,   eftir minni.

Svona rétt til að taka tillit til þeirra viðkvæmu þá ætla ég ekki að hafa fleiri orð um það en bendi á að ef við höfum til hliðsjónar Icesave I, sem er afrek Svavars  bjálfans Gestssonar og svo Icesave III sem að öllum líkindum kemst í gegn í þinginu, þá eru góðu fréttirnar þær að því lengur sem dregst að semja, þeim mun meir lækkar upphæðin.  Sona so þið vitið það.  So ekki sé minnst á þjóðaratkvæðagreiðslu.

Nú hef ég dvalist á landinu í áratug, ætlaði mér bara að stoppa stutt, en stundum tekur lífið aðra stefnu en maður átti von á.

Oftar en ekki hef ég verið kominn á fremsta hlunn með að pilla mig af skerinu. Slíkur er viðbjóðurinn og spillingin sem blasir við mér.

En, "Römm er sú taug" og hún er sterk. Það hef ég upplifað á eigin skinni.

Svo... ætli maður reyni ekki að vera bjartsýnn?

Þar til næst.

 

 

 


Hugleiðingar í vikulok.

Tíðindi vikunnar hljóta að teljast úrskurður Hæstaréttar Luxemborgar um afhendingu allra gagna úr Banque Havilland bankanum þar í bæ. Eins og fram kemur í fréttinni eru gögnin talin hafa verulega þýðingu fyrir rannsókn á Kaupþingi. Þá fer að draga til (stór)tíðinda hjá Sérstökum.

Í framhaldi af því fór ég að velta fyrir mér stöðu fangelsismála hérlendis sem er ákaflega dapurleg. Rætt hefur verið um byggingu nýs fangelsis síðustu áratugi en einatt verið blásið út af   borðinu. Umræður síðustu daga hafa snúist um nýtingu vinnubúða frá Reyðarfirði sem væntanlegt húsnæði með pláss fyrir allt að 50 manns. Fangelsisstjóri setur sig á móti þeirri hugmynd og segir ekki þörf á meiru bráðabirgðahúsnæði og bendir á Bitru sem, eftir því sem ég kemst næst, er rekin á sama hátt og Kvíabryggja. Sem varla er til bráðabirgða.

Þarna er ég ósammála Páli Winkel. Þörfin hefur aldrei verið meiri en nú þegar 300 manns bíða afplánunar og gæti farið fjölgandi á næstu mánuðum.

Kostnaðurinn við vinnubúðirnar er talinn  vera 90 milljónir sem er brot af þeirri upphæð sem ráðamenn okkar til hægri og vinstri hafa sóað í gæluverkefni. Hvað snertir byggingu nýs fangelsis þá hefur það ekki verið boðið út og samkv. frétt frá innanríkisráðuneytinu verður slíkt óstaðsett í útboði. Ef við lítum svo á kostnaðarhliðina þá er verið að tala um tæpa tvo milljarða. Sem ekki eru til.

Á sama tíma standa þúsundir fermetra af ónýttu húsnæði í nánd við höfuðborgarsvæðið sem er hægt að breyta í fangelsi með mun minni tilkostnaði. Sama hvað sagt er. Ég get ekki fallist á að allir þeir sem bíða afplánunar þurfi að gista í "öryggisfangelsi." Þegar upp er staðið ætti Litla Hraun að nægja.

Hugsunarháttur þjóðarinnar og sérílagi ráðamanna verður að breytast. Þetta er ekki árið 2007 og í hvert skipti sem teknar eru heimskulegar ákvarðanir og þær eru ófáar, þá þyngjast álögurnar sem samkv. hefðinni lenda á þeim sem minnst mega sín en þegar búið er að reyta allar fjaðrirnar af fuglinum á þá að tálga kjöttægjurnar líka?  Og fólksflóttinn eykst.

En nú að öðru.

Fréttir frá hinu háa Alþingi eru í sama dúr og undanfarna mánuði, "ekki benda á mig" viðhorfið ríkjandi og skiptir þá engu hver á hlut að máli. "Þeir sem hæst geyja ættu að þegja" sagði bóndinn þegar hann var að sussa á hundinn sinn. Orð að sönnu.

Ég rakst reyndar á skondna frétt af einum háttvirtum sem man ekki hvort hann greiddi  atkvæði með eða móti stjórnlagaþinginu. Skyld´ann muna hvort hann yfirhöfuð greiddi atkvæði??

Ég get ekki látið hjá líða að minnast á þessi gegndarlausu áfengiskaup háttvirtra okkar. Fyrir tíu og hálfa milljón, reyndar tuttugu og eina því mannskapurinn fær búsið á hálfvirði, mætti borga laun nokkurra innan heilbrigðisþjónustunnar.

Það læðast að mér margar ljótar hugsanir en ég ætla ekki einu sinni að leiða getum að því að þetta áfengiskaupastjórnleysi sé orsök alls slugsins og klúðursins sem ég verð alltof oft vitni að. Ég geri þá lágmarkskröfu að þessi "hlunnindi" verði afnumin með öllu. Hafi liðið ekki efni á að borga fullt verð fyrir sopann þá er bara að sleppa því.

Það er ekki flóknara en svo og með þessum orðum kveð ég að sinni og þar til næst.

 

 

 

 


Margt heimskulegra en það.

wisdomEitthvað virðist vera að rofa til í höfðum háttvirtra ráðamanna vorra en  ósköp hefur það tekið langan tíma.

Reyndar hef ég oftar en ekki viðrað hugmyndir mínar um fangelsi og meðal annars bent á Vífilsstaðaspítala, Veiðilæk í Borgarbyggð þegar kofinn verður hirtur af Sigga garminum og Kárahnjúkabúðirnar sem, því miður, alltof margir halda vera einhver kofaræksni.

Við höfum einfaldlega ekki efni á að byggja fangelsi fyrir einn og hálfan milljarð eða hvar á að slá lán í þetta skiptið?

Væla í AGS?? Varla. Norðurlöndin??? Útilokað. Lánstraust okkar á þeim vígstöðvum er löngu fokið út í veður og vind. Nú er hinsvegar talað um níutíu milljónir en ekki má gleyma girðingunni sem kostar sitt ef hún á að þjóna megintilgangi sínum að mínu mati þ. e. að varna þeim "útrásarvíkingum" sem telja sér best borgið innan girðingar "innrásar."

Þeir eru sosum ekki ofarlega á vinsældalista íslensku þjóðarinnar.

 Á okkur dynja hörmungar daglega eins og kosningaklúður, afskriftir skuldagreifa, vafasamar mannaráðningar að ógleymdum áfengiskaupum ráðuneyta okkar, Biskupsstofu, ríkisendurskoðunar og jafnvel forsetaembættisins fyrir liðlega tíu milljónir og í onálag fær mannskapurinn búsið á hálfvirði.

Skyldi skýringin á öllu slugsinu og hverju klúðrinu á fætur öðru liggja þarna?

Við þurfum öll á einhverju léttmeti að halda sem gæti lyft okkur ögn upp úr svartnætti hugsana okkar því það eru ekki allir sem mala gull í kreppunni.

Ég var að taka til í tölvuræksninu, fæ stundum svona fjörkippi með hækkandi sól, rakst á þennan hugljúfa ljóðabálk sem ég hef vistað í lok júlí 2009 og gæti kannski glatt einhverja.   Jamm,  ég ætla að deila namminu með ykkur. Því miður hefur höfundi láðst að láta nafn sitt fylgja með,skrifar undir nafninu "Lobster" og ég hvet hann til að gera vart við sig því þetta er skemmtilegur kveðskapur. Reyndar vantar titil líka, mætti kallast "Svanasöngur útrásarvíkinganna" og fyrir þá sem ekki þekkja til þá hafa svanir mikil hljóð en ófögur.   

Hér kemur svo dýrðin. 

Nr. 1                                                   nr. 2

Ísland ljúft í ljóma svaf,                       Upp á toppinn ef þú nærð
lítil þúst við ysta haf.                           undir vænginn meðbyr færð
Vormenn hana vöktu.                         og undir allt þér liggur.
Útrásin kom austan veg,                     Freistingin þig fanga kann
innrásin var varanleg.                         fjarri viltu sannleik þann
Fánar frelsis blöktu.                            að allt frá öðrum þiggur.

Af sér gat hún gegna menn.               Undan fór að fjara þeim
gerir það víst reyndar enn,                 fundu búið var allt geim
Fáir framúr skara.                               bréf í banka hrundu.
Stóraskuldin stendur há,                    Björgvin G. því bað um fund
stjórnarliðar til og frá                          bankinn skyldi opna sund
fast með veggjum fara.                      og létta þeirra lundu.

Björgólfsfeðgar báðir tveir                   Bankans milda bankaráð
bylta heimi vildu þeir                          Björgvin leit af stórri náð
um með stæl og stuði.                        milljarð vildi veita.
Líkt og Bush með landaþrá,               Sæll og glaður söng og hló
landa buðu Rússíá                             er sagði bankaráðið "hó"
með boðorð beint frá Guði.                 þurfti ei langt að leita.

Semja þurfti um kaup og kjör,           Líkt og venda kvæði í kross
kunnu vel við þetta fjör.                    kaupin gerði í ætt við hross
Hjartað hló af kæti.                            af sér eignir keypti.    
Um prósenthlutann prútta varð,        Náttúran af ráðum rík  
Prússagrýlan vildi arð                         í rassinn greip hans spariflík
annars yrðu læti.                               beint á botninn steypti.

Mættust þarna stálin stinn,              Snorrabúðin stekkur stór
stóðu þétt um bissnessinn               stendur grá hvar útrás fór
Björgólfsferðir fræknar.                     sár er sviðin jörðin.
Íslenskum er enginn jafn,                 Vítin þessi varast ber
að endingu sér gáfu nafn,                vitum gjörla hvernig fer
léttölslagertæknar.                           þjást mun þjóðarhjörðin.

Árar lagði upp í bát,                         Illa stendur íslensk þjóð
orðin Rússagrýlan mát.                    engan gefur varasjóð
Um lögun lét sig dreyma.                af landi og lausum aurum
Víst er þessi veröld köld,                 En hún á mikið þrek og þor
vinni gegn þér máttarvöld               það mun aftur koma vor
æðri yfirheima.                                gefðu gaum að maurum.

Heima þeirra banki beið,                 Víst er maurinn alltaf að
búin var þeim leiðin greið.               eins sem vilji segja það
Vel þá stjórnvöld studdu.               að iðja umbun færi.
Eftir þessa frægðarför                    Upp úr stónni aftur rís
færðust upp á hærri skör.               íslensk þjóð að Paradís
rúblur rúlla í buddu.                       lexíu sérhver læri.

Beta drottning bauð þeim heim,
brosandi og örmum tveim
um þá opnum vafði.
Keyptu hús og hallir þeir,
Hamið Westið síðar meir.
Útrás ekkert tafði.

Svona rétt í lokin þá er ég þess fullviss að ég hafi fundið aðstoðarfólk háttvirtra ráðherra okkar því aðstoðar hljóta þau að hafa notið. Það segir sig sjálft. Annars hefði þeim ekki tekist að klúðra svo mörgum málum á svo stuttum tíma.   Ef við lítum aðeins á forgangsröðunina þá má nefna ESB bullið, Isecave málið sem er ekkert annað en fjárkúgun af svæsnustu sort. Það góða við það mál er að því lengur sem dregst að "semja" þeim mun hraðar lækkar upphæðin. Við getum haft Svavars samninginn Gestssonar til hliðsjónar. Svo nú er bara að bíða átekta.....

three-wise-monkeysÞað má líka nefna bruðlið í utanríkisþjónustunni á sama tíma og heilbrigðiskerfið riðar til falls en það er nú þetta með fj...... sýndarmennskuna. Svo hefur vinum og vandamönnum verið raðað á garðann undir því yfirskini að um tímabundin störf sé að ræða. Engin takmörk fyrir tjörunni.

Nú ætla ég ekki að halda því fram að staðan væri betri eða öðruvísi héldi núverandi stj..andstaða um stýrið. Því er öðru nær... 

Svona rétt til að kóróna nú vitleysuna þá tókst stjórnarliðinu að verða íslensku þjóðinni til skammar rétt einu sinni enn.                                                              Ekki voru þessar kosningar, stjórnlaga eður ei, þær fyrstu í sögu lýðveldisins og hvernig hægt var að klúðra hlutunum frá upphafi til enda er ofvaxið mínum skilningi og tel mig þó prýðisvelgefinn.  Öllu og öllum hefur verið kennt um nema kannski aðstoðarmönnum ráðherra. Reyndar rak á fjörur mínar tvær gamlar og svolítið lúnar myndir af mannskapnum sem mig grunar að hafi verið  með í ráðum í allri vitleysunni. Því miður þá eru þær í svarthvítu en þokkalega skýrar samt.   Það munaði reyndar minnstu að ég gleymdi að minnast á Skjaldborg heimilanna. Ojæja. Ég er ekki sá eini.

Ég sé að uppsetningin hjá mér er ekki nógu góð en slíkt getur gerst þegar viðvaningurinn er að fikra sig áfram með myndir.

Bið ykkur að taka viljann fyrir verkið og þar til næst.

 

 

       

 

 

 

 


Vonandi fer þessu að ljúka.

Jafn illa og mér, ásamt öllum öðrum, er við að borga skuldir óreiðumanna þá er ég kominn á þá skoðun að best sé að samþykkja Icesave III og koma málinu frá.   

Með smá breytingum þó.

Málið er búið að hvíla á okkur eins og mara og hefur meðal annars haft í för með sér frystingu á þeim lúsarlífeyri sem okkur öryrkjum er skammtaður.

Smá glæta er þó í svartnættinu en það er að takist að reyta einhverja aura af þeim óráðsíumönnum sem komu okkur í þessar hörmungar.

Aurarnir eru til. Það segir sig sjálft. Menn sem hafa efni á stjörnulögfræðingum hljóta að eiga peninga. Hvar svo sem í fjandanum þeir eru faldir.

Síðustu tvo sólarhringa hef ég lesið sóðastafrófið allt frá A til Ö hvað varðar störf sérstaks saksóknara og rekist á orð sem: skrípaleik, sjónarspil, vinsældabetl og sv. frv.

Slík skrif lýsa best andlegu ójafnvægi viðkomandi skríbenta og óþarfi að hafa fleiri orð um það.

Ég hef trú á störfum "Sérstaks" og þó svo okkur lengi eftir niðurstöðum þá efast ég ekki um að þar er vel að störfum unnið.

Mér eru minnisstæð orð Evu Joly er hún sagði að búast mætti við málaferlum upp á 4 til 5 ár.

Mér er líka minnisstæð sú unaðstilfinning sem ég upplifði þegar hún rassskellti íslensku ríkisstjórnina í beinni útsendingu í Kastljósi, á sínum tíma.

Þá fyrst komst skriður á málin.

En nú að hinu jákvæða því það gerist líka og þetta er nokkuð sem snertir sjálfan mig.

Eins og alþjóð veit þá hefur niðurskurðarhnífurinn verið á fullu undanfarið og meðal annars er búið að leggja niður "Svæðisskrifstofu Vesturlands," sem var mér eins og haldreipi þegar eitthvað bjátaði á. Ég sótti um námsstyrk s.l. haust en vegna breytinga og tilheyrandi vafsturs þá dróst afgreiðsla málsins á langinn. Ég tek fram að ég er ekki bara öryrki heldur líka fátækur háskólanemi. Í stuttu máli þá hringdi ég í "Fjársýslu ríkisins" í gær og bar upp mál mitt.

Þrátt fyrir miklar annir þá var búið að afgreiða málið þegar ég fór inn á netbankann í morgun. Ég tek ofan fyrir þessu sómafólki og þakka þeim hjartanlega fyrir skjóta og góða úrlausn.

Góðir hlutir gerast líka þó við komum kannski ekki alltaf auga á slíkt.

Nú er ég kominn á fulla ferð í "Ensku II" og þó svo verkefnið virðist allt að því óviðráðanlegt þá veit ég að mér tekst það.

Þar til næst.                      

 

 


mbl.is Reikna með samþykkt Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábært framtak...

Góðir hlutir gerast reyndar en alltof sjaldan.

Björk og Ómar fóru á kostum og þó svo ég hefði ekki tækifæri til að mæta þá fylgdist ég þeim mun betur með útvarpinu. Er búinn að leggja mitt af mörkum með því að skrá mig á "audlindir.is" og vona að sem flestir geri það.

Þegar ég lít yfir fréttir dagsins þá kemur eitt og annað fróðlegt í ljós.

Hæst ber á góma frétt Rúv. um síðastu fundargerð lánanefndar Landsbankans  frá 8. október 2008, þ. e. daginn eftir að bankinn var tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu. Sigurjón Þ. Árnason, Halldór K. Lárusson og Elín Sigfúsdóttir höfðu þá komið saman og ráðstafað lánum upp á 117 milljarða króna.

Áðurnefnd Elín Sigf.. var í framhaldi af því ráðin bankastjóri hins "Nýja Landsbanka."

Það er að bera í bakkafullan lækinn að eyða tíma í skrif um spillingu, sem hefur reyndar fylgt okkur allt frá þeirri stundu að forfeður okkar yfirgáfu Noreg í þeim tilgangi að losna við skattgreiðslur til kóngs sem ekki var þeim að skapi.

Þessi andúð á eðlilegu framlagi í þjóðarbúið loðir við okkur enn því nú flytur fólk í hrönnum til Lúxemborgar sem reyndar er skammgóður vermir því innan tíðar berast okkur plögg þau er varða Kaupþing, með upplýsingum sem eflaust eiga eftir að koma einhverjum til að svitna.

Einhver ku hafa forðað sér til Madrid, sem enn mun vera nokkurs konar skattaskjól, gegn gjaldi þó.

Var ekki annars búið að frysta eigur "útrásarvíkinganna" eða á að gefa þeim tækifæri að fela síðustu aurana?

Svo koma þessar hefðbundnu (óstaðfestu) fréttir um bruðl hér og bruðl þar eins og t. d. þegar FL Group splæsti sex komma tveim milljörðum á starfsmenn og (eigin) konur þeirra, flugferðir, glæsibíla,dagpeninga sem minnir mig á skerðingu sjómannaafsláttar þó svo stjórnvöld þegi þunnu hljóði um þá átta milljarða sem fara í dagpeninga til þeirra rétttrúuðu, en samkvæmt venjunni þá er þagað og það nógu lengi í þeirri von að slíkt gleymist.

Sem er misskilningur. Við gleymum ekki, þó svo ég viti að það er tilgangslaust að reyna að halda slíkum umræðum opnum því þegar allt kemur til alls þá gleymast kosningaloforðin þegar menn telja sig hafa tryggt sér mjúkan stól.

Sem er reyndar annar misskilningur.

Það er enginn æviráðinn til starfa á hinu háa Alþingi og ef fram heldur sem horfir þá má alveg eins búast við tjöru og fiðri þegar upp úr sýður.

Slík er ólgan orðin í samfélaginu, sem öllum er kunnugt.

Nema kannski ráðamönnum þjóðarinnar.

Nóg komið að sinni því nú ætla ég að snúa mér að eldamennskunni og elda uppáhaldsmat okkar kisu litlu þ. e. soðna ýsu með hamsatólg (fyrir mig) bráðið smér fyrir hana. Enda er litla daman komin í dágóð hold. Sumir halda því fram að kettir séu falskir og elski bara þann sem slettir mat í ílátin þeirra. Þeir sem hafa upplifað "lítið" kattarskinn sem kúrir sig í hálsmálið á manni þegar lagst er á koddann vita betur.

Margir ráðamanna okkar gætu lært eitt og annað af dýrunum.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Dúettar í karókí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðilegt nýtt ár.

Ég óska öllum vinum nær og fjær gleðilegs nýs árs í þeirri veiku von að við förum að rétta úr kútnum með nýrri ríkisstjórn! Guð blessi ykkur öll og vaki yfir okkur.

Gleðileg jól.

Ég óska öllum vinum nær og fjær gleðilegra jóla og hamingjuríks lífs.                                              Með einlægri von um að nú fari að rofa til.

Megi góður guð blessa ykkur öll og vaka yfir.


Orð að sönnu.

Endalaust má deila um hvað sé rétt og hvað sé rangt, en að ráðast að þingmanni fyrir að fylgja sannfæringu sinni, þó svo það hafi í för með sér að brugðið sé út frá stefnu forystusauðanna, er gjörsamlega út í hött.

Lilja Mósesdóttir hefur sýnt og sannað að hún hefur bein í nefinu og berst fyrir sínum hugsjónum, sem vekur reyndar þá spurningu hvuddn fj...... hún sé að gera innan fjórflokkakerfisins .

Að mínu mati á hún frekar heima innan grasrótarhreyfingar eins og t. d. Hreyfingarinnar, sem í augnablikinu er bara svipur hjá sjón en, ef landinn getur staðið saman, gæti orðið öflug stjórnmálahreyfing.

Ég verð því miður að lýsa yfir vantrausti á þetta staðlaða "gamla" fjórflokkakerfi því oftar en ekki læðist að mér sá ljóti grunur að verið sé að versla með hin og þessi mál á bak við tjöldin.

Sem leiðir getum að afgreiðslu Icesave annars vegar og kvótakerfisins hins vegar.

Skyldu "kvótagreifarnir" komast upp með áframhaldandi brask?

Nú að öðru.

Ég rak augun í frétt sem sló mig all harkalega en hún snýst um þau hjónakornin Kristján Arason og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur.

Getur verið að upphæð upp á litla tvo milljarða verði afskrifuð?

Í lok fréttarinnar er smá klausa sem vakti eftirtekt mína.

"Sjálf segist Þorgerður ekkert hafa vitað af viðskiptum eiginmanns síns enda er óeðlilegt að hjón ræði um það sín á milli þegar annað þeirra tekur milljarða að láni."

Það er sosum góðra gjalda vert að hjónakornin taki ekki fjárhagsmálin með í bólið en fyrr má nú vera.

Svo er hér önnur góð sem heillaði mig upp úr skógörmunum.

"Icelandair Group og dótturfélög þess keyptu lúxusbifreiðar fyrir stjórnendur sína og lykilstarfsmenn fyrir marga tugi milljóna króna á þessu ári, eftir að Framtakssjóður lífeyrissjóðanna lagði fyrirtækinu til nýtt hlutafé."

Svo koma útskýringarnar.

" Björgólfur (Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group)  fullyrðir að endurnýjun á bílum starfsmanna á þessu ári hafi ekki haft í för með sér teljandi viðbótarkostnað ."

Ef ég væri sæmilega pennafær þá myndi ég taka saman öll þau gullkorn sem hrotið hafa af vörum víkinga okkar.

Útrás eður ei.

Þar til næst.

 

 

 


mbl.is Lilja lögð í pólitískt einelti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn við sama heygarðshornið.

Já...nú skal snúa vörn upp í sókn og kæra.

Jón Ásgeir skortir ekki hugmyndaflugið þegar að réttlætingum kemur.

Þess ber reyndar að minnast: Saklaus uns sekt er sönnuð (eða fyrnd).

Gullkornin hrjóta af vörum hans. Aldrei sem fyrr.

Svo vitnað sé i hans eigin orð: Málareksturinn hefur valdið miklu tjóni. „Menn þurfa ekki annað en að glugga í umfjöllun fjölmiðla til að sjá að tjónið er mikið. Menn hafa misst störf sín og fyrirtæki út af þessari stefnu."

Nú er mér spurn. Hvaða störf og hvaða fyrirtæki skyldi hann vera að höfða til?

Baugur?  Hagar?  1998?  Hann lýsti því reyndar yfir hér um árið að hann væri tilbúinn að vinna á lyftara ef allt annað brygðist.

Pálmi "Fons" Haraldsson ber sig illa þessa dagana, ber við áhyggjum og heilsuleysi o.sv.frv. út af þessum "stormi í vatnsglasi."

Ég vona Pálma vegna að samviskubit haldi ekki fyrir honum vöku en vil hins vegar benda á að ansi margir Íslendingar eiga við sömu vandamál að stríða vegna atvinnumissis, skuldasöfnunar og áhyggja vegna afkomu fjölskyldna sinna.

Viðbrögð sjömenninganna eru alveg eftir uppskriftinni frá Evu Joly.

Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindumála.

Skyldu sjömenningarnir láta verða af því að kæra allt og alla?

Ég bíð átekta en í millitíðinni ætla ég að láta hverjum degi nægja sitt og hver veit nema ég druslist til að taka til hjá mér, svona rétt fyrir jólin.

Þar til næst.

 

 

 

 

 


Að útskrifast með hraði!

Oft hefur landanum legið á en fyrr má nú vera.

Í "den tid" tók menntaskólanámið fjögur ár, sem í dag er skrúbbað af á tveimur árum. Geri aðrir betur.

Að vísu, og hér setti mig hljóðan. Þar sem nemendur Hraðbrautar eru mun færri en borgað er fyrir þá hljóta þessar umframlúsamilljónir að skila sér í betri kennslu og þar af leiðandi betri undirbúningi undir væntanlegt háskólanám.

Annað kemur hinsvegar í ljós í skýrslu menntamálanefndar þar sem því er haldið blákalt fram að nemendur úr Hraðbraut standi sig verr í Háskóla íslands en nemendur úr öðrum menntaskólum.

Kíkjum nú aðeins á kostnaðinn:

Fjárhagsleg óreiða, og þá er að öllum líkindum átt við þessar 82 millur sem eigendur Hraðbrautar greiddu sér í arð en virðast svona fljótt á litið ekki vera einu sporslurnar sem eigendurnir skömmtuðu sér.

Í framhaldi af því má rifja upp aðgerðir fyrrverandi menntamálaráðherra að fella niður 92,1 m. kr. skuld skólans við ríkissjóð þegar þjónustusamningur ráðuneytisins og Hraðbrautar ehf. var endurnýjaður árið 2007.

Ég hélt í einfeldni minni að aurarnir hefðu verið ætlaðir til að troða viskunni í hausinn á misvel gefnum ungum okkar. En öllum getur skjátlast.

Undanfarna áratugi hefur venjan hjá sitjandi ríkisstjórn verið sú að láta svona mál "sofna" og þá væntanlega í þeirri von skattgreiðendur hafi gleymt!

Í dag er landslagið allt annað. Við gleymum engu. ekki frekar en núverandi ríkisstjórn man eftir að frysta allan lífeyri, teygja sig í allar áttir eftir aurum sem fólk hefur barist fyrir að eignast, hækka bensín, hækka þetta, hækka hitt, á sama tíma og þau gera sér ekki grein fyrir að einkaneyslan er drifkraftur efnahagsstarfsseminnar.

Mér er minnisstæð tillagan sem Lilja Mósesdóttir, ásamt Sjálfstæðismönnum, lagði fram og var fólgin í skattlagningu séreignasparnaðar.

Sú tillaga var, illu heilli, blásin út af borðinu.

Mér eru líka minnisstæð orð núverandi ráðamanna þegar talað var um "Skjaldborg heimilanna" og allt skyldi upp á yfirborðið.

Mikið rétt. Það dynja á okkur fréttir daglega um spillingu hér og spillingu þar. Smáfiskarnir eru gómaðir en stórlaxarnir sleppa.

Ég velti stundum fyrir mér hvernig gjaldþrota menn sem eiga varla fyrir diet-coke skuli hafa efni á stjörnulögfræðingum, sem kosta jú sitt.

Hvaðan koma aurarnir?

Enn ganga þeir lausir.

Á svona stundum er ég því fegnastur að drengurinn minn kemur ekki til með að upplifa spillinguna og viðbjóðinn sem allstaðar blasir við okkur. Hann er fluttur aftur til Færeyja og ég er hreint út sagt glaður. Ekki það að ég hafi neitt á móti Dönum, barnsmóðir mín var dönsk, en eftir margra ára búsetu í Færeyjum get ég með góðri samvisku sagt að vandaðra og heiðarlegra fólki hef ég ekki kynnst.

Við gætum lært eitt og annað af frændum okkar.

Ég ætla að hætta að ergja mig að sinni og þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Vilja úttekt á einkareknum skólum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband