20.10.2009 | 09:51
Enn við sama heygarðshornið.
Sigmundur Davíð hjakkar enn í sama farinu.
Nú finnur hann samstarfi stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) flest til foráttu. Auðvitað hefur margt breyst síðan stofnað var til samstarfsins fyrir um ári en að fullyrða að aðkoma sjóðsins að málum hér sé ekki nauðsynleg lengur er gjörsamlega út í hött.
Ég leyfi mér að vitna í orð hans þar sem hann segir "Þjóðin er fyrst og fremst í skuldakreppu, af hverju er þá verið að auka skuldirnar?"
Gott og vel. Þetta vitum við öll. Hins gæti það hafa farið framhjá einhverjum að ekki alls fyrir löngu brugðu tveir Framsóknarmenn undir sig betri fætinum og herjuðu á Noreg í þeim tilgangi að slá smá lán upp á litla tvö þúsund milljarða, svona upp á kunningsskap.
Þeir fóru erindisleysu.
Eðlilega. Þessir ungu menn virðast ekki þekkja meginreglu allra viðskipta en það er að standa í skilum. Oftar en ekki hefur okkur Íslendingum verið bent á að taka til í okkar ranni áður en nokkrar lánveitingar koma til greina.
Auðvitað má gagnrýna samstarfið við AGS og þar er margt sem þarfnast endurskoðunar en þegar allt kemur til alls þá er þetta skásti kosturinn.
Um hlutdeild Bjarna Ben. og Birgittu Jónsd. í þessum umræðum er best að hafa sem fæst orð því þar var niðurrifsstarfsemin í fullum gangi, engar úrlausnir frekar en fyrri daginn.
Ég horfði á Kastljós í gærkvöldi og þó ég sé ekki alltaf á sama máli og Þorgerður Katrín fannst mér hún skila sínu með sóma eins og svo oft áður.
Í ljósi þess að Icesave skuldin er bara brot af heildarskuldum þjóðarbúsins finnst mér skjóta skökku við hve miklum tíma alltof margir þingmenn hafa eytt í gagnrýni og málþóf í stað þess að reyna nú að sjá stöðuna í réttu ljósi og starfa samkvæmt því.
Þar til næst.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.