Vonandi fer þessu að ljúka.

Jafn illa og mér, ásamt öllum öðrum, er við að borga skuldir óreiðumanna þá er ég kominn á þá skoðun að best sé að samþykkja Icesave III og koma málinu frá.   

Með smá breytingum þó.

Málið er búið að hvíla á okkur eins og mara og hefur meðal annars haft í för með sér frystingu á þeim lúsarlífeyri sem okkur öryrkjum er skammtaður.

Smá glæta er þó í svartnættinu en það er að takist að reyta einhverja aura af þeim óráðsíumönnum sem komu okkur í þessar hörmungar.

Aurarnir eru til. Það segir sig sjálft. Menn sem hafa efni á stjörnulögfræðingum hljóta að eiga peninga. Hvar svo sem í fjandanum þeir eru faldir.

Síðustu tvo sólarhringa hef ég lesið sóðastafrófið allt frá A til Ö hvað varðar störf sérstaks saksóknara og rekist á orð sem: skrípaleik, sjónarspil, vinsældabetl og sv. frv.

Slík skrif lýsa best andlegu ójafnvægi viðkomandi skríbenta og óþarfi að hafa fleiri orð um það.

Ég hef trú á störfum "Sérstaks" og þó svo okkur lengi eftir niðurstöðum þá efast ég ekki um að þar er vel að störfum unnið.

Mér eru minnisstæð orð Evu Joly er hún sagði að búast mætti við málaferlum upp á 4 til 5 ár.

Mér er líka minnisstæð sú unaðstilfinning sem ég upplifði þegar hún rassskellti íslensku ríkisstjórnina í beinni útsendingu í Kastljósi, á sínum tíma.

Þá fyrst komst skriður á málin.

En nú að hinu jákvæða því það gerist líka og þetta er nokkuð sem snertir sjálfan mig.

Eins og alþjóð veit þá hefur niðurskurðarhnífurinn verið á fullu undanfarið og meðal annars er búið að leggja niður "Svæðisskrifstofu Vesturlands," sem var mér eins og haldreipi þegar eitthvað bjátaði á. Ég sótti um námsstyrk s.l. haust en vegna breytinga og tilheyrandi vafsturs þá dróst afgreiðsla málsins á langinn. Ég tek fram að ég er ekki bara öryrki heldur líka fátækur háskólanemi. Í stuttu máli þá hringdi ég í "Fjársýslu ríkisins" í gær og bar upp mál mitt.

Þrátt fyrir miklar annir þá var búið að afgreiða málið þegar ég fór inn á netbankann í morgun. Ég tek ofan fyrir þessu sómafólki og þakka þeim hjartanlega fyrir skjóta og góða úrlausn.

Góðir hlutir gerast líka þó við komum kannski ekki alltaf auga á slíkt.

Nú er ég kominn á fulla ferð í "Ensku II" og þó svo verkefnið virðist allt að því óviðráðanlegt þá veit ég að mér tekst það.

Þar til næst.                      

 

 


mbl.is Reikna með samþykkt Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þú ert semsagt kominn með Svavars heilkennið? Nennir ekki að hafa þetta hangandi yfir þér. Orðinn leiður á fréttunum og umræðunni.

Spurning hversu þrillið stendur lengi að borga þetta fyrir þig. Hvenær yrðirðu leiður á því?

Við eigum ekki að borga þetta. Við eigum ekki fyrir þessu og punktur. Ef menn vilja sæka þetta fyrir dómi, þá verði þeim af því. Verði það gert og við dæmd til að greiða eitthvað af þessu, þá er það allavega huggun harmi í að þá getum við greitt þetta í krónum í staðinn fyrir að gera það í beinhörðum gjaldeyri, sem við eigum ekki til.

Ég botna ekkert í svona málflutningi. Ert þú einn af þeim sem telur að ef nágranni þinn henti reikningunum sínum inn um lúguna hjá þér og heimtaði að þú borgaðir þá að þú teldir þig hafa grætt helling ef hann felst á að þú borgir bara annan hvern? 

Jón Steinar Ragnarsson, 14.1.2011 kl. 19:58

2 Smámynd: Þráinn Jökull Elísson

Jón Steinar. Lestu færsluna mína betur. Ég er þeirrar skoðunar að peningar "útrásarvíkinganna" finnist og þá sleppum við, hvort sem við fáum reikning upp á 20 eða 50 milljarða. Bara eignir Jóns Ásgeirs sem hafa fengist kyrrsettar slaga hátt upp í þetta. Svo koma allir hinir. Ég held þessu blákalt fram vegna þess að ég trúi að réttvísi sé til. Sama hvað á undan hefur gengið. Ég viðurkenni fúslega að stundum verð ég óþolinmóður. Mig lengir eftir árangri en ég geri mér fulla grein fyrir því að verði flanað út í óvissuna þá klúðrast málin.

PS. Lestu orð Sigurðar G. lögmanns Sigurjóns  o.fl. "grunaðra" þá kannski skilurðu meiningu mína.

Bkv

Þráinn Jökull Elísson, 14.1.2011 kl. 20:37

3 identicon

Heill og sæll; Þráinn Jökull, æfinlega - og aðrir gestir þínir !

Oftlega; erum við Jón Steinar sammála, en aldrei fyrri - sem nú.

Ígrundaðu betur; hans vel rökstuddu málafylgju, Þráinn minn, áður en lengra er haldið.

Með beztu kveðjum; sem jafnan, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 15.1.2011 kl. 02:09

4 Smámynd: Þráinn Jökull Elísson

Lesið bloggið mitt betur og þá sérstaklega aðra málsgrein. Það er ekki spurning, við VERÐUM að borga hvort sem okkur líkar betur eða verr. Spurningin er bara hversu mikið. Upphæðin hefur lækkað talsvert frá því Svavar fór í sína Bjarmalandsför en hún lækkar ekki mikið meir. Ekki má svo gleyma að nú eru að reytast saman eignir fyrrverandi ´"útrásarvíkinga," og núverandi "tugthússlima " sem koma til með að dekka megnið af kostnaðinum. Það má aldrei gleymast. Þegar upp verður staðið komum við til með að standa með pálmann í höndunum, þ. e. við sem erum heiðarleg. Bkv.

Þráinn Jökull Elísson, 15.1.2011 kl. 03:10

5 Smámynd: Þráinn Jökull Elísson

P. S. Það er um að gera að lesa færsluna mína vel og vandlega og alveg í gegn.

Þráinn Jökull Elísson, 15.1.2011 kl. 03:11

6 identicon

Heilir; á ný !

Þráinn Jökull !

Les þú; SÉRSTAKLEGA, nýjustu grein mína, á síðu minni - og svo skaltu reyna að svara okkur Jóni Steinari að nýju, ágæti drengur.

Ekki berja; þínu ágæta höfði við stein, frekar,, Þráinn minn.

Með, ekki lakari kveðjum, em öðrum fyrri /

Óskar Helgi

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 15.1.2011 kl. 03:16

7 Smámynd: Þráinn Jökull Elísson

Sæll aftur Óskar minn Helgi. Búinn að lesa þessi góðu skrif þín en það breytir ekki þeirri skoðun minni að við eigum að koma fjandans Icesave málinu frá. Þegar búið er að yfirtaka eignir "útrásarvíkinganna" og gera upp reikningana þá fyrst, en ekki fyrr, getum við hugað að gagnaðgerðum. Þegar þar að kemur, sem mér segir svo hugur að verði fyrr en seinna, þá höfum við hreinan skjöld gagnvart umheiminum sem við höfum ekki á meðan Icesave sverðið hangir yfir höfðum okkar. Reynið að átta ykkur á meiningu minni. Ég tók það skýrt fram í upphafi bloggfærslunnar að ég er ekki hrifinn af því að borga skuldir óreiðumanna en við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að fyrir tilstilli nokkurra óheiðarlegra manna höfum við glatað trausti umheimsins og traust er nokkuð sem kemur sjálfviskt til baka. Bkv. Óskar minn

Þráinn Jökull Elísson, 15.1.2011 kl. 03:28

8 Smámynd: Þráinn Jökull Elísson

Smá leiðrétting: Síðasta setningin átti að vera: Traust er nokkuð sem kemur ekki sjálfvirkt til baka. Annað hvort er gamla fartölvan að stríða mér nú eða ég kannski orðinn syfjaður. Er reyndar búinn að sitja yfir námsefni í ensku frá því seinni partinn. En það er bara af hinu góða.

Þráinn Jökull Elísson, 15.1.2011 kl. 03:31

9 identicon

Heilir; sem fyrr !

Þráinn minn !

Í Guðanna bænum; hentu frá þér ensku skruddunum - og nem þú frekar; Rússnesku / Grísku og Kínversku, ágæti drengur. Haldbetra; í framtíðinni.

Enn; mótmæli ég þér;; HÁSTÖFUM, fyrir hönd okkar Jóns Steinars - og annarra fjenda Evrópsku nýlenduveldanna.

Bretar og Hollendingar; eiga að rukka ''gamla'' Landsbanka hyskið - EKKI ÍSLENZKA ALÞÝÐU, ágæti drengur.

Punktur !!!

Með sízt lakari kveðjum; en áður /

Óskar Helgi

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 15.1.2011 kl. 03:38

10 Smámynd: Þráinn Jökull Elísson

Óskar, minn góði vinur. Hvað varðar enskuna þá er hún bara lítill hluti af háskólanáminu. Hvað varðar "gamla " Landsbankahyskið þá er ég þér hjartanlega sammála. Vandamálið er bara að, svo ég vitni í þá mætu konu Evu Joly, umheimurinn bíður EKKI í þau fjögur til fimm ár sem málaferlin á hendur þeim gæti tekið. Enn og aftur viðra ég þá skoðun mína að við borgum og ekki seinna en strax. Þegar við höfum öðlast það traust sem við þurfum svo sárlega á að halda þá gerum við upp eignir "útrásarvíkinganna sem koma til með að dekka kostnað ásamt tilheyrandi vöxtum OG ráðumst til atlögu gegn þeim sem við teljum hafa brotið á okkur. Það er ekki flóknara en svo. Bkv.

Þráinn Jökull Elísson, 15.1.2011 kl. 04:23

11 Smámynd: Elle_

Ég botna heldur ekki neitt í málflutningnum í pistlinum um að sættast á fjárkúgun.  Málið snýst ekki um hvað sé ódýrast, ICESAVE er lögleysa.  Við berum ekki nokkra ábyrgð á ICESSAVE og maður semur ekki við kúgara.  Ættir að ígrunda rökin hans Jóns Steinars eins og Óskar Helgi segir. 

Elle_, 15.1.2011 kl. 12:15

12 Smámynd: Elle_

Og fyrir utan það að ICESAVE krafan er fullkomin lögleysa er það rökleysa að það yrði ´ódýrara´að sættast á kröfuna.  Venjulegt fólk mun aldrei sættast á að borga nauðungina og skilja síðan upplogna þrælaskuld eftir fyrir börnin í landinu.   Vill síðuhöfundur leggja nauðungarskuld á börn sín ef hann er faðir og á alla æsku landsins og sem þau yrðu að standa undir í langan tíma?

Elle_, 15.1.2011 kl. 14:27

13 Smámynd: Þráinn Jökull Elísson

Viljið þið taka áhættuna með dómstólaleiðinni?

Enn og aftur ítreka ég: Lesið færsluna mína til enda. Ég tók það skýrt fram að ég er ekki sáttur við að borga skuldir óreiðumanna. Hvaða aðra kosti höfum við?

Ég lét það líka koma fram að þegar upp er staðið þá koma "eignir útrásarvíkinganna" til með að dekka allan kostnaðinn. Það sér hver sæmilega vel gefinn grunnskólakrakki. EN, alheimur bíður ekki eftir niðurstöðum í kannski 4 til 5 ár. Á meðan við höfum Icesave yfir höfðum okkar þá öðlumst við ekki lánstraust. Sem við þurfum sárlega á að halda. Við borgum og það strax. Svo tökum við eignir´"útrásarvíkinganna" upp í skuldina. Er þetta mjög torskilið?

Við erum ekki eitthvert bananalýðveldi sem lætur skuldirnar rúlla á undan sér. Nema þið viljið fara þá leiðina.

Þráinn Jökull Elísson, 15.1.2011 kl. 15:32

14 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Þráinn, málið er ekki svona einfalt. Hagsmunir íslenskra bótaþega eru einmitt þeir að Icesave áþjáninni verði hafnað.

Þú segir að þú sért öryrki og námsmaður. Þínir hagsmunir eru sem sagt að eitthvað sé aflögu í kerfinu til þess að styrkja afkomu þína. Hinum vinnandi höndum, sem halda uppi samfélagskerfinu, er yfirleitt bæði ljúft og skylt að viðhalda þeirri velferð og félagsþjónustu sem þörf er á fyrir þig og aðra sem á þurfa að halda.

En jafnvel hinum vinnandi höndum má ofbjóða. Verði Icesave klafanum til viðbótar skellt á þann framfærsluhóp, sem þó hefur lifað af fjármálahremmingarnar hingað til, má alveg eins búast við því að aðeins örfáir verði eftir til þess að leggja í samfélagspúkkið. Þess munt þú og aðrir í þinni stöðu gjalda, því eitt er víst; útrásarvíkingar munu ekki hlaupa í skarðið!

Kolbrún Hilmars, 15.1.2011 kl. 17:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband