5.10.2010 | 23:08
Á hvaða forsendum?
Rökin sem stjórnendur Íslandsbanka færa fyrir því að neita að afhenda eftirlitsnefnd um sértæka skuldaaðlögun þær upplýsingar sem farið var fram á lýsa þvílíkum hroka og mannfyrirlitningu að ég fæ ekki orða bundist.
Halda fj...... apakettirnir sig vera hafna yfir lög og rétt?
Er verið að fela eitthvað?
Hvar er gagnsæið?
Er fjármálakerfið farið að stjórna landinu?
Það er bölvuð ólykt af þessu öllu. Löngu tímabært að svipta svona fyrirtæki starfsleyfi og mætti þá kanna, svona í leiðinni, hvað yfirmennirnir hafa skammtað sér í laun. Það er örugglega ögn meira en það sem þeir ólánssömu íbúar þessa lands verða að láta sér nægja og geta ekki einu sinni flúið landið, annahvort vegna örorku eða aldurs.
Hvað með erlent lán Birnu bankastjóra? Var samið um afborganir eða var lánið afskrifað?
Á sama tíma og það vesalings hrekklausa og auðtrúa fólk sem lét ginnast af gylliboðum bankanna er borið út á götuna þá hala bankarnir inn upphæðir sem að sjálfsögðu falla í kramið hjá núverandi stjórn landsins, þ. e. AGS, og fyrrverandi eigendur og stjórnendur gömlu bankanna rokka feitt í útlöndum og dafna eins og púkinn á fjósbitanum hjá Sæmundi fróða.
Nú er kominn tími á tiltekt.
Mér blöskrar þegar ég heyri hjáróma jarm bankastjóranna í dag þar sem þeir fara mikinn og tala um batnandi stöðu bankanna, en á kostnað hvers?
Yfirveðsettar íbúðir eru hrifsaðar af fólkinu sem hefur það eitt til saka unnið að hafa látið ginnast af fölskum loforðum bankastarfsmanna, og verður að láta sér nægja stofugólfið hjá vinafólkinu, þ. e. þeim sem enn eiga þak yfir höfuðið, eða tjaldstæði í Laugardalnum.
Það er löngu nóg komið.
Það kom berlega í ljós við setningu Alþingis að "búsáhaldabyltingin" var eingöngu smekkur af því sem koma skal. Núverandi ríkisstjórn er búin að gera upp á axlir enda engin furða því forgangsröðunin sneri sig um að eyða tíma og ómældu fjármagni í að troða okkur inn í ESB og svo kom stjórnlagaþingið sem er einn skrípaleikurinn ofan á annan.
Kallast þetta ekki að kasta krónunni fyrir aurinn?
Áfram siglir ríkisstjórnin fyrir fullum seglum en nú án lóðsins og treystir á Guð og lukkuna og vonar að ekki steyti á skeri.
Ég er búinn að fá upp í kok!
Þar til næst.
Neitaði eftirlitsnefnd um upplýsingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.