Þau eru ófá gullkornin í fréttamiðlum dagsins.

Til dæmis tvær fyrirsagnir í DV , sem ég rak augun í.

 

“Ráðherra býður “Sægreifum byrginn.”                                                                                                  

 

“Stolið frá “Sægreifum.”

 

Í framhaldi af þessu fór ég að vafra á netinu og komst að raun um að ekki eru nú allir “Sægreifar” beinlínis á barmi gjaldþrots.

Ég leyfi mér að benda á bloggsíðuna: nilli. blog. is. og fletta upp á færslunni:  Sjávarútvegur í herkví óheiðarlegra einstaklinga.  dags.22.10.2009. Bendi öllum á að lesa þessa færslu.

 

Útgerðarmönnum líka.

 

Reyndar fannst mér nú vanta þriðju fyrirsögnina  sem hefði gjarnan  mátt hljóða svo:

 

“Stolið frá almenningi.”

 

Í lögum um fiskveiðistjórnun segir:

“ 1. grein: Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og haghvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.”

 

Samkvæmt þessu þá er ég, sem íslenskur ríkisborgari, einn af eigendum fisksins sem syndir í íslenskri landhelgi. Í fréttinni  "Ráðherra býður Sægreifum byrginn" er smá klausa sem fékk gamla hjartað bókstaflega til að taka kipp af einskærri gleði, en þar kemur fram að ekki verður hægt að framselja þennan tvö þúsund tonna skötuselskvóta.

 

Hugsið ykkur. Sægreifarnir tala um þjófnað.

 

Ég held hinsvegar að loksins hafi sjávarútvegsráðherra vaknað til lífsins.

Það ber margt á góma þennan daginn á fréttasíðunum, meðal annars seinagangur á endurreisn bankanna sem kemur engum á óvart þar sem forgangsröðun núverandi ríksstjórnar er aðild Íslands í ESB og svo kemur Icesave.

Afgangur afgreiddur tilvildarlega að því mér virðist.

Lifi hið óspillta Nýja Ísland og þar til næst.


Nei, ekki meir.

 

Þeir eiga heiður skilinn fyrir vel unnin störf, lögreglan fyrir austan fjall.

Nú er þolinmæði mín á þrotum.

Landið okkar er að fyllast af alls kyns óþjóðalýð sem veður hér uppi  og yfirvöldin virðast standa ráðalaus.

Hvað veldur?

Svo ég vitni í einn bloggvin þá höfumm við sérstakan saksóknara og Evu Joly.

Við höfum fjármálaeftirlit,  efnahagsbrotadeild, ríkissaksóknara og  ríkislögreglustjóra sem samanlagt  geta rannsakað og sótt til saka.

 

Við höfum líka dómstóla sem ekki hafa efni á ljósritunarvél, sem leiddi til þess að:

 

Nauðgari gengur laus.

 

Nú er kominn tími á tiltekt í dómskerfinu.

 

Eru menn á hlaupum út um allan bæ í leit að ljósritunarvél?

 

Á svo að vinna verkin í yfirtíð ?

 

Þarna þarf að taka allhressilega til.

 

Hvað varðar ljósritunarvélina  þá væri tilvalið að “hlaupa” í Góða Hirðinn.

Þar  er oft hægt að gera góð kaup.

 

Lifi hið óspillta Nýja-Ísland og þar til næst.

 

 


mbl.is Fjöldahandtaka á Hvolsvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spilling á (Nýja) Íslandi?

Niðurstaða könnunar Háskólans á Bifröst kemur sennilega fáum á óvart, nema  kannski íslenskum stjórnvöldum og stöku veruleikafirrtum og siðblindum "útrásarvíkingum."

Djúpt liggja rætur spillingarinnar, og enn berast oss fréttir af fjármálamisferli. Í þetta skiptið er það Tryggingamiðstöðin sem undir forystu Óskars Magnússonar, braut lög þegar félagið lánaði Samherja einn milljarð króna til að kaupa hlut í sjálfu sér árið 2006.

Það getur ært óstöðugan að reyna að greiða úr þeirri flækju sem á bak við þetta mál er.

Ég læt það ógert.

Svo er það Exista. Hvað getur maður sosum sagt?  Þar er jú af nógu að taka. Eins og ég hef alltaf sagt: Það þarf ekki að grafa djúpt til að koma niður á óþverrann.

Það sem mér fannst athyglisvert við þessa frétt er að loksins hefur fyrsta  sakamálið vegna brota í aðdraganda bankahrunsins ratað fyrir héraðsdóm.

Eftir að hafa þvælst í "kerfinu" mánuðum saman.

Það er varla hægt að minnast á Landsbankann ógrátandi og þá ekki bara vegna þess hve asskoti flinkur Bjöggi gamli var að hamfletta fuglinn, heldur líka vegna þeirra vesalings manna sem áttu jú að heita stjórnendur bankans.

Skyldu ekki vera gerðar neinar lágmarkskröfur, hvað varðar menntun, fyrri störf og gáfnafar, til þeirra sem axla ofur-ábyrgð og þiggja ofur-laun ?

Hvað varð annars af ábyrgðinni?

Ekki má gleyma Óla kallinum óðalsbónda á Miðhrauni. Mér hlýnar alltaf um hjartaræturnar í hvert skipti er ég heyri ómþýðan vængjaslátt þyrlunnar, dreg sængina upp fyrir haus og hugsa til fuglsins sem flýgur fjöllum ofar.

En nú er hann Óli minn ekki í góðum málum.

"Egla sem er jú dótturfélag fjárfestingafélagsins Kjalars, sem er í eigu Ólafs Ólafssonar, sem oft er kenndur við Samskip," skuldar nú á níunda milljarð króna - sem eru jú miklir peningar.

Skyldi Óli kallinn þurfa fara af stað með betlibaukinn?

Það held ég varla.

Lifi hið nýja og óspillta Ísland.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Víða kemur Björgólfur kallinn við, svo ekki sé minnst á Bónus hyskið.

Ofan á allt annað sem kallinum hefur tekist að áorka á sinni spilltu ævi þá berast oss fréttir af enn áframhaldandi svínaríi.

Kallinum nægði ekki að setja Hafskip á hausinn og í framhaldi af því Útvegsbankann að ógleymdum Landsbankanum og þeim margumtöluðu Icesave reikningum, nei, nú er það Fyrirtækjabréf Landsbankans sem pungaði út með 400 millur.

Alls staðar hefur kallinn troðið puttunum- og komist upp með það.

Stjórnvöld sváfu á verðinum þá og sofa sínum ljúfa Þyrnirósarsvefni enn. Megi þau dreyma vel.

Á meðan grasserar spillingin áfram sem aldrei fyrr.

Í öllum siðmenntuðum löndum væri búið að hneppa þá Björgólfsfeðga í járn fyrir löngu og láta þá svara til saka.

Hér hinsvegar er bið á öllu og því lengri sem biðin er , þeim mun auðveldara verður hægt að hylja sporin.

Eftir að hafa horft á hæstvirtan fjármálaráðherra vorn undanfarna daga kemur mér helst í hug barinn hundur.

Lúbarinn.

Þvílíkt loðin svör benda eindregið til þess að nú sé höfðinginn farinn að draga í land.

Hvað varð af öllum stóru orðunum og fagurgalanum sem á okkur dundi, áður en Steingrímur komst í ríkisstjórn? Hvað varð um gagnsæið og heiðarleikann sem okkur var lofað?

Hvað snertir Bónusfyrirtækið þá jarmar maðurinn um reynslu stjórnenda til að reka fyrirtæki.

Kommon Steingrímur. Hvað með reynslu stjórnenda í gróðabralli, fjármálabraski svo ekki sé minnst á sýndarmennskuna sem blasti við okkur þegar litlir kallar voru að reyna sýnast stórir?

Mér kæmi ekki á óvart að þegar upp verður staðið verði kominn Bónus grís í hvert einasta krumma skuð landsins og Fálkaorðan um háls "útrásarvíkinganna", þó svo ég persónulega hefði kosið að sjá aðra tegund af spotta þar.

Hvað Björgólfana snertir býst ég fastlega við að yngra kvikindið haldi áfram að sóla sig í Cannes og þykjast vera stór kall. Að vissu leyti er hann þó stór, við megum ekki gleyma Icesave reikningunum sem eru að setja okkur á hausinn. Það má kallast afrek út af fyrir sig að koma heilu þjóðfélagi á hausinn, komast upp með það og gefa okkur svo langt nef.

Enn sofa stjórnvöld.

Lifi Nýja og óspillta Ísland sem lengst, og þar til næst. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Af umgengni útrásarvíkinga og venjulegra víkinga.

"Eitt brýnasta verkefni Þingvallanefndar í friðlandi þjóðgarðsins, er að taka á ömurlegri umgengni við hálfkarað sumarhús Ágústs Guðmundssonar, Bakkavararbróður, segir formaður nefndarinnar. Ruslið verður ekki fjarlægt í vetur."

Fjársvelt Þingvallanefnd þarf að takast á við sóðaskap eins útrásarvíkinganna sem augljóslega hefur enn ekki lært að þrífa afturendann að lokinni tilheyrandi athöfn.

Í frétt Vísis kemur fram að um er að ræða ófá tonn af drasli sem enn liggja eftir plús allt það rusl sem fokið hefur út á vatnið.

Nú er ég að velta fyrir mér, hvað ef mér óbreyttum borgara Nýja-Íslands yrði nú á að fleygja frá mér hálfétinni pulsu (pylsu ) ásamt tilheyrandi umbúðum, á þessum helgasta stað þjóðarinnar. Skyldi ég ekki fá skömm í hattinn og jafnvel smásekt?

Eins og svo oft áður, þegar reynt er að ná í skottið á viðkomandi aðilum , jah, þá næst ekki í þá.

Kannski væri fréttamönnum ráðlegast að panta viðtal hjá viðkomandi hátign. Sá hátturinn ku vera viðhafður erlendis, t.d. ef maður vill komast í samband við Bretadrottningu eða drottningu Danaveldis eða....

Að vísu hafa þær dömurnar talsmann sem þarf að svara öllum misjafnlega óþægilegum og jafnvel nærgöngulum spurningum.

Það er greinilegt að háttvirtur "Bakka(varar)bróðirinn, "Ágúst Guðmundsson , hefur tileinkað sér þá góðu siði sem tíðkast hjá þjóðhöfðingjum nærliggjandi landa.

Hvuddnin var það annars, er ekki Bakkavör komin á hausinn, já og Exista?

Hvuddnin skyldi Lýður "Bakka(varar)bróðir" fjármagna byggingarkostnaðinn á tæplega eitt þúsund ferm. kofakrílinu þarna í Fljótshlíðinni?

Það segir sig sjálft að maðurinn hlýtur að vera blankur.  Já, staurblankur.

Ég trúi því ekki fyrr en á reynir að um sé að ræða kennitöluflakk.

Ekki á Nýja-Íslandi þar sem gagnsæið og heiðarleikinn átti að vera allsráðandi. O nei.

Lifi Nýja-Ísland og þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 


Æ, þessi taumlausa auragræðgi...

...sem mér virðist ætli að ganga af landanum dauðum.

Nú berast oss þær fréttir að millistjórnendur gamla Landsbankans geri milljónakröfur í þrotabúið vegna kaupréttarsamninga og hæsta krafan er upp á litlar fjögur hundruð milljónir.

Það eru dágóð laun.

Ef minnið svíkur mig ekki þá voru ofurlaunin réttlætt með þeirri -ofur-ábyrgð sem hvíldi á -ofur- veikburða herðum stjórnenda Landsbankans, og reyndar fleiri banka.

Nú, þegar allir gömlu bankarnir eru komnir á hausinn, þá rísa starfsmenn upp, allir sem einn, bíta misskemmdum tönnum í skjaldarrendurnar og krefjast bóta.

Hvað varð annars af -ofur-ábyrgðinni?

Óbreyttur borgari Nýja-Íslands ber ábyrgð á gerðum sínum, þ.e. ef ég stel skinkubréfi þá fýk ég að öllum líkindum inn á Hraunið.

Var annars nokkuð verið að tala um siðblindu?

Í Vísis fréttinni segir orðrétt:

" Starfsmennirnir krefjast bóta vegna þess að þeir hefðu átt rétt á að kaupa hlutabréf í gjaldþrota fyrirtæki."

Hvað varð af sómatilfinningunni?

Ég bíð í ofvæni eftir niðurstöðu þessa máls.

Nú skulum við hinsvegar snúa okkur að málefnum sem snerta blessaðar mjólkurkýrnar okkar.

Nú er mér tjáð að stærsti jarðaeigandi landsins sé fasteignafélag  sem ku vera í eigu nokkurra auðmanna sem ég ,eftir á að hyggja, efast um að viti hvað snýr fram og aftur á blessaðri kúnni.

Í stjórn félagsins eru taldir upp menn sem allir eiga það sameiginlegt að tilheyra "elítunni." Sem segir mér að einn óbreyttur , eins og ég, á ekki upp á pallborðið hjá þeim háu höfðingjum nema þá kannski sem fjósamaður.

Svo er talað um beingreiðslur frá íslenska ríkinu upp á litlar fimmtíu milljónir króna sem reiknast út frá mjólkurkvótanum.

Það hefur margt breyst frá því ég var að alast upp í sveitinni. Þá voru til bændur sem höfðu hugsjón. Í dag virðst mér hugsjónin vera sú að græða, já og græða meira, en á hvers kostnað?

Að lokum, lifi hið nýja og óspillta Ísland og þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Ó, þetta blessaða barnalán.

Við Íslendingar höfum löngum þótt skara framúr öðrum þjóðum á flestum ef ekki öllum sviðum.

Í það minnsta að eigin mati.

Við erum hávaxnari, fríðari, gáfaðri og umfram allt þroskaðri en t. d. frændur okkar á hinum Norðurlöndunum.

Sem sést best á því að hérlendis geta ómálga börn gengið, nú eða skriðið, inn í bankann og slegið lán upp á nokkrar millur.

Ekki fer sögum af undirskrift en pabbi og mamma hljóta að hafa bjargað því.

Eins og gefur að skilja þá hlotnast slík lán fyrst og fremst þeim er skara fram úr. Samanber börn fyrrverandi stjórnarformanns í sparisjóðnum Byr, þar sem þrjú af ólögráða börnum hans fengu kúlulán frá Glitni til að taka þátt í stofnfjáraukningu Byrs.

Veðið fyrir lánunum var eingöngu í stofnfjárbréfunum.

Þetta er snilld. Bara að ég kæmist með tærnar þar sem þetta fólk hefur hælana.Crying

Það er nú bara með úthlutunina, hvort heldur það er kvóti eða gáfnafar, að stundum vill nú misskiptast.

Í lok fréttarinnar er smá klausa sem kom út á mér tárunum af bullandi öfundsýki.

"Jón Þorsteinn og systkini hans í Nóatúnsfjölskyldunni voru stórir hluthafar í Byr í gegnum eignarhaldsfélag sitt Saxhól og voru sömuleiðis stórir hluthafar í Íslandsbanka í gegnum félagið Saxbygg, ásamt Gunnari og Gylfa í verktakafyrirtækinu Bygg. Langflest, ef ekki öll barnalánin frá Glitni, fóru til barna í Nóatúnsfjölskyldunni.

Hver skyldi nú meðal greindarvísitalan innan fjölskyldunnar vera?

O, jæja, maður verður bara að sætta sig við að vera undirmálsmaður, þó það sé fj.... sárt.

Þar til næst.

 

 

 

 

 


Hvenær skyldi þessum ósköpum ljúka?

Fréttir dagsins eru eins og svo oft áður neikvæðar. Ég spyr sjálfan mig hvort ekki fari að linna, því satt best að segja finnst mér nóg komið.

Hæst ber á baugi afstaða Lilju Mósesdóttur hvað snertir Icesave samningana  margumtöluðu. Ég virði Lilju og hennar skoðanir en það sem ég hræðist er framhaldið. Ef það skyldi koma til stjórnarslita hvað fáum við þá í staðinn?

Verður það "Framsóknaríhaldið aftur"?

Er gullfiskaminni landans svo allsráðandi að fólk hafi virkilega gleymt sölu bankanna á sínum tíma, eða kvótagjöfinni, sem hafði í för með sér eitt það svívirðilegasta brask sem um getur í sögu lýðveldisins nú eða þá orkumælana sem háttvirtur Finnur Ingólfsson fleytir rjómann af?

Ekki má heldur gleyma feluleik þeirra aðila sem  tileinkað hafa sér orðtakið "Oft má satt kyrrt liggja" og hefðu komist upp með það ef ekki hefði viljað svo vel til að á fjörur okkar rak þessa stórkostlegu konu, Evu Joly ( Örugglega engin tilviljun ).

Þá varð fjaðrafok í hænsnakofanum.

Þeir sem höfðu sig mest í frammi eru að mínu mati þeir sem eitthvað hafa að fela, og ég er þess fullviss að þeir munu ekki hverfa í gleymskunnar djúp.

Þökk sé Evu.

Skyldi annars enginn vera farinn að þjást af svefntruflunum?

Mér koma í hug orð eins hæstvirts lögmannsins sem hélt því fram að ráðning Evu væri pólitísk og í þeim einum tilgangi gerð til að vekja traust á stjórnvöldum og gerðum þeirra.

Þessi vesalings maður hefur vonandi áttað sig á því að við erum ekki að ræða um einhverja puntudúkku.

Nú er bara að bíða átekta og sjá til.

Lifi hið nýja og spillingarlausa Ísland.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Af bruðli og búðahnupli.

Eins og alþjóð er kunnugt hefur verið rætt og ritað töluvert um "skúffufé" hæstvirtra ráðherra okkar og sýnist sitt hverjum.

Upphaflega var áðurnefnt "skúffufé" hugsað til að standa straum af óvæntum útgjöldum, en raunin hefur orðið allt önnur því af þeim áttatíu milljónum sem úthlutað hefur verið frá því í fyrrahaust hefur helmingurinn runnið greiðlega "heim í hérað."

Sennilega hafa ráðherrar misskilið bókstafinn.

Aurarnir, hvar svo sem þeir hafa lent, hafa örugglega komið sér vel en nú þegar niðurskurðar- hnífurinn er á fullu hljóta ráðherrar að gefa okkur óbreyttum borgurum gott fordæmi og herða sultarólina.

Forsætisráðherra vill að þetta fyrirkomulag verði jafnvel afnumið með öllu. Orð í tíma töluð. Það þarf aðhald á öllum sviðum.

Hvað skyldi annars vera hægt að fjölga mikið í löggæslunni fyrir áttatíu milljónir?  Þar er þörfin brýnni en einhverjar geðþóttaúthlutanir, svo ekki sé minnst á kjördæmapot.

Hér er svo ein lítil tilvitnun sem gladdi mig ósegjanlega.

" Forsætisráðherra segir auk þessa að stjórnmálaflokkarnir megi búast við að finna fyrir niðurskurðarhníf ríkisvaldsins."  Þó fyrr hefði verið.

Miklu fyrr.

Fjölgun lögreglumanna, sem mætti þá fjármagna með margnefndu "skúffufé" myndi án efa gjörbreyta stöðunni t.d. hvað varðar þau þjófagengi sem nú herja  í ríkari mæli en nokkru sinni fyrr á verslanir á höfuðborgarsvæðinu.

Búðahnuplið og aðgerðir gegn því kosta verslunareigendur 8 milljarða á ári.

Nú stunda dæmdir afbrotamenn iðju sína af meiri elju en nokkru sinni fyrr og að því er virðist, óáreittir, nema þá kannski í þau skipti sem þeir mæta fyrir dómstólana og fá á sig skilorðsbundinn dóm. Svo er horfið til fyrri iðju.

Undarlegt að engum þeirra skuli hafa verið vísað úr landi því lögum samkvæmt mun slíkt vera hægt.

Ef grannt er skoðað.

Ef lagabreytingu þarf til að losa okkur við ósómann þá hlýtur að vera hægt að vinna að slíku. Það er ótækt, ef svo ólíklega vildi nú til að fangelsispláss losnaði einhvern tímann, að við þurfum að fara að fóðra kvikindin. Við eigum nóg með okkar innfæddu.

Og svo í lokin.

Lifi Nýja-Ísland og þar til næst. 

Heimildir Rúv.

 

 

 

 

 

           


Nýtt hlutverk Nýja Kaupþings...

...virðist mér vera að afskrifa skuldir óreiðumanna.

Nú bendir allt til þess að bjarga eigi Jóni Ásg. Jóh. og fjölskyldu fyrir horn.

Það kemur fram í verklagsreglum bankans að "Áframhaldandi þátttaka eigenda og stjórnenda í þeim fyrirtækjum sem Nýi Kaupþing þarf að afskrifa skuldir hjá eða umbreyta skuldum í hlutafé er háð því að þeir njóti sérstaks trausts og þeir þyki mikilvægir fyrir framtíð fyrirtækisins." (Undirstrikun er mín).

Traust ?  Mikilvægi ?

Það er enginn ómissandi. Allra síst Jón Ásgeir.

Fjármálaráðherra vor er orðvar að vanda og talar um þær áherslur sem mótaðar hafa verið um jafnræði, skipulögð og samræmd vinnubrögð og gagnsæi.

Gagnsæi? Góður þessi.

Hér kemur ein frábær klausa sem segir í raun allt sem segja þarf.

"Steingrímur tekur fram að frammistaða stjórnenda skipti að sjálfsögðu máli. „Hvort reksturinn sé í lagi og menn hafi lent í vandræðum af óviðráðanlegum orsökum eða fyrir eigin mistök. Allt þarf þetta að meta eftir bestu getu.“

Er verið að draga í land?

Ég minnist orða um gagnsæi og að allt yrði dregið upp á yfirborðið. Síðan hefur augljóslega mikið vatn runnið til sjávar.

Hér er svo annar góður.

"Félagið skuldar Nýja Kaupþing tæpa fimmtíu milljarða króna. Skuldin er tilkomin þegar Jón Ásgeir og fjölskylda keyptu Haga af sjálfum sér úr Baugi í fyrra. Bankinn lánaði 1998 allt kaupverðið ."

Fjandans auli gat ég verið að hafa ekki verið í viðskiptum við Kaupþing. Þá hefði ég reynt að fá afskrifaðar skuldirnar á húskofanum. Maður er oft vitur eftir á.

Það kæmi mér ekki á óvart að þegar upp er staðið tróni Jón Ásgeir í hásætinu með geisla-Baug um hárlokkana.

Lengi lifi Nýja-Ísland og þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is 1998: Eigendur njóta trausts
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband