Að kosningum loknum.

Ég óska nýkjörnum stjórnlagaþingmönnum til hamingju og hef trú á að þeir skili því mikla starfi, sem þeirra bíður, með sóma.

Þetta er að mínu mati góður og sannfærandi þverskurður af þjóðinni. Ég hefði reyndar kosið að sjá fleiri héðan af landsbyggðinni en kannski hefur kosningaþátttakan haft sín áhrif.

Nú vona ég að háttvirtir alþingismenn okkar sjái sóma sinn í að leggja þær breytingar sem fram eiga eftir að koma frá stjórnlagaþinginu óbreyttar í dóm þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu.

Það er ekki bætandi á ólguna í þjóðfélaginu.

Það er þetta litla og sakleysislega orð "ráðgefandi" sem vonandi hefur villst inn af vankunnáttu og aulahætti þó svo orð eins og  sjálfhygli og flokkadrættir hafi flogið fyrir.

Kjördæmapot og sjálftökur eiga að heyra fortíðinni til. Því miður sjáum við dæmin um slíkt allt að því daglega  þegar verið er að hygla vinum og vandamönnum með góðum stöðum hjá hinu opinbera og að sjálfsögðu á kostnað hins almenna borgara þessa lands. Svo koma réttlætingar og rökfærslur sem oftar en ekki eru viðkomandi til háborinnar skammar.

Að ógleymdu fj...... bruðlinu í utanríkisþjónustunni á sama tíma og allt er í upplausn hér heima fyrir.

Ef einhver glóra væri í forgangsröðun núverandi ríkisstjórnar færu börnin okkar södd til sængur.

Ég bind vonir mínar og væntingar við stjórnlagaþingið. Annars er bara að treysta á innbyrðis deilurnar hjá ráðamönnum og efna til alþingiskosninga.

Frændur okkar Færeyingar létu ekki í ljós óánægju sína, snemma á síðasta áratug, með bumbuslætti en að alþingiskosningum loknum ´94 kom í ljós að helmingur þingmanna var úti og inn kom ungt og dugandi fólk sem fylgdi sannfæringu sinni og hugsjón.

Ég efast ekki um að slíkt fólk sé sitjandi á alþingi okkar en forystusauðirnir leiða hjörðina.

Með þessum hugleiðingum mínum kveð ég og þar til næst.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband