6.1.2011 | 19:57
Frábært framtak...
Góðir hlutir gerast reyndar en alltof sjaldan.
Björk og Ómar fóru á kostum og þó svo ég hefði ekki tækifæri til að mæta þá fylgdist ég þeim mun betur með útvarpinu. Er búinn að leggja mitt af mörkum með því að skrá mig á "audlindir.is" og vona að sem flestir geri það.
Þegar ég lít yfir fréttir dagsins þá kemur eitt og annað fróðlegt í ljós.
Hæst ber á góma frétt Rúv. um síðastu fundargerð lánanefndar Landsbankans frá 8. október 2008, þ. e. daginn eftir að bankinn var tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu. Sigurjón Þ. Árnason, Halldór K. Lárusson og Elín Sigfúsdóttir höfðu þá komið saman og ráðstafað lánum upp á 117 milljarða króna.
Áðurnefnd Elín Sigf.. var í framhaldi af því ráðin bankastjóri hins "Nýja Landsbanka."
Það er að bera í bakkafullan lækinn að eyða tíma í skrif um spillingu, sem hefur reyndar fylgt okkur allt frá þeirri stundu að forfeður okkar yfirgáfu Noreg í þeim tilgangi að losna við skattgreiðslur til kóngs sem ekki var þeim að skapi.
Þessi andúð á eðlilegu framlagi í þjóðarbúið loðir við okkur enn því nú flytur fólk í hrönnum til Lúxemborgar sem reyndar er skammgóður vermir því innan tíðar berast okkur plögg þau er varða Kaupþing, með upplýsingum sem eflaust eiga eftir að koma einhverjum til að svitna.
Einhver ku hafa forðað sér til Madrid, sem enn mun vera nokkurs konar skattaskjól, gegn gjaldi þó.
Var ekki annars búið að frysta eigur "útrásarvíkinganna" eða á að gefa þeim tækifæri að fela síðustu aurana?
Svo koma þessar hefðbundnu (óstaðfestu) fréttir um bruðl hér og bruðl þar eins og t. d. þegar FL Group splæsti sex komma tveim milljörðum á starfsmenn og (eigin) konur þeirra, flugferðir, glæsibíla,dagpeninga sem minnir mig á skerðingu sjómannaafsláttar þó svo stjórnvöld þegi þunnu hljóði um þá átta milljarða sem fara í dagpeninga til þeirra rétttrúuðu, en samkvæmt venjunni þá er þagað og það nógu lengi í þeirri von að slíkt gleymist.
Sem er misskilningur. Við gleymum ekki, þó svo ég viti að það er tilgangslaust að reyna að halda slíkum umræðum opnum því þegar allt kemur til alls þá gleymast kosningaloforðin þegar menn telja sig hafa tryggt sér mjúkan stól.
Sem er reyndar annar misskilningur.
Það er enginn æviráðinn til starfa á hinu háa Alþingi og ef fram heldur sem horfir þá má alveg eins búast við tjöru og fiðri þegar upp úr sýður.
Slík er ólgan orðin í samfélaginu, sem öllum er kunnugt.
Nema kannski ráðamönnum þjóðarinnar.
Nóg komið að sinni því nú ætla ég að snúa mér að eldamennskunni og elda uppáhaldsmat okkar kisu litlu þ. e. soðna ýsu með hamsatólg (fyrir mig) bráðið smér fyrir hana. Enda er litla daman komin í dágóð hold. Sumir halda því fram að kettir séu falskir og elski bara þann sem slettir mat í ílátin þeirra. Þeir sem hafa upplifað "lítið" kattarskinn sem kúrir sig í hálsmálið á manni þegar lagst er á koddann vita betur.
Margir ráðamanna okkar gætu lært eitt og annað af dýrunum.
Þar til næst.
Dúettar í karókí | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Björk og Ómar fóru á kostum -ég var að horfa áþau í Sjónvarpinu og það er rétt hjá þér.....þetta prógram er þessum málstað til framdráttar. Og ég er þér hjartanlega sammála.....auðlindir okkar eiga að vera okkar (almennings) eign.
Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 6.1.2011 kl. 20:24
Tek undir þetta, fæ gæsahúð af gleði og fögnuði yfir þessu frábæra framtaki.
Áfram "orkuauðlindir í eigu þjóðar"
Jenný Stefanía Jensdóttir, 6.1.2011 kl. 20:46
Ég er í mörgu sammála þér, sérlega það sem ketti snertir. Ég tek það fram vegna þess að ég er ekki í gír til þess að æsa mig að öllu því sem kemur að fjármálunum hér á landi í dag. En Björk á hrós skilið fyrir þetta framtak. Vonandi skrifa nú sem flestir undir þennan lista.
Úrsúla Jünemann, 7.1.2011 kl. 17:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.