Dómgreindarvísitala Björgólfs Thors/ Andmælabréf við afsökunarbeiðni.

 Þann 15. sl. barst mér eftirfarandi bréf frá bloggvini í Kanada - Jennýju Stefaníu Jensdóttur - með ósk um að koma því á framfæri. Ég verð að viðurkenna vanmátt minn í þeim efnum svo ég ákvað að setja það inn á síðuna mína í þeirri von að einhver framtakssamur geti þá komið því áfram. Titillinn á blogginu mínu þetta skiptið er fyrirsögn bréfsins.

"Björgólfur Thor,

Ég ætla að nýta mér andmælarétt, við afsökunarbréfi þínu, sem lesið var af þúsundum Íslendinga og viðbrögðin létu ekki á sér standa, enda bjóstu varla við öðru?

Ég efast ekki um; að greindarvísitala þín sé há, en ég leyfi mér að fullyrða að dómgreindarvísitala þín sé hættulega lág.

Ég hefði að öllu jöfnu;  kært mig kollótta um hvort tveggja, (enda elti ég ekki ólar við fólk eftir vísitölum) því ég laðast frekar að fólki með "genuine" persónutöfra. 

Nú þegar  ljóst er að  dómgreindarskortur þinn og þinna líka, hefur orsakað hrun heils efnahagskerfis, ómælda sorg og örvæntingu fjölmargra landa okkar og ástvina, er mér ekki sama.  Auk þess, eftir lestur RNA, gegndir þú augljósri stöðu "skuggastjórnanda" sem í krafti ólöglegar stöðu, rakaðir fé undir eiginn handarkrika sem er refsivert athæfi.

Niðurstaða mín eftir skönnun á netheimum í dag um viðbrögð við afsökun þinni er; almenningur er ekki stemmdur fyrir svona afsökun.  Fyrstu viðbrögð mín voru; Björgólfur hefur horft á Tiger segja; I am sorry, I am so sorry ...... og bréf þitt var með jafnmörgum sorry á okkar ástkæra ylhýra.  Var samt feginn að þú endaðir ekki bréfið á :  Ég mun nú fara á meðferðarstofnun í "græðgisfíkn", því eins og ég og þú og Tiger vitum, engin slík "stofnun" er til.

Veit ekki hvort þú fylgist með golfi, það geri ég af miklum áhuga.  Ég kættist ógurlega yfir sigri hins spékoppadjúpa Phil Mickelsen, og felldi tár, þegar ég upplifði tilfinningaþrungna sigurstund hans, með sárveikri eiginkonu og móður og litlu stelpunum hans.  Ég skammast mín ekkert fyrir að tárast yfir heitum tilfinningum, því veistu Björgólfur, þetta er það sem lífið snýst um; fjölskylda, ástvinir og hamingja þeirra.

Veit ekki hvort hægt er að taka háskólagráðu í "dómgreind", líklega er það ekki hægt, en ég skora á þig að gúggla og athuga hvort slík námskeið séu í boði.

Þú ert líklega núna, búinn að uppgötva sannleikann;  "peningar eru ekki allt" þegar virðingin er glötuð! Það er eiginlega kúrsinn;  Dómgreind 101.  Síðan koma næstu kúrsar jafn mikilvægir.

Ég er líklega persóna sem er í hásuðri við þig.  Var jafnvel "sökuð" um dómhörku á  áttunda áratug síðustu aldar, þegar ég skoppaðist út á  business markaðinn.  Þessi dómharka tengdist á þeim tíma, réttlætiskennd um jafnræði,  þegar ég þótti beita mér full harkarlega með hagsmunum viðskiptavinar en gegn  "viðskiptasjónarmiðum fyrirtækis"   Að sjálfsögðu tók ég þessari gagnrýni um dómhörku alvarlega, en ég gat ekki breytt mér. 

Nú er allt í einu norður orðið suður í "spillingaparameter" þjóðfélagsins, og þú hlýtur að skilja að fólk eins og ég, fögnum þeirri þróun tryllingslega.  En stóra spurningin er "getur þú breytt þér?" 

Það er undir þinni  meintri skertu dómgreind komið.

Á haustdögum kynnti ég mér fyrirbærið "peningaþvætti" og bloggaði (sjá hlekk) um í nokkrum köflum.

Niðurstaða minnar dómgreindar var; að 85-90% líkur væru á því að stórkostlegt "peningaþvætti" hefði verið stundað í íslensku bönkunum, ekki síst í banka ykkar feðga og viðskiptafélaga.

Ég veit, þú og þín fjölskylda ásamt viðskiptafélaga ykkar sem flúinn er til Rússlands aftur, hafna þessu algjörlega!

Mín dómharka, (sem ég get ekki breytt) fer fram á  að þú afhjúpir þetta mál fyrir fullt og fast.  Sama dómharka, krefst þess að þú verðir sóttur til saka, og réttbært dómsvald sem við öll hljótum að lúta, skeri úr um sekt eða sakleysi í einstökum málum.

Eftir þá niðurstöðu, eins og einn ágætur bloggvinur minn benti á í dag; væri ágætt að fá afsökunarbeiðni.  Maddoff gerði það í þessari röð, en þú kýst að gera það í öfugri röð.

Að lokum vil ég biðjast velvirðingar á því ef þetta bréf er sjálfhvert með fjölmörgum "égum", taldi samt nauðsynlegt að opna augu þín fyrir þeirri staðreynd, að til er fullt af fólki, sem er í hásuðri við þig í dómgreind; nefninlega "almenningur" sem enn býr við þá gæfu að hafa virðingu en engan auð, en þú líklega þvert á móti.

Afsökun er til alls fyrst, en áþreifanlegar aðgerðir virka betur, eins og staðan er nú!

Ítreka óskir mínar; vegni þér vel í langri og strangri göngu í að "walk the talk" í bréfi þínu til íslensku þjóðarinnar í dag. "

Jenný Stefanía Jensdóttir.

 Svo mörg og góð voru þau orð.

Þar til næst.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakkir til ykkar beggja fyrir heiðarlega tilraun til að forða þessari "afsökunarbeiðni" frá því að sökkva til botns í gullfiskaminni okkar Íslendinga.

"Afsökunarbeiðnir" hafa streymt yfir okkur undanfarið.

Þær virðast vera nýtt og hugsanlega athyglisvert tjáningarform innan okkar þjóðfélags.

Vonandi kemur einhver mér tölvufróðari til með að birta slóðir á "afsökunarbeiðnirnar" til að auðvelda greiningu og samanburð á þeim.

Enn sem komið er finnst mér þær flokkast lauslega undir; "May be I should have." og "I'm sorry/ oho, so sorry". Innihaldslausar og svo almenns eðlis að þær eru marklausar (svo ekki sé meira sagt).

Það sem ég velti fyrir mér er hversvegna þetta afsökunarflóð streymir nú til fjölmiðla okkar.

Getur einhver útskýrt þetta fyrirbæri?

Agla (IP-tala skráð) 23.4.2010 kl. 14:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband