Heiðarleiki og hugsjón ofar öllu?

Ég hef ekki bloggað í fimm daga, hef setið með sveittan skallann yfir upprifjun á námsefni annarinnar og í dag tók ég svo lokaprófið, þriggja tíma törn, komst stórslysalaust frá því þannig að nú get ég haldið uppteknum hætti þ. e. að rífa kjaft á blogginu.

Mér varð um og ó þegar ég las fréttir síðustu daga. Þar ber hæst himinháar kröfur nokkurra kúlulánþega sem allir (öll) eiga það sameiginlegt að sitja í lykilstöðum í nýju bönkunum.

Svo ég vitni í DV þá eiga margir af núverandi framkvæmdastjórum Íslandsbanka háar launakröfur í þrotabú gamla Glitnis. Þrír þeirra fengu samtals 2.400 milljóna króna kúlulán til hlutabréfakaupa í Glitni í maí 2008.

Ekki beinlínis vasapeningar.

Talan er um litlar 800 millur per kjaft.

Mér blöskrar siðblindan og þessi taumlausa auragræðgi sem virðist hrjá þetta vesalings fólk. Augljóslega þekkir það ekki sinn vitjunartíma. Það verður fróðlegt að sjá á hvaða grunni þessar ólánssömu manneskjur byggja kröfur sínar.

Ég hélt í einfeldni minni að eftir allt sem á undan hefur gengið yrði nú stokkað hressilega upp og gagnsæið yrði allsráðandi. Ónefndur fjármálaráðherra lofaði okkur því að "hverju sandkorni yrði velt við til að uppræta spillinguna."

Ég bíð eftir efndunum.

Áfram með smjörið því úr nógu er að moða.

Nú rannsakar sérstakur saksóknari kaup huldumannsins Sjeiks Al-Thani  á hlutabréfum í Gamla Kaupþingi og þrjú önnur mál sem eitt stórfellt samsæri um markaðsmisnotkun forráðamanna bankans.

Mér hlýnar um gömlu slitnu hjartaræturnar þegar ég les frétt sem þessa. Sérstakur saksóknari er ásamt sínu starfsfólki greinilega að vinna verk sitt, og það vel.

Skyldi ekki jörðin vera farin að volgna undir fótum einhverra?

Svo er hér að lokum (einhversstaðar verða menn að stoppa) frétt frá ríkisendurskoðanda þar sem hann segir að meira tjón hljótist af tæknilegu gjaldþroti Seðlabankans en Icesave, verði heimtur Landsbankans eins og spáð er. Fram kemur í fréttinni að  51 milljarður króna sé með trygg veð en verðmæti annarra lána er óljóst.

Hvers er ábyrgðin?

Nú sem endranær bið ég góðan Guð að halda verndarhendi sinni yfir okkur, styrkja okkur og leiðbeina í baráttunni við spillinguna og allt sem henni fylgir.

Þar til næst.

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Til hamingju með próflokin!

Þorsteinn Briem, 11.12.2009 kl. 21:54

2 Smámynd: Þráinn Jökull Elísson

Takk Steini minn.

Þráinn Jökull Elísson, 11.12.2009 kl. 22:50

3 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Tek undir með Steina, til hamingju með próflokin.

Ragnhildur Kolka, 12.12.2009 kl. 00:01

4 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Til lukku með próflokin.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 12.12.2009 kl. 00:37

5 Smámynd: Þráinn Jökull Elísson

Takk fyrir Ragnhildur mín. Nú er bara að hlaða batteríin fyrir næstu önn. Það er ansi stórt stökk fyrir mig að fara úr bandarískri ensku yfir í breska háskóla ensku, eins og kennd er á Bifröst. Ég svitnaði ekkert smá þegar ég uppgötvaði hvað ég var að fara út í. Sé samt ekki eftir því, ég þarf að hafa fyrir náminu og það er einmitt svo áhugavert. Kv.

Þráinn Jökull Elísson, 12.12.2009 kl. 00:38

6 Smámynd: Þráinn Jökull Elísson

Takk Kolla mín. Ég get reiknað nokkurn veginn út hver niðurstaðan verður og ég er mjög ánægður.

Þráinn Jökull Elísson, 12.12.2009 kl. 00:41

7 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Tek undir hamingjuóskir með próflok, góð tilfinning alltaf.  Tek líka undir fallega og einlæga bæn, sem verður fyrr að veruleika ef augu fleiri opnast.

Jólakveðjur

Jenný Stefanía Jensdóttir, 12.12.2009 kl. 20:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband