Síðasti blóðdropinn......

......og var þó nóg komið.

Enn og aftur skal ráðist að öldruðum og öryrkjum og nú í formi skattlagningar á lífeyrissjóðina upp á litla 1.750 milljarða og svona til að klessa nú plástri á sárið þá er talað um "tímabundna" skattlagningu.

Þess má minnast að verðtryggingin var líka "tímabundin" athöfn. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar.

Hversu langt er hægt að ganga?

Orðum fjármálaráðherra um að samkomulag hafi náðst um gjörðir þessar vísar Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ alfarið á bug.

Það er hægt að spara og það gríðarlegar upphæðir Ef stjórnarliðar sæju nú ljósið og fækkuðu þessum fj......sýndarmennskusendiráðum og færu að axla smá ábyrgð segir mér svo hugur að staðan yrði ólíkt betri. Undarlegt þykir mér eftir allar þær umræður sem verið hafa í fjölmiðlum hvað varðar kostnað utanríkisþjónustunnar skuli aldrei heyrast bofs úr búðum óhæfra stjórnarliðanna.

Ef litið er til baka þá er ekki sjáanleg breyting frá 2007. Fjármálageirinn hefur aldrei verið stærri en nú, bankastjórnendur stefna á ofurlaun...að nýju...og þá væntanlega vegna ofur ábyrgðar og til að bíta höfuðið af skömminni þá hefur stjórnarformaður Landsbankans, sem er jú í eigu þjóðarinnar, vogað sér að leggja fram tillögu um launahvetjandi kerfi starfsfólks.

Ég minnist orða Steingríms J. er hann nefndi orð eins og gagnsæi og "að hverjum steini yrði velt við."

Í framhaldi af því rifjast upp fyrir mér þau fleygu orð úr bók George Orwell, Dýrabærinn, :Allir eru jafnir en sumir eru jafnari en aðrir.  Einhverjum steinum kann að hafa verið velt við en ekki sér til botns enn.

Landflóttinn heldur áfram og eykst jafnt og þétt. Á sama tíma leitar ríkisstjórn sem kennir sig við velferð að nýjum leiðum til aukinnar skattheimtu. Ef gerður er samanburður á ríkisstjórnum Norðurlanda og Íslands er hann okkur mjög svo í óhag. Þó svo skattaálagning sé sú lægsta hérlendis þá er þagað þunnu hljóði um alla þá óbeinu skatta sem við borgum.

Að lokum, í sjónvarpi frá Alþingi í dag kom fram að 90 fyrirspurnum til (fjármála) ráðherrahefur ekki verið svarað þrátt fyrir 10 daga frestinn. Þær elstu voru lagðar fram fyrir allmörgum mánuðum.

Traust mitt til núverandi ríkisstjórnar fer óðum þverrandi, en vandinn er hins vegar sá að ef það á að takast að mynda starfhæfa ríkisstjórn þá eru þeir ansi margir sem þyrftu að taka til í sínum  ranni. 

Þar til næst.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Hvað kom eiginlega fyrir myndina af þér, Jökull?

Ragnhildur Kolka, 31.5.2011 kl. 21:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband