Af einu og öðru.

Stundum rekst ég á frétt sem mér finnst einstaklega jákvæð. Því miður gerist slíkt alltof sjaldan.

Nú segir Stefán Eiríksson lögreglustjóri að þær hagræðingaraðgerðir sem lögreglan hafi þurft að grípa til hafi skapað svigrúm til að fjölga lögreglumönnum við embættið.

Spor í rétta átt. Svo er bara að bíða og vona að stjórnvöld sjái villu síns vegar og hætti við væntanlegan niðurskurð á fjárveitingum til Hæstaréttar, sem eins og hver sæmilega vitiborinn maður veit, er gjörsamlega út í hött.

Undarlegt nokk að ekkert skuli heyrast úr búðum ríkisstjórnarinnar hvað snertir þetta mál.

Í Viðskiptablaðinu las ég smá klausu sem snýr að flutningi lögheimila... eins og segir í fréttinni:   "Heimildir Viðskiptablaðsins herma að lögmenn margra fjármálamanna hafi unnið að því að færa lögheimili þeirra að undanförnu til þess að ekki sé hægt að stefna þeim til riftunar né setja þá í þrot fyrir íslenskum dómstólum."

Mér koma í hug rottur sem flýja sökkvandi skip.

Hér kemur svo smá klausa úr Vísi sem ég hjó eftir.

"Löggjafinn hefur látið hjá líða að innleiða Evróputilskipun um varnarþingsreglur við gjaldþrot fjármálafyrirtækja. Af þessum sökum hafa engin riftunarmál verið höfðuð gegn þeim sem eru búsettir erlendis og hefur þetta haft neikvæð áhrif á endurheimtur í þrotabúi gömlu bankanna."

Og áfram með smjörið.

"En hvað ætla stjórnvöld að gera í málinu? „Við erum sem sagt að athuga lögfræðilegar afleiðingar þess ef menn flytja lögheimili og ég vil ekkert segja fyrirfram um það hver niðurstaðan úr þeirri vinnu verði. Þetta er bersýnilega eitt af því sem þarf að athuga," segir Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra."

Ég vona að háttvirtur efnahags og viðskiptaráðherra sjái loksins ljósið og geri sér grein fyrir því að athugunin hefði átt að byrja fyrir löngu síðan.

Svo er hér smá frétt sem snertir kúlulánþegann Finn Sveinbjörnsson, bankastjóra Nýja Kaupþings.

"Fyrrum stjórnendur og eigendur Atorku Group hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir telja sig ekki hafa setið við sama borð og til að mynda núverandi eigendur Haga í samningaviðræðum við bankann."

Óþarfi að hafa fleiri orð um það. Eða hvað?

Ég má ekki gleyma því jákvæða sem gerðist í dag en það eru ungar stúlkur sem komu fram í Kastljósi og fluttu lag við texta Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Þær skiluðu sínu af sóma og ég vænti þess að heyra meira frá þeim innan tíðar.

Að lokum vona ég að hið Nýja Ísland lifi sem lengst og vonandi óspillt.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband