Færsluflokkur: Dægurmál

" Í sól og sumaryl "

   Trúi því hver sem vill en hér hefur verið sumarlegt í dag, varla að maður hafi fundið fyrir norðaustangolunni.

   Ég tók mér smá frí frá garðyrkjunni ( já, ég er enn að reyna að grafa upp plönturnar mínar, kem að því seinna) og fór í smá göngutúr upp fyrir bæinn þar sem ég gat virt fyrir mér framkvæmdirnar fyrir ofan skólahverfið þar sem verið er að undirbúa unglingalandsmótið næsta ár. Þarna er m.a. verið að gera ný tjaldstæði- rakaþétt í þetta skiftið-, sparkvelli, og allt sem til þarf svo að mótið fari fram með sóma. Það var ekki laust við að mér volgnaði um þær gömlu slitnu þegar ég virti svæðið fyrir mér því ég veit þetta verður til fyrirmyndar. Hafi þeir(þau) þökk fyrir sem að þessu standa.Smile

   Ég rölti því næst niður að höfn, þar er verið að steypa plötuna ofan á nýju bryggjuna, gat ekki annað en glott með sjálfum mér þegar mér varð hugsað til síðustu heimsóknar minnar á þessar slóðir. Ég skrapp á rúntinn með kunningja mínum og við ákváðum að kíkja á risatogara (Lómur 2) sem þá var að tékka inn á frystihótelinu, og kanna aflabrögð. Varla höfðu framdekk bílsins kysst bryggjusporðinn þegar hafnarstjórinn birtist í öllu sínu veldi og tilkynnti okkur- af sinni alkunnu háttvísi- að þarna væri Girðing! Nú verð ég að viðurkenna að ég hef ekki pissað í saltan sjó i bráðum áratug og alls ekki hérlendis. Sjálfsagt hefur margt breyst og nú þegar mér hefur verið tjáð að höfnin hér í Grúnó sé orðin tollhöfn þá brennur á vörum mér spurningin: Hvað nú ef ég mætti á svæðið með vegabréfið mitt(með öllum áritunum), skyldi ég sleppa inn til að snuðra smá? Bara smá?? Forvitnin hefur alltaf verið mín veika hlið.

   Og nú að garðyrkjunni. Ég var að lesa á síðu Grundarfjarðarbæjar að nú hefðu verið lagðir 30.000 ferm. af varanlegu slitlagi plús 8.600 ferm. fyrir einstaklinga, enda er breytingin stórkostleg! Ég er bara að velta fyrir mér: Getur verið að ég hafi gleymst? Ég á við þennan 1,4 ferm. sem nú dekka ytri plönturöðina mína.Í hvorum hópnum skyldi ég hafa lent? Það sem bjargaði girðingarstaurunum mínum er að þeir standa enn upp við bílskúrsvegginn hjá nágrannanum, sem sýnir og sannar að: "Sjaldan er flas til fagnaðar".

Nóg um það.

Kíkjum nú aðeins á bókmenntir. Ég er þessa dagana að lesa bók sem rak á fjörur mínar og heitir: Dauðar sálir" og er eftir rússneskan höfund Nikolaj Gogol að nafni,  var fyrst gefin út í Rússlandi árið 1842 og vakti athygli mína fyrir ádeilu, háð og kímni. Ég mæli hiklaust með henni.

   Vel á minnst. Í fyrsta blogginu mínu hafði ég á orði að sumardaginn 1. hefði verið 75% mæting á ættaróðalinu en skjótt skipast veður í lofti og nú er svo komið að bræður mínir tveir eru komnir til Danaveldis. Ég viðurkenni fúslega að mig dauðlangaði með en eftir ellefu ára kynni af Dönum þá er ekki laust við að mér sé hlýtt til þeirra. Allavega færi ég aldrei að leggja á þá að fá okkur alla fjóra bræðurna á einu bretti. Ég álít að það sé mun skynsamlegra að gefa þeim okkur inn í smá skömmtum svo ekki sé minnst á skort á ákveðnum bjórtegundum eftir að bræður mínir  ruddust þar á land. Nóg var nú komið samt.

   Þar til næst.

  

 


Fréttir úr Grúnó.

    Enn heimtar hann fréttir. Til hamingju með prófin litli bró.

Hér er alltaf eitthvað að gerast. Undanfarið hafa staðið yfir umfangsmiklar viðgerðir á húsi Framsóknarflokksins hér á staðnum en eins og kunnugir þekkja til þá lenti áðurnefnt hús í árekstri við japanskan jeppa fyrr í vetur. Ekki ku hafa sést mikið á jeppanum en semsagt, nú er búið að endurnýja mest af suður- og austurhlið hússins. Illar tungur herma mér að þarna hafi verið samankomnir flestir ef ekki allir fylgismenn Flokksins. Ekki veit ég hvað til er í því, ég taldi að minnsta kosti átta hausa. Það verður að segjast eins og er að fylgi Framsóknar hér í Grúnó hrundi til muna þegar litli bró og eiginkona gerðust Baunar. Nóg um það.

   Gríðarmiklar gatnaviðgerðir hafa verið í gangi, sosum kominn tími til, og nú er Hamrahlíðin orðin að "Broadway" og það svo rækilega að ytri röðin af trjáplöntunum mínum hvílir nú rætur sínar undir malbiki. Eins gott ég var ekki búinn að girða. En svo maður líti nú á ljósu hliðina ( það er jú alltaf hægt að finna ljósa hlið á öllu ) þá þarf ég ekki að hreinsa arfa meir.

   Góð vinkona mín til margra ára kvaddi í morgun. Hún var búin að þjást af MND sjúkdómnum árum saman. Ég sendi fjölskyldunni samúðarkveðjur. Guð blessi minningu hennar.

   Þar til næst.

 


Ferðafólk, vorvinna og Júróvisjón!

Litli bró minnti mig á bloggið, heimtar fréttir héðan, fj.... hvað tíminn líður. Fréttir??? Jú fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins kom hér árla föstudagsmorgun að vísu með smá viðkomu í Rvk. Að sjálfsögðu var tekið vel á móti fólkinu eins og alltaf. Annars er nokkuð síðan fyrstu ferðamennirnir skutu upp kollinum hér og fengu á sig hressandi norðaustan átt.

Ég tók mig til í gærmorgun, bretti upp ermarnar og fór að lakka útihurðina hjá mér, fæ svona fjörkippi á vorin og það var eins og við manninn mælt, þegar ég var að ljúka framkvæmdum fór að rigna og þegar rignir hér, þá rignir! Hnuss! Ég ætti kannski að tékka á veðurspánni næst.Og til að kóróna allt þá bættust úrslitin í Júróv. ofan á . Hnuss hnuss! Atkvæðagreiðslan var eins og fyrri daginn eftir bókinni en þó mér fyndist Rússinn vel að sigrinum kominn þá hefði Ísland mátt lenda aðeins ofar. Bara aðeins ofar plís.

Er að fara í heljarmiklar girðingaframkvæmdir svo sauðfénaðurinn ( sá tvífætti ) vaði ekki yfir trjáplönturnar mínar sem ég gróðursetti af miklum myndarskap í fyrra, þ.e. þær fáu sem enn tóra og ég vil ekki heyra orð um græna putta, veit ekki hvað það er.

Annars er allt komið í góðan gír hér fyrir westan, byggingarframkvæmdir á fullu sumarvinnan hjá unglingunum að byrja og grænu svæðin orðin jah, græn, nema þar sem gleymdist að setja mold undir þökurnar í fyrra en það er alltaf hægt að ráða bót á því.

Þar til næst.


Vorkoman o.fl.

Sumardagurinn fyrsti kom - og fór. Við notuðu tækifærið þrír bræðurnir ásamt fjölskyldum og hittumst á ættaróðalinu ( 75% mæting ), litli bró var löglega afsakaður þar sem hann skrapp ásamt fjölskyldunni til Baunalands sl. sumar, kemur heim eftir fjögur ár. Flott hjá unglingunum. Þarna dunduðum við í glampandi sól og nístandi norðaustanátt við eitt og annað á meðan litli prinsinn ( kötturinn hennar mömmu ) kynnti sér ástand og aðstæður smáfuglanna. Ættaróðalið er bújörð sem pabbi sáli lét eftir sig og er um fimmtán mín. akstur frá Grundarfirði, semsagt tilvalið að skreppa í sveitina til að "afstressa " sig.

Undarlegt þetta með bæjarnöfn. Ég bjó sem barn í Grafarnesi, nokkur ár í Eyrarsveit, svo var flutt inn í Grundarfjörð og nú bý ég í Grundarfjarðarbæ. Botnar nokkur í þessu? Ekki ég.

Já, tala um að skreppa. Ég er kominn með óstjórnlegan fiðring og bókstaflega klæjar í iljarnar að fara á smá flakk, hef sjaldnast geta setð kyrr hvað þá ílengst en ég er bara svo lengi að koma mér heim aftur. Síðast þegar ég skrapp-í þriggja mán.sumarstarf var ég ellefu ár á leið til baka.

Þá fékk ég bágt fyrir hjá fjölskyldunni.

Kannski ég bíði fram á haust. Þá lækkar líka fargjaldið.

Það er fleira dýrt en eggin Steini minn.

Þar til næst.

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband