24.1.2009 | 00:39
Um daginn og veginn.
Það væri að bera í bakkafullan lækinn að fara að blogga um Geir H. Fleiri hundruð manns hafa nú þegar gert það. Þó vil ég að það komi fram að þrátt fyrir að hafa verið á öndverðum meiði við Geir hvað snertir stjórnmálaskoðanir, þá læt ég slíkt liggja milli hluta á stundu sem þessari.
Ég ætla ekki að setja mig í dómarasæti hvað snertir hans störf sem stjórnmálamanns, nóg er að gert, en samúð mín er með honum og fjölskyldu hans. Ég vona svo sannarlega að hann hljóti fullan bata sem, að mínu mati, er mun mikilvægara en pólitískur ferill hans.
Nú eru uppi alls kyns hugmyndir um stjórnarslit, fram að þingkosningum 9. maí, og sýnist sitt hverjum.
Ég hef líka mínar skoðanir á þeim málum og mér finnst það óheyrileg fjarstæða að fara að mynda t.d. minnihlutastjórn í hálfan fjórða mánuð, sem engu fengið áorkað, svo ekki sé minnst á þær neikvæðu afleiðingar sem slíkt gæti haft í för með sér.
Ég tek mér það bessaleyfi að vitna í fjármálaráðherra Svía þar sem hann sagði í dag að Svíar stæðu við lánveitingu til Íslands þrátt fyrir þá pólitíska uppnám, sem þar ríkti.
Hann sagði einnig:Lánin sem við, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og önnur Norðurlönd munu veita Íslandi verða greidd út á grundvelli þess, að Íslendingum hafi tekist að tryggja stöðugleika í þróun efnahagslífsins og opinberra fjármála."Ef Íslendingar geta staðið við skilmála lánanna, þ.e. lagt fram alhliða, og virka efnahagsstefnu, munum við að sjálfsögðu standa við okkar skuldbindingar og greiða út lánið," sagði Borg við blaðamenn í sænska þinginu.
Við höfum þraukað í 100 daga, við hljótum að geta þraukað í 100 daga í viðbót!
Nú snúum við okkur að því sem í augnablikinu stendur mér næst.( Blogg ) vinir, nær og fjær, hafa ( ofur hógværlega ) bent mér á að það væri nú gaman að fá smá fréttir héðan úr Grúnó.
Ok.
Í augnablikinu er hæg norðaustlæg átt, rigndi ögn fyrr um daginn en þó ekki nóg til að fj...... hálkan hyrfi. Samt sem áður hefur enginn dottið og slasast. Ykkar hæstvirtur skrönglaðist út í Samkaup á hækjum og alles, var svo heppinn að rekast á kunningja minn sem glotti sínu alkunna skítaglotti ( Hanni, það er bara einn innfæddur sem gerir slíkt ) og bauð mér far heim, sagði að í rökkrinu minnti ég helst á friðarsúluna í Viðey þegar bílljósin beindust að mér. Mig grunar að hann sé að sneiða að endurskinsmerkjunum sem vinir og vandamenn, að ógleymdum tryggingarfélögunum, hafa verið svo duglegir að hengja utan á frakkann minn.
Semsagt, allt er í besta lagi, kyrrðin og yndislegheitin hér í bæ, ja, ekki hef ég ástæðu til að kvarta. Vel á minnst, nú eru Íslendingar kvattir til að láta hvítu jólaljósin loga til fyrsta feb. sem hentar mér ágætlega þó jólaljósin hjá mér hafi verið að mestu rauð, fín ástæða fyrir letinni!
Þar til næst.
Athugasemdir
Ég vil ennþá stjórnina frá, Seðlabankastjórana, fjármálaeftirlitið og útrásarbarónana. Ég held áfram að mótmæla, lifi eldhúsáhaldabyltingin.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 24.1.2009 kl. 00:52
Það vil ég svo sannarlega líka!!! Ég vil sérstaklega að náð verði í skottið á útrásargreifunum og að innistæður þeirra á hvort sem það er á Cayman Islands eða annars staðar verði frystar.. Ég veit líka (ekki spyrja hvernig) að hengingarólin er farin að þrengjast um hálsinn á þeim!
Þráinn Jökull Elísson, 24.1.2009 kl. 01:16
Ég vil fara út í það að frysta eigur, og rekja bankafærslur þessara manna. Ef ég millifæri á heimabankanum mínum, finnast þessar færslur í mörg ár. Ekki voru þessir útrásarbarónar að nota peninga? Það finnst mér ótrúlegt, að flytja fullar ferðatöskur af peningum á milli landa.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 24.1.2009 kl. 03:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.