Traustið vex.

Nú sýna Norðmenn frændskapinn í verki og bjóðast til að aðstoða okkur við  rannsóknina á efnahagshruninu.

Frábærar fréttir og þá sérstaklega í ljósi þess sem á undan hefur gengið.

Þær eru ófáar bloggfærslurnar sem ég hef lesið þar sem hneykslast hefur verið á hinum Norðurlandaþjóðunum fyrir að halda að sér höndum í þeim erfiðleikum sem við glímum við.

Hver sæmilega þenkjandi maður ætti ekki að vera hissa á því. Hver vill lána manni sem ekki stendur í skilum?

Hvað þá heilu þjóðfélagi?

Við Íslendingar allir hljótum að vera Norðmönnum þakklátir fyrir framrétta hönd, nema kannski tveir förusveinar sem lögðu land undir fót og herjuðu á Noreg í þeim tilgangi að slá smá lán upp á kunningsskap og út á andlitið á sér.

Sú ferð var ekki farin til fjár.

Ég minnist orða formanns félags Ísl. stórkaupmanna þegar hún sagði að traust og vinátta væri nokkuð sem er gagnkvæmt.

Orð að sönnu.

Þeir eru nokkrir Íslendingarnir sem betur hefðu staldrað við og íhugað þessi orð áður en þeir misstu gjörsamlega stjórn á sjálfum sér í lífsgæðakapphlaupinu, svo ekki sé minnst á sýndarmennskuna,  hvers afleiðingar við þurfum að glíma við um ókomna framtíð.

Var fimmtán mínútna frægðin þess virði?

Og, eins og fyrri daginn þá óska ég hinu nýja og óspillta Íslandi sem lengstra lífdaga og þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Norðmenn vilja aðstoða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú get ég ekki orða bundist.

Undanfarna daga hefur hæst borið á góma sparnaðaraðgerðir ríksstjórnarinnar og eins og fyrri daginn sýnist sitt hverjum, þ.e. stjórnarandstaðan er óvenju samhent í niðurrifsstarfseminni.

Eins og þeirra er von og vísa.

Enn og aftur á að ráðast að lífeyrissjóðunum rétt eins og það sé okkar eina og síðasta haldreipið.

Engu líkara en það sé sjálfsagður hlutur að lífeyrissjóðirnir borgi fyrir allt flippið og flappið sem misvitrum stjórnmálamönnum dettur í hug.

Alþjóð veit það er kreppa. Alþjóð veit líka við hverja er að sakast, utan þessi ca. þrjátíu prósent sem enn virðast svo veruleikafirrt að halda að allt 2007 "ástandið " komi aftur bara með því að kjósa yfir okkur framsóknaríhaldið að nýju.

En, nú verðum við að spara.

Það vitum við öll, utan kannski nokkrir fyrrverandi bankastarfsmenn sem enn virðast telja sig svo mikilvæga að þeir víla ekki fyrir sér að leggja fram tugmilljóna og jafnvel hundruðir milljóna kröfur í þrotabú gömlu bankanna á forsendum sem hver einasti skynsamlega þenkjandi fermingarstrákur myndi roðna af skömm yfir, bara við tilhugsunina.

Spara verðum við, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Í sjónvarpsfréttum kvöldsins var mönnum tíðrætt um skerðingu fæðingarorlofs. Allir eru sammála því að við verðum að spara en þegar á reynir þá rísa allir upp sem einn og mótmæla.

Mánaðarlífeyrir minn er kr. 142.811.oo.( niðurgreiðsla á lyfjum innifalin) Nettó!

Þegar ég er búinn að borga af húskofanum mínum (þessum sem byggður var 1942), og meðlagið með stráknum mínum, jah, þá er ekki mikið eftir.

Þó ég sjái ekki sólina fyrir einkasyninum þá koma þær stundir að ég styn undan mánaðar- reikningunum og hugsa hversu það hefði létt á mér ef strákurinn hefði komið undir, áður en ég missti heilsuna.

Næg voru tækifærin.

En ég læt ekki deigan síga. Eitt meðlagsár í viðbót sem er eins gott að standa í skilum með, því Danir líða ekki neitt slugs í þeim efnum, og svo taka við háskólaárin (vonandi) þar sem ég kem til með að gera mitt besta til að styðja  hann, og, ég veit að það kemur til með að ganga því ég hef einsett mér það!

Ég hef reynt í þessari færslu að tjá tilfinningar mínar og skoðanir, kannski smá fátæklegar, kannski virka þær illa á einhverja en það er ekki tilgangur minn að særa einn né neinn.

Við þurfum öll að líða fyrir afglöp smástráka sem héldu sig vera stóra.

Lifi hið óspillta Nýja Ísland(vonandi) sem lengst og þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Af kvóta og kvótabraski.

Sjaldan hef ég glaðst jafnmikið yfir nokkurri frétt sem þessari.

"Hvergi hvikað frá fyrningarleið."

Það þarf ekki að leiða getum að því við hvað er átt. Loksins, eftir nær aldarfjórðungs brask og tilheyrandi svínarí sér vonandi fyrir endann. Grátkór kvótagreifanna emjar sem aldrei  fyrr og má með sanni segja að þar syngur hver með sínu nefi.

Skyldi sosum engan undra, þeir eymingjarnir verða jú að hafa oní sig og á.

Þó undarlegt megi virðast þá eru þeir, sumir hverjir, ekki alveg staur og í framhaldi af því vil ég enn og aftur benda á nokk svo góða færslu á síðunni: nilli. blog.is, undir því ágæta nafni ; Sjávarútvegur í herkví óheiðarlegra einstaklinga, dags. 22.10.09.

Ekki eru allir útgerðarmenn blankir.

Reyndar finnst mér út í hött að fara að dunda við það næstu tuttugu árin að innkalla veiðiheimildirnar. Frændur vorir Færeyingar voru ekki að tvínóna við hlutina heldur umbyltu öllu sínu kerfi með einu pennastriki um miðjan síðasta áratug. Einhverjir fóru á hausinn en aðrir komu í staðinn. Gott að vita til þess að væntanlegur skötuselskvóti sem leigður verður á 120 kr. kg kemur til með að skila dágóðri upphæð í galtóman ríkiskassann.

Í stað þess að renna í vasa einhverra fárra aðila.

Þess ber líka að minnast að, þrátt fyrir allt, er fiskurinn í sjónum sameign okkar Íslendinga og þegar ég heyri útburðarvælið í "Sægreifunum" þá læðist að mér sá ljóti grunur að ekki sé nú allt með felldu.

En nú er bara að vera jákvæður og vona að allir séu með sitt á hreinu, því þess má að lokum geta að ekki alls fyrir löngu voru Íslendingar í hópi heiðarlegustu og óspilltustu þjóða heims.

Með þeim orðum óska ég hinu óspillta Nýja Íslandi sem lengstra lífdaga.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 


Traust, trúverðugleiki, gagnsæi.

Þetta gætu hæglega orðið einkunnarorð Arion bankans, áður Nýja Kaupþing, áður KB banki, áður. . .  en úr því farið var að velja nafn úr grískum goðsögnum, af hverju ekki Íkarus?

Oss berast vægast sagt undarleg tíðindi úr stjórnarbúðum áðurnefnds banka. Sona almennt séð mun meginreglan í viðskiptum vera sú að selja þeim sem býður best. Það lærði ég ungur að árum, en allt er breytingum háð. Það mun augljóslega eiga við um bankaviðskipti líka þar sem stjórnendur hafa sagt að 40% eignarhlutur bankans í Högum sé ekki til sölu.

Aðspurðir hví hluturinn hefði ekki verið boðinn hæstbjóðanda vísuðu stjórnendur bankans í verklagsreglur, þar sem segir að að áframhaldandi þátttaka eigenda og stjórnenda byggist á því að þeir njóti trausts og þyki mikilvægir fyrir framtíð fyrirtækisins.

Verklagsreglur?  Traust??

Í einstaklega hjartnæmri tilkynningu frá bankanum leynast þau mörg gullkornin.

Ég veit varla hvar byrja skal.Woundering Þó er hér smá  klausa sem bókstaflega heillaði mig upp úr skónum.

"Leiðarljós bankans eru fagmennska, framsækni, umhyggja og tryggð þar sem viðskiptavinurinn er í forgrunni."

Er þetta ekki alveg magnað?  Hvaða viðskiptavin skyldi nú annars vera átt við?

Varla mig og mína líka því við erum bara óbreyttir borgarar sem berjumst við að láta enda ná saman.

Kúlulánþeginn Finnur Sveinbjörnsson talar um tímabærar breytingar, nýtt nafn stefnu og gildi og segir " Við erum á vissan hátt að segja skilið við hið gamla."

Varla gerist það með því að afskrifa  tugmilljarða skuldir Bónusfeðga og afhenda þeim svo fyrirtækin aftur á silfurfati. Álíka skynsamlegt og að hleypa ref inn í hænsnakofa.

Annars er varla hægt að tala um þá feðga sem eigendur Haga því þeir fengu jú 30 millur að láni frá Kaupþingi til að fjármagna "kaupin."

Ég fæ ekki betur séð en enn sé hjakkað í sama "gamla" farinu. Fögur orð breyta engu þar um.

Lifi hið "óspillta" Nýja Ísland og þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Hlutur í Högum ekki til sölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af einu og öðru.

Stundum rekst ég á frétt sem mér finnst einstaklega jákvæð. Því miður gerist slíkt alltof sjaldan.

Nú segir Stefán Eiríksson lögreglustjóri að þær hagræðingaraðgerðir sem lögreglan hafi þurft að grípa til hafi skapað svigrúm til að fjölga lögreglumönnum við embættið.

Spor í rétta átt. Svo er bara að bíða og vona að stjórnvöld sjái villu síns vegar og hætti við væntanlegan niðurskurð á fjárveitingum til Hæstaréttar, sem eins og hver sæmilega vitiborinn maður veit, er gjörsamlega út í hött.

Undarlegt nokk að ekkert skuli heyrast úr búðum ríkisstjórnarinnar hvað snertir þetta mál.

Í Viðskiptablaðinu las ég smá klausu sem snýr að flutningi lögheimila... eins og segir í fréttinni:   "Heimildir Viðskiptablaðsins herma að lögmenn margra fjármálamanna hafi unnið að því að færa lögheimili þeirra að undanförnu til þess að ekki sé hægt að stefna þeim til riftunar né setja þá í þrot fyrir íslenskum dómstólum."

Mér koma í hug rottur sem flýja sökkvandi skip.

Hér kemur svo smá klausa úr Vísi sem ég hjó eftir.

"Löggjafinn hefur látið hjá líða að innleiða Evróputilskipun um varnarþingsreglur við gjaldþrot fjármálafyrirtækja. Af þessum sökum hafa engin riftunarmál verið höfðuð gegn þeim sem eru búsettir erlendis og hefur þetta haft neikvæð áhrif á endurheimtur í þrotabúi gömlu bankanna."

Og áfram með smjörið.

"En hvað ætla stjórnvöld að gera í málinu? „Við erum sem sagt að athuga lögfræðilegar afleiðingar þess ef menn flytja lögheimili og ég vil ekkert segja fyrirfram um það hver niðurstaðan úr þeirri vinnu verði. Þetta er bersýnilega eitt af því sem þarf að athuga," segir Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra."

Ég vona að háttvirtur efnahags og viðskiptaráðherra sjái loksins ljósið og geri sér grein fyrir því að athugunin hefði átt að byrja fyrir löngu síðan.

Svo er hér smá frétt sem snertir kúlulánþegann Finn Sveinbjörnsson, bankastjóra Nýja Kaupþings.

"Fyrrum stjórnendur og eigendur Atorku Group hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir telja sig ekki hafa setið við sama borð og til að mynda núverandi eigendur Haga í samningaviðræðum við bankann."

Óþarfi að hafa fleiri orð um það. Eða hvað?

Ég má ekki gleyma því jákvæða sem gerðist í dag en það eru ungar stúlkur sem komu fram í Kastljósi og fluttu lag við texta Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Þær skiluðu sínu af sóma og ég vænti þess að heyra meira frá þeim innan tíðar.

Að lokum vona ég að hið Nýja Ísland lifi sem lengst og vonandi óspillt.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Af spillingu og öðrum sóðaskap.

Enn berast oss fréttir og þær ekki beint jákvæðar.

Getur það virkilega staðist að í dag, á tímum gagnsæis og heiðarleika, sé starfandi aðstoðarmaður félagsmálaráðherra einn af þeim sem lagt hafa fram kröfur í gamla Landsbankann upp á, ekki tugmilljónir króna, heldur hundruðir milljóna?

Ljótt er ef satt reynist.

Er ekki kominn tími á félagsmálaráðherra að taka til í eigin ranni?

Áfram gengur myllan og nú eru það" Bakkabræður."

Fjármálaeftirlitið hefur sektað Bakkabræður um fimm milljónir króna vegna brots á lögum um verðbréfaviðskipti.
Hvernig skyldi nú Lýður kallinn fara að með húskofann sinn, þið vitið þennan hálfbyggða þarna í Fljótshlíðinni?

Það gæti reynst erfitt að fjármagna slíkar framkvæmdir.

Svo er hér frétt sem hlýtur að hafa vakið athygli allra.

"Að minnsta kosti tveir af þeim fyrrverandi starfsmönnum Landsbankans sem gert hafa milljónakröfur í þrotabú Landsbankans eru með réttarstöðu grunaðs manns í Imon-málinu svokallaða."

Það er ekkert annað.

Þeir Steinþór Gunnarsson og Ívar Guðjónsson  kunna greinilega ekki að skammast sín.

Á sama tíma og við eymingjarnir erum að berjast við að halda þjóðarskútunni á floti þá voga þessir menn sér að koma fram með kröfur sem eru svo gjörsamlega út úr kortinu að það hálfa væri nóg.

Var nokkur að tala um siðblindu?

Í dag hafa okkur borist fréttir varðandi væntanlegar skattahækkanir og eins og fyrri daginn þá glamra þeir hæst,  sem óttast að missa spón úr aski sínum.

Ég hlustaði á þá félaga Bjarna Ben. og Sigmund Davíð í kvöldfréttunum og hreint út sagt þá blöskraði mér.

Vita drengstaularnir ekki að hér er kreppa?

Vita þeir ekki af hverju ?

Þær úrlausnir sem þeir báru á borð fyrir okkur voru fólgnar í árás á lífeyrissjóðina, einu sinni enn.

Löngu kominn tími á pjakkana að taka til hjá sjálfum sér og hafa svo vit á því að halda kjafti.

Og að lokum,; Lifi hið, vonandi, óspillta Nýja-Ísland og þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Af aurum og auragræðgi.

Það kennir margra grasa í fréttaflóru dagsins.

Þar ber hæst kröfur tíu fyrrverandi starfsmanna Landsbankans sem nema rúmlega tveimur milljörðum króna.

Það er greinilega ekki verið að fara fram á leiðréttingu á vasapeningunum.

Þarna eru engir óbreyttir alþýðumenn á ferð heldur er talað um framkvæmdastjóra og nokkra forstöðumenn á hinum og þessum sviðum innan bankans.

Eitthvað rámar mig nú í að hafa heyrt talað um ofur-laun sem réttlætt voru með þeirri ofur-ábyrgð sem höfðingjarnir þurftu að axla.

Það fer reyndar lítið fyrir ábyrgð þessa dagana.

Kröfurnar eru á bilinu 229 milljónir upp í litlar 490 milljónir, sem er dágóð búbót. Sama hvernig á málið er litið.

Það kemur hvergi fram í fréttinni á hvaða grunni þessar kröfur eru byggðar, en á sama tíma og þær eru settar fram, í gjaldþrota þjóðfélagi, þá erum vér skattgreiðendur þessa lands þ.e. aldraðir, öryrkjar og verkafólk að berjast við að halda þjóðarskútunni á floti.

Mér koma í hug hin fleygu orð í bókinni "Animal farm". "Allir eru jafnir en sumir eru jafnari en aðrir."

Önnur frétt, sem reyndar fer minna fyrir, er að styrktarsjóðir hjartasjúklinga og hjartveikra barna, Blindrafélagið og Öryrkjabandalagið eru meðal félaga sem gera tugmilljóna kröfur í þrotabú Landsbankans samkvæmt kröfulista bankans.

Það læðist að mér sá ljóti grunur að þessum kröfum verði ýtt út af borðinu.

Hér koma svo gullkorn dagsins.

"Auk þess krefur Minningarsjóður Margrétar Björgólfs, sem Björgólfur Guðmundsson stofnaði, bankann um rétt rúmar 13 milljónir. Eins og greint frá fyrir skömmu var sá sjóður fjármagnaður með láni frá Landsbankanum, láni sem nú er til skoðunar hjá Fjármálaeftirlitinu."

Jamm, það verður ekki af Bjögga kallinum skafið að hann kann að reyta fjaðrirnar af fuglinum, jafnvel þó engar fjaðrir séu eftir, og kemst upp með það.

Maðurinn hefur jú skilið eftir sig sviðna jörð, hvar sem hann hefur stigið niður fæti, samanber Hafskip og fimm mánaða skilorðsdóminn sem hann fékk þá og hefur greinilega lært af reynslunni því svo kom Útvegsbankinn,já og Eimskip og Landsbankinn, jú og Icesave og hvað annað?

Sólbaðsstofur?  Vídeóleigur? Hvur veit. Kallinn hefur verið svo afkastamikill að það er ekki séns fyrir meðaljóninn að fylgjast með.

Ekki má gleyma "athafnamanninum" Hannesi Smárasyni, en hann er með forgangskröfu upp á rúmlega 1,2 milljarða í þrotabú Landsbankans .

Getur verið að þetta sé sá Hannes sem ásamt öðrum setti Sterling flugfélagið á hausinn?

Þegar hann ætlaði að kenna upphafsmönnum flugsins að reka flugfélag?

Nóg um það.

Hér er svo frétt sem vakti óskipta athygli mína.

"Ísland er í 8-10. sæti á nýjum lista stofnunarinnar Transparency International þar sem lagt er mat á spillingu í  180 ríkjum."

Hér varð ég kjafstopp. Það er ekkert hægt að segja annað en að það er af sem áður var. Úr efsta sæti og niðurávið. Þau voru ekki falleg lýsingarorðin sem notuð voru í útvarpsfréttunum.

Hvað skyldu annars orðtök eins og; Að ota sínum tota, og að skara eld að eigin köku þýða?

Svona rétt í lokin vil ég koma því á framfæri að síðan mín er ekki auglýsingamiðill!

Ég eyddi athugasemd sem var ekki í neinum tengslum við bloggfærsluna og mun gera slíkt aftur, ef þörf krefur.

Lifi hið lítið spillta Nýja-Ísland og þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Að kvöldi dags.

Ég hef ekki bloggað í nokkra daga en ég vil að það komi skýrt og greinilega fram að það er ekki leti sem veldur því.

Ég tók mig til á gamals aldri og settist á skólabekk.

Ég er nýkominn heim frá háskólanum á Bifröst þar sem ég eyddi helginni við nám- svokölluð vinnuhelgi- og upplifði tilfinningu sem ég hef ekki fundið fyrir frá því ég var barn að aldri og hóf grunnskólanám.

Fyrir þó nokkrum áratugum.

Þetta var einstaklega ánægjulegur og fræðandi tími sem ég kem til með að búa að um ókomna framtíð. Eins og gefur að skilja snerist allt um námið, engar stjórnmálalegar umræður.

En, nú er ég kominn heim.

Ég var að fylgjast með Kastljósi og þá sérstaklega viðtalinu við Jóhannes í Bónus.

Þar fannst mér fátt nýtt koma fram nema Jói kallinn þvertekur fyrir að skuldastaðan sé jafn slæm og fjölmiðlar hafa látið í veðri vaka.

Hmmm. Nú já.

Ef skuldastaðan er ekki slæm, ef reksturinn er í góðu lagi, ef hægt er að bjarga fyrirtækinu fyrir horn með sjö milljarða framlagi frá erlendum fjárfestum, ef þetta, ef hitt, ef......

Hvað er þá vandamálið?

Allar þær upplýsingar sem við óbreyttur almúginn höfum aðgang að í dag benda hinsvegar eindregið til þess að þeir feðgar Jói kallinn og  strákskömmin sonurinn  séu komnir á bólakaf í skuldafenið.

Hvað veldur?

Af hverju riðar "vel rekið fyrirtæki" á barmi gjaldþrots?

Er þetta eitthvað skylt margveðsettri eign minni , þ.e. fiskinum í sjónum?

Getur verið að einkaneyslan hafi keyrt fyrirtækið í þrot?

Einkaþotur kosta sitt. Það gera líka einkasnekkjur og, já, íbúðir á Manhattan.

Það glitti reyndar í ljósan punkt í tali Jóa. Hann hrósaði starfsfólki sínu, sem ég veit á það fullkomlega skilið.

En starfsfólkið bjargar ekki gjaldþrota fyrirtæki nema því aðeins að yfirtaka það.

Sem eftir á að hyggja er ekki svo galin hugmynd.

Meðan á viðtalinu stóð var ég með þá tilfinningu að þarna hefðu feðgarnir farið fram úr sér og þá sérstaklega yngri útgáfan.

Jói kallinn hefur gert marga góða hluti og ef ekki hefði komið til sögunnar þetta gjörsamlega misheppnaða fjármálabrölt sonarins, þá væri staðan önnur og mun betri í dag.

Lifi hið óspillta og frændklíkulausa Nýja-Ísland og þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Af niðurskurði.

Enn berast oss fréttir úr herbúðum stjórnarliða.

Nú á að skerða fjárveitingar til Hæstaréttar um tíu prósent.

Er enginn innan ríkisstjórnarinnar með réttu ráði lengur?

Ég minnist orða núverandi fjármálaráðherra þegar hann lýsti því yfir að hverju sandkorni yrði velt við

til að uppræta spillinguna.

Falleg orð en hverjar urðu efndirnar?

Nú er haldið til hlés.

Mér blöskraði þegar haft var eftir Steinunni Valdísi Óskarsdóttur að niðurskurðurinn kunni að hafa verið mistök.

Við höfum ekki efni á svona mistökum.

Það er til lítils að styrkja embætti sérstaks saksóknara, sem er allra góðra gjalda vert, á sama tíma og  fjársveltir og önnum kafnir dómstólar eru flöskuhálsinn .

Það veit jú hver einasti fermingardrengur að sakamál fara fyrir dómstólana.

Kannski hefur sá  þáttur málsins farið fram hjá fjármálaráðherra.

Okkur var lofað gagnsæi, já og allt skyldi upp á borðið en hverjar urðu svo efndirnar?

Á sama tíma og ríkisstjórnin sinnir sínu helsta áhugamáli þ.e. væntanleg umsókn okkar ástkæra Fróns inn í ESB, þá lengjast biðraðirnar fyrir utan hjálparstofnanir sem hafa það eitt markmið að koma öðrum til hjálpar. Þetta er velferðarríkið .

Land tækifæranna.   Land útrásarvíkinganna.

Ef þessi ríkisstjórn ætlar að halda velli þá ætti fyrsta verkefnið að vera uppstokkun í forgangsröðinni, þ.e. að slá þessari margumtöluðu "Skjaldborg" um heimilin og gleyma þessu ESB bulli.

Í fyrsta lagi er meirihluti þjóðarinnar andvígur aðild og svo í öðru lagi, og þetta held ég skipti meginmáli, þá er allsendis óvíst að ESB löndin kæri sig um okkar félagsskap. Alheimur veit ofur vel að  Íslendingar eru óreiðumenn sem standa ekki í skilum.

Þökk sé örfáum veruleikafirrtum og siðblindum einstaklingum.

Í framhaldi af því kemur mér í hug gamla orðtakið: Margur verður af aurunum api.

Ég vona að Hæstiréttur fái þessar sextán milljónir sem þeir þarfnast, ef ekki , jah, þá er maðkur í mysunni.

Lifi hið óspillta velmegunarþjóðfélag  Nýja-Ísland og þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Neyðarkall frá Hæstarétti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugleiðingar að morgni dags.

Ég vaknaði óvenju snemma í morgun og fylltist vellíðan þegar ég  stakk höfðinu  út um dyrnar til að anda að mér hreina loftinu  og dásama kyrrðina í litla fallega bænum mínum. Þessi vellíðunartilfinning fauk reyndar út í veður og vind þegar ég fór að lesa fréttasíðurnar.

 

Þar kennir margra grasa eins og fyrri daginn.

 

Viðskiptaráðherra segir hér að það verði að hækka skatta og hafa þá jafn háa eða sambærilega og þeir eru annars staðar á Norðurlöndunum.Þar er ég honum hjartanlega sammála, svo fremi það verði hægt að reyta þessa aura af hátekjufólkinu. 

 

En, það verður að segjast eins og er, að ekki voru allir á sama máli. 

Stjórnarandstaðan hafði í frammi mikinn hávaða, eins og þeirra var nú von og vísa, og talaði um brjálæði

 Gott og vel, þá er búið að setja okkur á sama bás og hinar “brjáluðu” Norðurlandaþjóðirnar.Það er nú þetta með dýrin í skóginum. 

Ég er ekki neitt sérlega talnaglöggur en þó fæ ég ekki séð annað en að væntanlegar skattahækkanir lendi á hátekjufólkinu.

Það er kannski það sem stjórnarandstaðan óttast.  Hér er kreppa og óþarfi að eyða tíma í að velta fyrir sér af hverra völdum hún stafar. 

Ég rak reyndar upp stór augu þegar ég las um laun borgarfulltrúa, sem slaga hátt upp í laun borgarstjóra.

Á hvaða tímum ætli þetta vesalings fólk lifi? 

Hafa þau ekki uppgötvað enn að hér ríkir bullandi kreppa, nú skal spara, nú verður að skera niður?

Ég minnist þess, þegar “yfirstéttin” tók á sig tíu prósenta launalækkun, að mínu mati ekkert annað en fáránleikinn í fullu veldi.Ömurlegur skrípaleikur sem hver sæmilega viti borinn maður hefði skammast sín fyrir að taka þátt í. Mér virðist, eftir þessari Mbl. frétt að dæma, að það sé helsta kappsmál háttvirta borgarfulltrúa að troða sér í sem flestar nefndir og hala inn smá vasapening. Svona ca. hálfa milljón, oná föstu mánaðarlaunin.Skyldu þessir aðilar fá laun fyrir þá fundi sem ekki eru sóttir?Hvað varð af hugsjóninni?

 

Ég legg til að nú verði settar upp stimpilklukkur á öllum þeim fundarstöðum sem háttvirtir borgarfulltrúar mæta – eiga að mæta – á, og laun borguð samkvæmt því.  Ég legg líka til að laun þeirra, fyrir fundarsetu, verði skorin niður, í það minnsta um helming.Ég veit mætavel að þó slíkt verði tekið til umræðu þá verður ekki hróflað við launum þeirra.                                                                                                                     Ég er reyndar með hugmynd sem ég kem á framfæri hér og nú.Ég er þess fullviss að á meðal þeirra sem í dag ganga atvinnulausir er hópur fólks sem myndi með glöðu geði taka að sér áðurnefndar fundarsetur og það í dagvinnu.

Það segir sig sjálft að laun háttvirtra borgarfulltrúa myndu lækka umtalsvert, en þess ber að gæta að vinnuálagið, sem hlýtur að vera ofboðslegt miðað við tímalaun þeirra, myndi að sama skapi minnka líka.

Og að lokum.

Lifi fyrirmyndarþjóðfélagið Nýja-Ísland, og þar til næst.

 

 

 

  

                           

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband