Áfram dunar dansinn.

Oft á tíðum velti ég fyrir mér hver staða okkar Íslendinga væri í dag, hefðum við kunnað okkur hóf í peningamálum í stað þess að detta í þvílíkt fjármálafyllerí að þynnkan kemur til með að vara næstu kynslóðir.

Góðu fréttir dagsins eru hinsvegar þær að nú hefur Seðlabankinn lækkað stýrivexti um eitt prósent sem svo sannarlega er spor í rétta átt hvað svo sem gagnrýniskórinn kyrjar og ber okkur saman við þjóðir þar sem stýrivextir eru eitt til tvö prósent en gleymir að geta þess að stýrivextir hérlendis hafa ekki verið lægri í sex ár og , virðist hafa gleymt því að hér ríkir bullandi kreppa sem reyndar bitnar mest á þeim sem minnst mega sín.

Það er nú bara íslenska hefðin.

Nú stefnir í verkföll á verkföll ofan því langþreyttir hlutaðeigandi vilja fá leiðréttingu kjara sinna sem engan skyldi undra en þar mætast stálin stinn. Það eru ekki til aurar.

Aurarnir virðast samt sem áður vera til þegar upplýsingar um ofurlaun hinna og þessara forstjóra birtast oss óbreyttum í fréttum.

Nýráðinn forstjóri Orkuveitu Rvk. fær litlar tólf hundruð þúsund í mánaðarlaun. Mér finnst þessi upphæð gjörsamlega út úr kortinu í ljósi þess að tæknilega séð er OR gjaldþrota fyrirtæki.

Undarleg finnst mér líka sú ákvörðun stjórnarformanns OR að skipta út forstjóra s.l. sjö ára fyrir mann sem samkv. fréttum ku vera ráðinn til skamms tíma og það þegar fyrirtækið þarf á styrkri stjórn að halda. Læðist að mér sá ljóti grunur að hér sé einhver að hygla einhverjum.

Nú er Íslandsbanki búinn að ráða til sín fyrrverandi forstjóra gjaldþrota fyrirtækis, eftir afskriftir upp á tæpan milljarð og allt í fínu með það því "gjaldþrotið gerðist ekki á vakt viðkomandi."

Ég er hinsvegar gjörsamlega búinn að afskrifa möguleikann á afskrift þessarar einu og hálfu millu sem hvílir á kofakrílinu mínu og reyndar hefur hækkað umtalsvert því það eru jú vextir og verðtrygging og svo framvegis og stundum reyndar dráttarvextir. Nóg um það.

Nú er Siggi kallinn Einarsson kominn heim í heiðardalinn og kominn tími til en ég velti fyrir mér hver ástæðan sé fyrir þessum sinnaskiptum.

Skyld'ann vera kominn heim til að fylgjast með framkvæmdum við sumarhúsið á Veiðilæk?

Sem, ef allt fer að mínum óskum, verður innréttað sem "hvítflibba tugthús."

Skyld'ann virkilega vera kominn heim til að svara til saka?

Mér finnst eitthvað bogið við að maður sem hefur þumbast við síðan í maí s.l. skuli allt í einu umpólast svo algjörlega, því samkvæmt upplýsingum frá sérstökum saksóknara er enginn sérsamningur við Sigurð.

Tíminn einn leiðir í ljós hvað eiginlega er í gangi og með þessum orðum kveð ég að sinni og þar til næst.

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband