Morgunhugsanir og margar ansi neikvæðar.

Þetta er eitt það jákvæðasta sem fram hefur komið frá stjórnarliða. "Að fara fram á lengingu fyrningar á fjármálagjörningum í líkingu við þá sem margir eignamenn gripu til í kringum hrunið. Það þýðir að stjórnvöld hafa lengri tíma til ógilda þá." En það er misjafn sauður í mörgu fé og þó Helgi Hjörvar hyggist koma með þetta frábæra frumvarp þá er allsendis óvíst að það komist í gegn. Því miður.

Hér er ansi góð klausa, svo ég stelist í Vísi einu sinni enn.

"Fjölmargir eignamenn færðu húseignir sínar, bíla og aðrar eignir yfir á eiginkonur sínar og aðra fjölskyldumeðlimi eftir bankahrunið. Með því reyndu þeir að tryggja að lánadrottnar gætu ekki gengið að eigum þeirra."

Það er kominn tíminn á að þessir "eignamenn"sem margir hverjir sporta í dag og lifa í allsnægtum fái að kynnast hungurssvipunni.

Í stað tveggja ára fyrningarfrests kemur Helgi Hjörvar með þá tillögu að slíkur frestur verði lengdur um helming, þ.e. fjögur ár. Nú reynir á samstöðuna innan stjórnarliða sem vonandi druslast til að standa saman, þó svo væri bara í þetta eina skipti.

Ég rak augun í smá grein um "útrásarvíkinginn" Magnús Þorsteinsson, þið vitið, þennan sem stakk af til Rússlands og hélt sig vera sloppinn frá gjaldföllnum skuldum hérlendis eins og ógreiddum sköttum, stöðumælasektum, Morgunblaðsáskriftinni og náttúrlega þessari fáránlegu Rúv. áskrift sem ég myndi líka stinga af frá ef ég ætti fyrir farseðli þó ekki væri lengra en til Færeyja.

En Maggi kallinn Þorsteins virðist vera í slæmum málum því nú er garmurinn rukkaður um tæpar átta hundruð milljónir í skatt.

Hugsið ykkur. Það er allsendis óvíst að drengurinn eigi krónu upp í þessa skuld, hann var lýstur gjaldþrota hér á landi og óvíst að hann eigi nokkrar eignir í Rússlandi sem hægt yrði að ganga að, sem leiðir hugann að því hvuddnin í fj....... hann fer að því að draga lífið fram þar fyrir austan. Þó Rússar hafi alltaf talist gestrisin þjóð þá láta þeir ekki valta yfir sig.

Jamm, þær eru margar hugsanirnar sem leita á mig nú árla morguns og sosum ekki allar jákvæðar. Það þarf eitthvað mikið að gerast áður en ég fer að treysta og trúa á það lið sem ku ætla að leiða okkur úr þeim ógöngum sem fámennur hópur manna leiddi okkur í.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband