Nú er bara að vera jákvæður.

Jafn mikill andstæðingur AGS, Icesave, já og ESB aðildar ég er, verð ég að viðurkenna, í það minnsta fyrir sjálfum mér, að við áttum engra kosta völ.

Við Íslendingar( fámennur hópur þó) vorum búnir að mála okkur út í horn.

Nú bíð ég óþreyjufullur eftir tilkynningu um lækkun stýrivaxta, afnámi gjaldeyrishafta, fyrsta áfanga, og jafnvel erlendu fjármagni inn í landið, svo vitnað sé í orð viðskiptaráðherra þar sem hann segir nokkuð góðar líkur á því að nýtt fjármagn fari að leita til Íslands í kjölfarið á endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Mér dettur helst í hug að nú hafi útlendingar loksins uppgötvað að hér er til heiðarlegt fólk sem vill standa í skilum með sitt.

Það eru ekki allir útrásarvíkingar.

Var að fylgjast með umfjöllun Kastljóss á "skúffufé" okkar hæstvirtu ráðherra. Þó ég kippi mér ekki upp við neitt, nema kannski hressilegan jarðskjálfta, þá blöskraði mér bruðlið og óráðsían.

Átta hundruð milljónir út í buskann það sem af er öldinni? Ótrúlegt. Það er ekki eins og þetta séu vasapeningar þeirra höfðingja. Tímabært að læsa skúffunum.

En... allt illt tekur vonandi enda og ég get ekki látið hjá líða að minnast á það, sem í mínum huga er frétt dagsins, en þar fjallar Financial Times um Ólaf Þór Hauksson, sérstakan saksóknara, og það verkefni sem hann hefur með höndum. Þar eru mörg gullkornin.

„Á hans herðum hvíla vonir reiðra Íslendinga, sem vilja sjá bankamennina axla ábyrgð á því að þessi fyrrum ríka 300 þúsund manna þjóð er nú á efnahagslegu hamfarasvæði," segir blaðið.

Reiðra? Mér koma mörg orð í hug sem betur eiga við en Tjallinn hefur jú alltaf verið þekktur fyrir hógværðina, í það minnsta í orði.

Hér kemur svo mögnuð klausa.

"Rakið er að Ólafur hafi nánast enga reynslu haft af rannsóknum á borð við þær sem hann stýrir nú. Hann hafi hins vegar haft einn stóran kost til að bera: Engin tengsl við fjármálamennina, sem nú sæta rannsókn." Þetta lofar góðu. Reyndar kemur margt annað gott fram í greininni en ég læt mér nægja að taka undir  orð Ólafs þar sem hann segir að fólk verði að sýna þolinmæði því rannsóknin sé viðamikil.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband