Góðir hlutir gætu gerst.

Nú er okkur tjáð að lækka skuli vörugjald á ákveðnar tegundir ávaxtaþykknis og það er af hinu góða. Í framhaldi af því fyndist mér ofur eðlilegt að verslunareigendur, sem í dag bjóða ungunum okkar 50% laugardagsafslátt af sælgæti og stuðla þar með að auknum tannskemmdum svo ekki sé minnst á grenjið og gólið sem oft vill fylgja ef vesalings foreldrinu verður á að segja nei við krílið sitt, sæju sóma sinn í að færa afsláttinn yfir á ávexti og grænmeti.

Gæti líka sparað foreldrum andvökunætur þegar þeir kumpánar Karíus og Baktus fara að herja á viðkvæman tannglerung barnanna.

Nú er verið að "íhuga" (takið eftir orðinu) skatt á fjármálaþjónustu hérlendis og þá horft á útfærslu Breta í þeim málum.

Hugmyndin sem slík er góðra gjalda verð en gæti reynst illframkvæmanleg.

Í fyrsta lagi er löngu tímabært að herða þumalskrúfurnar á fyrrverandi stjórnendum og eigendum fjármálastofnana, sem í dag keppast við að lýsa yfir sakleysi sínu fyrir dómstólum erlendis á reiprennandi íslensku því enskukunnáttan er jú löngu fokin út í veður og vind.

Einhverjir ku vera orðnir auralitlir og verða að láta sér nægja að sulla í sig diet coke og Coop tekexi.

Stjörnulögfræðingar kosta jú sitt.

Þar sem biðlisti væntanlegra gesta hins opinbera lengist jafnt og þétt, þrátt fyrir útboð fimmtíu rúma (einkaherbergja?) öryggisfangelsis vil ég enn og aftur viðra hugmynd mína um gapastokka og gaddavírssvipur á Lækjartorgi.

Í öðru og mun alvarlegra lagi má búast við, samkvæmt íslenskri hefð, að áðurnefndum skatti yrði velt yfir á löngu sligaðar axlir skattgreiðenda þessa lands, þ. e. aldraðra, öryrkja og óbreyttra launþega.

Þau eru mörg ljónin í veginum og með þeim orðum kveð ég ykkur og þar til næst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband