21.2.2012 | 04:31
...að höggva mann og annan.
Eitt og annað hefur gengið á undanfarna daga og væri nóg til að gera hvern manninn vitlausan.
Kolgeggjaðan reyndar.
Þar má nefna innanbæjarrugl Kópavogsbæjarstjórnar þar sem enginn virtist vita í hverja áttina vindurinn blés.
Eftir síðustu fréttum að dæma þá eru málin komin í hring. Íhaldið fellt..íhaldið komið til valda aftur.
Þar til vindáttin breytist.
Nú ber efst á baugi dómur Hæstaréttar um vaxtagreiðslur...löglegar/ólöglegar, og sýnist sitt hverjum. Nú er ég ekki talnafróður maður en hafi ég skilið rétt þá er verið að rukka mig um vaxtagreiðslur af láni sem ég lauk við að borga í árslok 2009. Afturreiknað ?? Ég ætla ekki að nefna bílkaupin einu orði. Borgaði drusluna hérumbil á borðið.
Nú að þeirri gleði sem virðist allsráðandi í búðum ríkisstjórnar vorrar þar sem gengið er í því að sannfæra hvert annað að þessi dómur sé akkúrat það sem þau bjuggust við og allt sé bara gúddí gúddí. Þau vissu þetta jú alltaf. Þrátt fyrir lagasetningu 151/2010.
Þær þúsundir manna sem misst hafa húsnæði sitt eru kannski á öðru máli.
Nú komum við að því sem kallast "Íslensk réttvísi".
Nú skal höggva.
Sökudólgurinn er fundinn. Forstjóri FME ber alla sökina. Hvaða sök hann ber hefur reyndar ekki verið borið á borð fyrir okkur óbreytta þegna þessa velferðarsamfélags sem við ku lifa í.
Verið er að grafa upp einhverjar ellefu ára athafnir í þeim tilgangi einum, að því mér virðist, að leggja grunninn að áframhaldandi óþverrabrögðum.
Eins og til dæmis að draga til baka ákæru á hendur Geir Haarde...sem hefur verið skrípaleikurfrá A til Ö, á sama tíma og Samfylkingin ákvað að hlífa sínu eigin fólki. Sem er skammarblettur á íslensku réttarfari.
Það er vitað mál að vitnaleiðslurnar gætu komið þeim... sem þessa dagana verma stólana... frekar illa.
Gunnar Andersen hefur komið 77 málum áfram til Sérstaks. Skyldi fara um einhverja ??
Þetta leiðindamál hlýtur að skýrast á næstu dögum og í stað þess að heyra um einhvern feluleik G. Andersen varðandi Aflandsfélög Landsbankans árið 2001, þá fáum við vonandi að heyra eitthvað um feluleik ríkisstjórnarinnar varðandi fjármálafyrirtækin og AGS...sem...eins og komið hefur á daginn...hefur eingöngu snúist um að bjarga bönkunum á kostnað alþýðunnar.
Ég kaus til vinstri á sínum tíma í þeirri góðu trú að við fengjum Nýtt Ísland, þar sem allt kæmi upp á yfirborðið, þar sem hverjum steini yrði velt við.
Kjaftæði !!
Ég sárskammast mín. Fyrir að hafa látið hafa mig að fífli. Í næstu kosningum get ég vonandi bætt ráð mitt svo fremi að fram komi fólk sem hægt er að treysta að standi við orð sín.
Ég vona að þessar hugrenningar mínar komi ekki illa við neinn, nema þá aðila sem eiga það skilið , og óska ykkur öllum góðs svefns.
Þar til næst.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.