Nú skín í tannlausan góm breska ljónsins....

....svo ekki sé minnst á "Flatlendinga."

Það má með sanni segja að skjótt skipast veður í lofti. Nú, allt í einu, grassera samstarfsviljinn og samningalipurðin fjöllum ofar. Undarlegur viðsnúningur og þá sérstaklega í ljósi þess að á sínum tíma vorum vér Íslendingar settir undir sama hatt og hryðjuverkamenn. Ég hef velt þessari stefnubreytingu fyrir mér en satt best að segja þá eru þessi umskipti ofvaxin mínum skilningi.

Nema kannski væntanlegar kosningar þ. 6.mars kunni að hafa áhrif.

Þó ég hafi sjaldnast eða aldrei verið sammála Dabba kallinum Oddssyni þá get ég ekki annað en tekið undir orð hans er hann sagði: Við borgum ekki skuldir óreiðumanna.!!!

Þá varð allt vitlaust.

Nú vilja Bretar finna "uppbyggilega lausn" á Icesave deilunni. Ég hef mína lausn, góða lausn, á þeim málum. Í stað þess að leggja skuldaklafann á þreyttar herðar hins íslenska skattborgara legg ég til að gengið verði að fyrrverandi eigendum Landsbankans og þeir látnir borga brúsann. Það virðast samt vera ljón í veginum. Ekki bara sinnuleysi og sofandaháttur stjórnvalda heldur líka sú rótgróna spilling sem hér hefur tröllriðið húsum allt of lengi og verður ekki rifin upp með rótum frekar en njólinn í garðinum hjá mér.

Á sama tíma og íslenskur almúginn er að missa allt er kúlulánþeginn Finnur Sveinbjörnsson, í styrkleika embættis síns, að hygla mönnum sem hafa réttarstöðu grunaðra á kostnað okkar, á þeim forsendum að ekki megi ganga fram hjá reynslu þeirra í rekstri fyrirtækja. Teldist Ísland til siðmenntaðra landa væri búið að: a) reka Finn b) draga hann fyrir dóm, og c) best að þegja núna.

Spillingin og viðbjóðurinn grasserar áfram, aldrei sem fyrr, og nú er Bjöggi yngri að fjárfesta á Suðurnesjum. Hvar ætli honum hafi tekist að ljúga út lán?

Það sem mér blöskrar þó mest eru tilsvör ráðamanna þegar innt er eftir hinu og þessu varðandi  áframhaldandi fjármálabrölt "útrásarvíkinganna" en slíkt vesaldarbull er ekki hafandi eftir.

Sagan hermir oss að meginástæða landflótta "víkinganna" frá Noregi á sínum tíma hafi verið eðlislæg andúð þeirra á að borga skatta og það til kóngs sem ekki var "þeirra maður." Snemma beygðist krókurinn. Enn leifir þó af fornum siðum. Í dag hafa "útrásarvíkingarnir" flestir flúið land og sitja í skattaskjólum erlendis og gefa okkur langt nef á meðan við undirmálsfólkið fáum reikninginn fyrir Baugspartíi í Monaco og gullát.

Í onálag á að fresta birtingu rannsóknarnefndar Alþingis, einu sinni enn. Það kemur að því að upp úr sýður og þá verður "búsáhaldabyltingin" ,til samanburðar ,eins og vögguvísa. Það raunhæfa er að birta fj...... skýrsluna strax og leyfa svo andmælendum að koma sínu á framfæri þegar þeir telja sig tilbúna.

Ég vona að ég eigi ekki eftir að sjá grátkór rannsóknarnefndar koma einu sinni enn fram í fjölmiðlum og barma sér, á sama tíma og þjóðin sannfærist enn frekar að nú sé verið að draga okkur á asnaeyrunum rétt einu sinni enn.

Ég reyni að vera bjartsýnn, þó það sé stundum erfitt, en ég vil fara að sjá aðgerðir sem mark er takandi á og með þessum orðum kveð ég ykkur að sinni og þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Vilja finna uppbyggilega lausn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Hressilega mælt, félagi.

Þó flestir geti tekið undir orð DO, þá var hann í þeirri stöðu að "rukka" fyrir bankana, og sjá til þess að alvöru peningar voru greiddir, en ekki einhver undirheima taktík, sem alltaf felst í að "fá allt fyrir ekki neitt"!

Jenný Stefanía Jensdóttir, 20.2.2010 kl. 03:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband