13.4.2011 | 19:39
Sú var tíðin......
...að stjórnmálamenn höfðu hugsjón. Sú hugsjón var ekki fólgin í því að níða niður andstæðinga sína heldur að snúa bökum saman og bera hag Íslands og íslensku þjóðarinnar fyrir brjósti.
Sjálfsagt hefur eitt og annað gengið á, bak við tjöldin, sem á þeim árum kom ekki fyrir sjónir almennings. Það ku hafa loðað við ráðamenn fyrri tíma að þeir beittu áhrifum sínum til að pota vinum og vandamönnum í djúsí störf og þá oftar en ekki á kostnað þeirra sem ekki voru rétttrúaðir.
Þess má reyndar geta að slík vinnubrögð tíðkast enn þann dag í dag, því miður, en sá er þó munurinn að núorðið er erfiðara að fela slíkt.
Ég er rétt í þessu að hlusta á útsendingu frá Alþingi þar sem háttvirtir alþingismenn, sem kosnir voru af þjóðinni til þess að standa vörð um lífskjör okkar, keppast við að níða skóna af hverjum öðrum.
Það er af sem áður var.
Mörg eru mistökin sem núverandi ríkisstjórn hefur gert og má þar nefna ESB bullið og rétt á eftir kom svo "Landsdómskjaftæðið" þar sem ákveðið var að hengja bakara fyrir smið og skella skuldinni á fyrrverandi forsætisráðherra, Geir Haarde, en hlífa sínum. Ég er ekki í vafa um að Geir hefur eitt og annað á samviskunni en hvað með hina sem ríkisstjórnin firrti ábyrgð??
Þrátt fyrir vonbrigði mín með margt sem núverandi ríkisstjórn hefur klúðrað þá hef ég tekið þá ákvörðun að styðja þau áfram. Við megum aldrei gleyma þeirri staðreynd að þau tóku við brunarústum og hafa á mörgum sviðum unnið afrek. En margt er það sem betur hefði mátt fara.
Eftir að hafa hlustað á jójóið Sigmund Davíð og Engeyjarguttann Bjarna Ben í dag þá er ég þess sannfærðari en nokkru sinni fyrr að skásta lausnin sé að núverandi ríkisstjórn sitji áfram því ég get ekki, eftir að hafa fylgst með málflutningi þeirra tveggja síðustu tvö árin, hugsað mér að "Hrunverjar" komist aftur til valda.
Ég hef ekki áhyggjur af Icesave málinu. Við, þjóðin afgreiddum það í síðustu viku. Við vorum ekki að greiða atkvæði á móti því að borga (hrun banka í einkaeign) heldur viljum við fá á hreint hvað okkur beri að borga. Þarna munar í millum.
Ef litið er til baka þá hefur þjóðin unnið sigur í hvert skipti sem við höfum sagt nei. Við borgum það sem okkur ber að borga en ekki krónu meir!
Ég get ekki látið hjá líða að minnast á þá nýjung að í dag er samið um launakjör og önnur kjör við ríkisstjórnina. Áður fyrr sömdu atvinnurekendur við verkalýðsfélögin en nú er sagan önnur.
Ég læt þessar hugleiðingar nægja að sinni og þar til næst.
Athugasemdir
Þú vilt ekki "að hrunverjar komist aftur til valda" ok,, en athugaðu eitt, hrunverjarnir létu bara ekki allir af völdum við stjórnarskipti og sitja enn í ríkisstjórn Íslands.
S (IP-tala skráð) 14.4.2011 kl. 15:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.