9.6.2011 | 13:10
Útvarp frá Alþingi og fleira gotterí.
Eftir að hafa fylgst með sendingum Rúv frá Alþingi, og þá sérstaklega eldhússdagsumræðum, er ég orðinn fullkomlega sáttur við nauðungarafnotagjaldið því áðurnefndar sendingar veita mér alltaf ómælda ánægju.
Ég vona að Rúv haldi áfram á þessari braut og hendi þá frekar einhverju af útsölurusli Kanans út.
Þær eru ófáar spurningarnar sem vöknuðu eftir umræðurnar í gærkvöld en vonandi fást svör með tíð og tíma.
Ég hlýt að hafa misskilið stöðu þjóðarbúsins því eftir orðum Bjarna Ben. að dæma þá ríkti hér bullandi velsæld í tíð hægri stjórnarinnar í heil átján ár. Hér var einkavætt til hægri og vinstri. Hér var virkjað til hægri og vinstri. Byggingariðnaðurinn blómstraði. Bankabísnessinn óx. Og óx. Hér draup smér af hverju strái. Hér þénuðu menn.
Sumir reyndar meira en aðrir. Miklu meira.
En...handan við hornið leyndist óvinurinn og beið færis.
Svo kom stóri skellurinn. Og það í tíð ríkisstjórnar sem í tæpa tvo áratugi hafði borið hag íslensku þjóðarinnar fyrir brjósti.
Bankarnir hrundu.
Menn börðu sér á brjóst. Ekki benda á mig heilkennið grasseraði sem aldrei fyrr.
Aðrir börðu búsáhöld sín og kröfðust nýrrar ríkisstjórnar. Og varð að ósk sinni.
Niðurlæging átján ára velferðarríkisstjórnar - sem meðal annars hafði byggt upp kvótakerfi sem hafði í för með sér velsæld og hagnað margra mætra manna sem sumir hverjir uppgötvuðu að faktískt var miklu hagkvæmara að leigja bara kvótann sinn nú eða selja hann í stað þess að standa í einhverju streði - var algjör.
Við brunarústunum tók vinstri stjórn.
Hér mætti sem best setja amen á eftir efninu en af nógu er að taka.
Þó svo einhverjir útgerðarmenn hafi látið glepjast af velgengninni og hætt sér út í mistryggar fjárfestingar, óskyldar útgerð, þá má ekki gleyma þeim vel reknu útgerðarfyrirtækjum sem orðið hafa að kaupa kvótann sinn dýrum dómum.
Þau skulu látin í friði.
Með þessum orðum kveð ég að sinni og þar til næst.
Athugasemdir
Góður
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.6.2011 kl. 09:52
Frábær pistill, sammála hverju orði!
Bergljót Gunnarsdóttir, 19.6.2011 kl. 16:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.