"Æm só sorrí"

Þessa dagana dynja á okkur afsökunarbeiðnir frá hinum og þessum aðilum t.d. "útrásarvíkingum" sem iðrast synda sinna og lofa öllu fögru eins og að gera upp sínar skuldir þó svo hvergi sé minnst á að borga þær.

Þingmenn fara hamförum líka og nú kemur Steinunn Valdís Óskarsdóttir fram á sjónarsviðið og segir að hugsanlegt sé að allir þingmenn fram að hruni 2008 yfirgefi sviðið. Hún virðist hinsvegar ekki ætla að segja af sér nema allir aðrir geri það líka.

Noregsfarinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fer mikinn þessa dagana, eins og svo oft áður, biður fyrir hönd flokksins margfalt afsökunar en klykkir svo út með því að segja að Framsóknarflokkurinn hafi fyrstur flokka viðurkennt mistök, hann hafi fyrstur flokka ráðist í endurnýjun og endurskoðun innávið en ný flokksforysta var kosin á flokksþingi fyrir fimmtán mánuðum.

Nú já. Hann þegir þunnu hljóði um Noregsferðina frægu sem hann, eftir að hafa látið gamminn geysa um skuldasöfnun Íslands, fór í ,ásamt flokksbróður sínum Höskuldi Þórhallssyni (sem reyndar fer lítið fyrir þessa dagana) í þeim tilgangi að slá lán upp á litla 2000 milljarða. Sú ferð var ekki farin til fjár.

Ég hallast helst að því að drengstaulinn treysti ekki á gullfiskaminni landans heldur sitt eigið.

Það sem mér hefur fundist einkenna málflutning þeirra félaga, hans og Engeyjarguttans Bjarna Ben. er þetta gegndarlausa ofstæki gagnvart núverandi ríkisstjórn þar sem allt er tínt til og krafist kosninga í haust en, hvergi hafa komið fram hugmyndir um hvað mætti betur fara og hvernig ætti að fara að því.

Það er reyndar fleira sem vekur eftirtekt mína þessa dagana og má þar nefna auglýsingu frá fyrirtæki sem nefnist "alterna" og býður okkur litla fólkinu "miklu lægra mínútuverð." Einkennilegt að mínútuverðið skuli ekki vera tilgreint á fyrstu síðu - og - hverjir standa á bak við það?

Nóg komið að sinni, ég óska öllum gleðilegs sumars með von um betri tíð.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Gleðilegt sumar. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 25.4.2010 kl. 00:18

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Jökull, ef það er eitthvað sem mér leiðist meira en þessar viðstöðulausu afsökunarbeiðnir þá eru það stöðugar kröfur "þjóðarinnar" um afsökunarbeiðnir. Menn eiga að láta verkin tala og stjórnmálaflokkar geta gert það. Útrásarvíkingar geta ekki beðist afsökunar. Þeir eiga bara að taka þeim dómum sem á þá falla af kalmennsku; skila góssinu og njóta svo útsýnisins gegnum rimlana.

Hitt er annað að ég er ekki sammála þér að stjórnarandstaðan hafi ekki bent á leiðir út úr vandanum. Framsókn kom með raunhæfar lausnir á skuldavanda heimilanna síðast liðið vor og Sjálfstæðisflokkur lagði fram velútfært plagg um endurreisn efnahagslífsins.

Bjálfarnir í ríkisstjórninni biðu of lengi með að fara að þessum ráðum og hafa auk þess ekki getað sett saman neina raunhæfa áætlun. Því er ekkert ósanngjarnt að stjórnarandstaðan fari fram á kosningar.

Hver vill enda á sauðskinnskóm með askinn sem einu fasteignina? 

p.s. Tek undir með Jónu, Gleðilegt sumar.

Ragnhildur Kolka, 26.4.2010 kl. 19:05

3 Smámynd: Þráinn Jökull Elísson

Tuttugu prósenta flöt skuldalækkunarhugmynd Framsóknar var að mörgu leyti góð en ekki nægjanlega vel útfærð því hún hefði komið þeim best til góða sem fóru hamförum í velsældarfylleríinu og eiga timburmennina skilið. Það var mun meira uppbyggilegt sem kom frá Sjálfst.fl. en eins og þú réttilega segir, það var beðið of lengi. Annars finnst mér drengirnir oft fara offari og þá sérstaklega Sigmundur Davíð, minnir stundum á jójó.

Þráinn Jökull Elísson, 27.4.2010 kl. 19:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband