Stundum sárnar mér...

...sá tvískinnungur og óheiðarleiki sem blasir við mér í hvert skipti sem ég les fréttir dagsins og gildir þá einu í hvaða horn er litið.

Eins og fyrri daginn er af nógu að taka. Nú hefur stjórn Íbúðalánasjóðs ákveðið að ganga framhjá þremur þeim umsækjendum sem þóttu hæfastir í stöðu forstjóra sjóðsins og ráða mann sem "var ekki í hópi þeirra sem hæfastir þóttu, hvorki í fyrri eða síðari atrennu, en tvívegis var staðan auglýst laus til umsóknar sökum tafa og vandræðagangs." 

Beðið er í ofvæni eftir rökstuðningi stjórnarinnar, sem samkvæmt öllum kokkabókum verður án efa skrautlegur.

Ég reyni að vera bjartsýnn því þetta er jú hið "Nýja Ísland" þar sem hverjum steini skal velt við svo óhroðinn komi upp á yfirborðið. Málið er bara að steinarnir virðast rúlla í sama farið aftur.

Nú hefur Ríkisendurskoðun ákveðið að taka málefni meðferðarheimilisins Árbótar til skoðunar og varla að ástæðulausu.

Ég horfði á þá Tryggva Þór Herbertss. og Björn Val Gíslason skiptast á skoðunum varðandi áðurnefnt meðferðarheimili og kom þar eitt og annað fram sem reyndar er búið að vera í fjölmiðlum undanfarna daga.

Björn Valur reyndi að verja aðgerðir fjármálaráðherra sem, ásamt þáverandi félagsmálaráðherra, ákvað að dæla samanlagt 30 milljónum í apparatið, eftir lokun þess, á þeim forsendum að eftir hefðu verið tvö og hálft ár af samningstímabilinu og eitthvað var minnst á sanngirnisástæður.

Í samningnum kom reyndar skýrt fram að uppsagnarfresturinn var sex mánuðir og að tala um töpuð störf og sanngirni er þvílík tjara því eftir minni bestu vitund er rekið gistiheimili að Árbót í dag og eftir myndum að dæma er það ekki í lægri klassanum.

Hver skyldi svo borga brúsann þegar upp er staðið?

Það er ekki glætan að hátekjumenn eins og þeir báðir tveir skilji að þegar að gjalddaga kemur þá er það hinn íslenski launþegi sem borgar.

Kúlulánþeginn Tryggvi Þór fékk lánið sitt afskrifað og þáði sextán og hálfa milljón frá Askar Capital á sama tíma og hann gegndi stöðu efnahagsráðgjafa forsætisráðherra árið 2008. Ekki virðist sú efnahagsráðgjöf hafa gagnað neinum nema honum sjálfum.

Þegar Tryggvi Þór tók við sem efnahagsráðgjafi var rekstur Askar Capital erfiður og nam heildartap af starfseminni 12,4 milljörðum króna árið 2008.

Aðspurður hvort það hafi verið eðlilegt að þiggja bónusa þegar tap var af starfseminni segir hann: „Reksturinn fyrri part ársins 2008 var ekki erfiður. Ekki þannig. Tapið kemur ekkert í ljós fyrr en í hruninu."  Á sama tíma þáði hann laun sem efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar.

Björn Valur er ekki beinlínis á horleggjunum heldur með sínar þrjár húseignir: Íbúðarhús að Hlíðarvegi 34 í Ólafsfirði, Íbúðarhús að Stekkjargerði 12 á Akureyri, Íbúðarhús að Byggðavegi 96 á Akureyri (50%), (býst við því að konan eigi hinn helminginn), og svo eru það bílarnir:  Honda CR-V heimilisbifreið árgerð 2005 og Subaru Impreza heimilisbifreið árgerð 1998 (sem sennilega þyrfti að fara að endurnýja).

Ekki má gleyma "viðskiptafléttunni" hans Jakobs Valgeirs Flosasonar sem er unnin af þvílíkri snilld að jafnvel færustu viðskiptafræðingar þjóðarinnar klóra sér í kollinum í forundran.

Reyndar er honum tileinkaður hvorki meira eða minna en heill kafli í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.

Spurning hvort ég gæti ekki fengið starf hjá honum sem skutilsveinn, setið við fótskör hans og lapið í mig fróðleikinn, sem greinilega lekur af honum, og lært viðskiptafræðin sem hljóta að vera bitastæð úr því drengstaulinn getur rokkað á milli "Gamla og Nýja Landsbanka" og fengið milljarða afskriftir eftir behag.

Sem leiðir getum að störfum núverandi stjórnenda Landsbankans.

Svo ég dragi nú skoðanir mínar og hugsanir saman þá get ég bara sagt:

Stundum sárnar mér.

Þar til næst.

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Ætli það verðum ekki bara við sem borgum brúsann Þráinn þegar upp er staðið

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 24.11.2010 kl. 23:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband