Einn bláeygur sakleysinginn enn.

Eftir að hafa horft á Kastljósið þar sem Valgerður Sverrisd. fór á kostum í öllum sínum útskýringum er ég kominn á þá skoðun að landinu hafi verið stjórnað af gjörsamlega vanhæfu fólki, svo ekki sé nú sterkara til orða tekið.

Nú má ekki skilja svo að ég ætlist til að háttvirt fyrrverandi, já og núverandi stjórnarlið skarti háskólagráðu en smá skynsemi gæti komið sér vel.

Ég uppgötvaði nýja hlið á samlöndum mínum eftir að hafa legið yfir "Skýrslunni". Tæplega 150 manns sem teknir voru á teppið af rannsóknarnefnd Alþingis voru í því að firra sig ábyrgð og benda á hvern annan. Ekki nóg með það, dagblöðin virðast hafa tekið upp svipaðan stíl ef horft er á útfærslur þeirra á því sem fram er komið, en þar er túlkunin greinilega í anda eigendanna.

Ég sem alltaf hef óskað þess að við gætum nú verið eins og dýrin í skóginum en við höfum greinilega ekki öðlast þann þroska enn.

Nú blasir reyndar við okkur stórt vandamál. Mjög svo stórt.

Eins og alþjóð veit þá eru húsnæðismál hins opinbera í megnum ólestri. Þar á ég að sjálfsögðu við fangelsismálin því þegar hvítflibbakrimmarnir verða tíndir upp, einn af öðrum, þá er úr vöndu að ráða.

Ég tel mig hafa ágætis lausn á því máli. Hef reyndar viðrað þá hugmynd hér áður.

Einfaldlega að skella mannskapnum í byggingarvinnu sem myndi gera öllum gott, þið vitið, útivistin og hreyfingin er öllum holl, velsældarspikið myndi hverfa og svo vita jú allir sem reynt hafa á eigin skinni hversu afkastahvetjandi það er þegar fólk er að koma sér upp þaki yfir höfuðið.

Svo ég slái nú botninn í þetta með einhverju jákvæðu því það gerist líka þá var ég að setja inn nýjar myndir af erfingjanum (þó svo þeir sem til þekkja viti mætavel að það verður fjandakornið ekkert að erfa þegar þar að kemur-en það er önnur saga).

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband