15.7.2010 | 03:53
Að tala tungum tveim.
Margt misjafnt hefur dunið á hlustum okkar undanfarna daga og þá ekki eingöngu "Magma offorsið" sem útkeyrð og dauðuppgefin þjóðin hefði að öllum líkindum látið fara fram hjá sér hefði ekki verið fyrir útsjónarsemi tveggja bloggara sem vöktu athygli landans á því að einhversstaðar væri óhreint mjöl í pokahorninu.
Þá vöknuðu ráðamenn þjóðarinnar af Þyrnirósarsvefninum með þvílíkum látum að helst minnti á havaríið í hænsnakofanum þegar rebbi kallinn var að sækja sér í kvöldmatinn.
Þó hverfa þessar fréttir í skuggann af þeim válegu tíðindum sem oss berast úr Bretaveldi en þar er verið að taka Jón nokkurn Ásgeir Jóhannesson á beinið . Varla að ástæðu lausu. Ljótt er að ljúga en helmingi verra ku vera að ljúga að Englending. Í gegnum árhundruðin hafa enskir löggæslumenn verið þekktir fyrir árvekni og vandvirkni í sínu starfi og mætti þar nefna Scotland Yard, S.F.O. (Serious Fraud Office) og að ógleymdum þeim sem toppa allt, þ. e. Sherlock Holmes og Miss Marple.
Nú er Jón garmurinn Ásgeir semsagt í vondum málum.
Flogið hefur fyrir hugtakið "Sambúðarheyrnarleysi" sem ku hrjá fólk, sérstaklega eftir silfurbrúðkaupsdaginn, samanber fréttir frá Dönum þar sem fjallað er um aukna tíðni hjónaskilnaða þegar nýjabrumið er farið af.
Nú hefur skotið upp kollinum annað hugtak sem kallast "Sambúðargleymska." Illar tungur vilja heimfæra slíkt upp á Jón Ásgeir og frú og þá vitnað t. d. í Róllsinn, þið vitið, þennan á 17 millurnar, sem höfðinginn gaf konunni sinni í afmælisgjöf ( fallega gert ) en hann gleymdi nafnaskiptunum.
Fleiri dæmi má nefna eins og Hótel 101 sem fyrir "gleymsku " er óvart á nafninu hans líka, rétt eins og lúxusíbúðirnar við Gramercy Park þar sem hann hefur "gleymt" eignaraðild sinni, utan þess eina skylduprósents sem hann þarf að eiga ef makinn skyldi falla frá.
Franski skíðaskálinn, tvö íbúðarhús frúarinnar í Rvk. sem veðsett eru í botn (eins og hótelið).
Allsstaðar blasir sambúðargleymskan við okkur.
Við íslenskir Samverjar verðum nú að taka okkur saman og, ef svo illa vildi til að gyðja réttvísinnar snéri nú blinda auganu að þeim, hjálpa þeim í gegnum erfiðleikana t.d. benda þeim á súpueldhúsið á 19. hæð í Kópavogsturninum svo var líka verið að opna mötuneyti í Stýrimannaskólanum nú og svo má líka benda á samskotabauka hist og her.
Hér, í íslenska velferðarþjóðfélaginu skal enginn svelta.
Eða hvað?
Að þessum leiðbeinandi hugleiðingum mínum loknum býð ég ykkur góða nótt og þar til næst.
Athugasemdir
Þetta er gott og hressandi blogg í morgunsárið.
Kv., KPG.
Kristján P. Gudmundsson, 15.7.2010 kl. 08:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.