Stundum velti ég fyrir mér tilganginum með lífinu og tilverunni......

...hvort hann sé virkilega sá að við eymingjarnir hafi virkilega fæðst inn í hið mannlega (?) samfélag til þess eins að þjóna fámennum, útvöldum hópi fólks sem helst virðist hafa sér til dundurs að féfletta gamlar konur og börn.

Að ógleymdum okkur öllum hinum.

Daglega dynur á okkur óþverrinn. Sama hvert er litið. Mörg eru dæmin en ég læt mér nægja að stikla á stóru.

" Samkvæmt nýútkomnu fjárlagafrumvarpi er ekki gert ráð fyrir að ellilífeyrir, örorkubætur og atvinnuleysisbætur hækki í samræmi við lægstu laun, eins og lofað var í tengslum við gerð kjarasamninganna."

Merkilegt nokk...en þetta kemur mér ekki á óvart.

Svo er það vina og vandamannapólitíkin.

Nýverið var Páll nokkur Magnússon, guðfræðingur að mennt, ráðinn forstjóri Bankasýslu ríkisins sem hefur það meginhlutverk að hafa umsjón með bönkum í eigu ríkisins, án pólitískra tengsla.

Páll var ráðinn þrátt fyrir að hafa verið fulltrúi Framsóknarflokksins í áraraðir.

Af þeim sjö sem sóttu um þóttu sex manns hæfari en áðurnefndur Páll. Stjórnarformaður Bankasýslunnar, Þorsteinn Þorsteinsson telur Páli til tekna að hafa verið aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, bæði Finns Ingólfssonar og Valgerðar Sverrisdóttur,meðal annars þegar bankarnir voru einkavæddir.

Það er skítalykt af þessu öllu. Þarna er litið framhjá vanhæfi en í stað þess virðist guðfræðingurinn hafa verið ráðinn af umburðarlyndi og klíkuræði sem reyndar er hluti af íslenskri hefð. Að hafa verið aðstoðarmaður Valgerðar Sverrisdóttur sem, hefði hún fengið að ráða, væri búin að kaffæra Austurlandið og jafnvel hluta af Norðurlandinu undir virkjanir, er nokkuð sem hver sæmilega þenkjandi maður hefði vit á að þegja yfir. Um Finn Ingólfsson er best að hafa sem fæst orð.

Kannski...þrátt fyrir allt...fer best á því að halda guðfræðingnum í starfinu. Tengslin við almættið gætu jafnvel komið okkur til góða. Það verður samt áhugavert að fylgjast með framhaldinu. Sérstaklega í ljósi þess að fjármálaráðherra hefur krafið stjórnarformann Bankasýslunnar skýringar.

Nú hefur ríkisstjórnin, af sínu alkunna örlæti, ákveðið að færa Háskóla Íslands einn og hálfan milljarð að gjöf næstu þrjú árin sem er góðra gjalda vert. Þó svo hjálparstofnanir hafi orðið að skera niður matargjafir sökum fjárskorts. Þó svo enn sé ráðist að öldruðum og öryrkjum með auknum skattaálögum. Þó svo landsflóttinn aukist. Þó svo gleymst hafi að gera ráð fyrir áðurnefndri gjöf á fjárlögum.

Enn hitnar undir ra...... á háttvirtum biskupi okkar, Karli Sigurbjörnssyni og ekki að ástæðulausu. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta dapurlega mál en vil þó benda á að víða erlendis er venjan sú að komi upp mál sem vekja úlfúð í samfélaginu stígur viðkomandi til hliðar. Karl yrði maður að meiri, gerði hann slíkt hið sama.

Blessi ykkur öll og þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband